15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

230. mál, aukastörf embættismanna

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég hef samt sem áður ástæðu til að ætla að það sé heilmikið um þetta og ekki víst að fólk sé hreinlega á varðbergi fyrir því að um slíkt sé að ræða. Síðast í dag var ég að lesa Dagblaðið og rakst þá á að þar var getið um einn opinberan starfsmann og jafnframt tekið til hvaða fyrirtæki hann ræki á eigin vegum. Það var talað um það í framhjáhlaupi í þessari blaðagrein. Ég held að þetta sé orðið svo algengt, að menn gegni einu starfi eða fleirum utan stöðu sinnar hjá ríkinu, að menn séu nánast hættir að gefa því gaum.

T.d. er til að taka að lögreglumenn vinna meira eða minna utan þeirrar stöðu sem þeir gegna hjá ríkinu, annaðhvort þá meðfram hjá ríkinu annarri stöðu eða þá í eigin atvinnurekstri. Auðvitað er þetta alfarið vegna þess að það eru skammarlega lág laun sem liggja til grundvallar þessu og ekkert spursmál um að það þarf að bæta úr því.

En ég tel að það sé eðlilegt að löggjafinn hafi eftirlit með því hvernig þessu er farið og ef um það er að ræða að lögin nái ekki tilgangi sínum er spurning hvort ekki þarf að breyta þeim á einhvern hátt. Hins vegar tel ég líka eðlilegt að forstöðumenn stofnana hafi fengið beiðni um svör við þessari spurningu til þess þó ekki væri nema að þeir gerðu sér grein fyrir hverjar skyldur þeirra væru í þágu ríkisins.