15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

215. mál, ráðningar í lausar stöður embættismanna

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstvirtur forseti. Ég hef lagt fsp. fyrir fjmrh. um ráðningar í lausar stöður embættismanna. Fsp. hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„1. Hefur ákvæðum 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi auglýsingar í lausar stöður ævinlega verið stranglega framfylgt?

2. Hafa verið veitt embætti s.l. fjögur ár án þess að gætt hafi verið ákvæða 5. gr. áðurgreindra laga og þær auglýstar með venjulegum fyrirvara? Ef svo er, í hvaða tilvikum og hvaða ástæður lágu til grundvallar?"

Ég vil aðeins, með leyfi herra forseta, fá að lesa upp 5. gr., sem ég vísa í, úr kaflanum um stjórnarfar, embættismenn og yfirvöld, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hún hljóðar svo:

„Lausar stöður skal auglýsa í Lögbirtingablaði, venjulega með fjögurra vikna fyrirvara. Heimilt er að taka til greina umsóknir, sem berast eftir að liðinn er umsóknarfrestur, enda hafi staðan ekki þegar verið veitt eða í hana sett eða maður í hana ráðinn eftir að frestur var liðinn. Veita skal umsækjendum og viðurkenndum félögum opinberra starfsmanna kost á að fá vitneskju um það hverjir sótt hafa. Nú hefur staða verið auglýst en eigi þykir rétt að skipa nokkurn umsækjanda í hana og má þá setja þann umsækjanda sem næst þykir standa til þess að fá skipun. Veita má slíkum manni stöðu án auglýsingar að nýju eftir að hann hefur gegnt henni óaðfinnanlega eitt ár eða lengur, enda á hann þá rétt á að fá úr því skorið hvort hann eigi að fá veitingu. Ákvæði þessarar greinar taka ekki til starfa í þágu utanríkisþjónustunnar.“

Hér koma greinilega fram þær einu undantekningar sem gerðar eru frá lögunum annars, en eins og segir í 1. gr., með leyfi forseta, þessara sömu laga:

„Lög þessi taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins með föstum launum meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf.“

Ég vonast til þess að við þessu liggi nokkuð einhlít svör, en mér þætti fróðlegt, þó að það komi ekki fram í fsp., að fá um það upplýsingar, ef þær liggja fyrir hjá hæstv. fjmrh., hvort farið hefur verið út á þá braut í seinni tíð að lausráða starfsmenn í ríkara mæli en áður hefur tíðkast.