15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

215. mál, ráðningar í lausar stöður embættismanna

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin þótt mér þyki þau heldur rýr eftir allan þann tíma sem hefur tekið að fá svör við fsp., en það var beðið um sérstakan frest til að svara þessu af ráðuneytisins hálfu vegna þess að eftir því hvernig spurningarnar hefðu verið settar fram hefði þurft að svara þessu svo ítarlega.

En það kom ekkert fram um hvort þetta væri í einhverjum sérstökum mæli gert nema þá innan heilbrrn. og ekkert gat hæstv. ráðh. um svör við þeirri spurningu, sem ég beindi til hans í lokin, hvort um það væri að ræða að fólk væri í meira mæli en áður lausráðið. Ég hef ástæðu til að ætla að svo sé og ríkisstofnanir virðast ekki þurfa að standa við þau stöðugildi sem þeim eru sett mörk um. Forsvarsmenn stofnana virðast geta lausráðið fólk þegar þeim þykir svo þurfa. Ég hefði gjarnan kosið að fá um það svör hér frá hæstv. ráðh. hvort það tíðkist ekki hjá ráðuneytum að stjórnir og ráð og yfirmenn stofnana þurfi að gera grein fyrir því hverju sinni ef það sé augljóst að það vanti fólk til starfa.

Mér er t.d. kunnugt um að hjá Reykjavíkurborg er stöðufjöldi borgarstofnana ákveðinn á fjárhagsáætlun og það þarf að fara fyrir borgarráð ef beiðni berst um fjölgun áður en hægt er að ráða. Ég hélt í einfeldni minni að það sama ætti óhjákvæmilega við um ríkisstofnanir. En þetta virðist vera tíðkað í auknum mæli og svo þegar að því kemur að staðan er auglýst sækja þeir sem eru lausráðnir og þeir eru í flestum tilfellum ráðnir vegna þess að þeir eru hæfastir og hafa mesta reynsluna sem hinum hefur af eðlilegum ástæðum ekki tekist að verða sér úti um.

Það hefði verið fróðlegt að fá svör við þessu í framhjáhlaupi vegna þess að þetta snertir svo mjög hina spurninguna.