15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

230. mál, aukastörf embættismanna

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fjmrn. óskaði eftir því við einstök ráðuneyti eftir að fsp. sem hér er til umræðu var lögð fram að þau gerðu grein fyrir framkvæmd þess lagaákvæðis sem hér um ræðir og svör hafa borist frá ráðuneytum, en rétt er að taka fram að það tók alllangan tíma að innheimta svör frá sumum þeirra.

Skv. 34. gr. laga nr. 38/1954 hvílir skylda á starfsmanni að skýra því stjórnvaldi, er veitti honum stöðu, frá því ef hann stofnar til atvinnurekstrar eða hyggst taka við starfi sem nánar er skilgreint í greininni. Af hálfu ráðuneytanna virðist svo sem almennt hafi ekki verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að ganga úr skugga um að starfsmenn fylgi þessari lagaskyldu. Hins vegar er ætlast til þess að forstöðumaður stofnunar gæti þess á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis að starfsmaður hafi ekki þau aukastörf á hendi sem brjóta í bága við ákvæði þessara laga eða gera hann á annan hátt ófæran um að sinna starfi sínu.

Almennt virðist mega ráða af svörum ráðuneytanna að sjaldgæft sé að embættismenn gegni öðrum launuðum störfum hjá einkaaðilum eða við eigin atvinnurekstur. Hins vegar er ekki óalgengt að embættismönnum sé falið að gegna öðrum launuðum störfum í þágu ríkisins, svo sem nefndarstörfum, kennslu og fleira af því tagi. Þegar taka þarf afstöðu til þess af hálfu stjórnvalds hvort embættismaður geti gegnt aukastarfi er það fyrst og fremst lagt til grundvallar að aukastarfið fái samrýmst stöðu hans og það valdi ekki vanrækslu.

Þetta eru þau meginatriði sem ráða má af svörum viðkomandi ráðuneyta sem fjmrn. hafa borist í tilefni af þessari fsp.