15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3812 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

393. mál, stuðningur við loðdýrabændur

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna þess verðfalls sem varð á loðdýraskinnum í vetur á uppboðsmörkuðum erlendis og fyrst og fremst stafar af því að skinnaverðið fylgir dollaraverðinu, sem hefur lækkað mjög mikið miðað við aðra erlenda gjaldmiðla á síðasta ári, sendi Samband loðdýrabænda landbrn. bréf þar sem það óskaði eftir athugun á því hvað hægt væri að gera til að draga úr þessum áföllum. Í þessu bréfi voru upp talin öll þau atriði sem koma fram hér í fsp. hv. fyrirspyrjanda ásamt einhverjum fleirum. Þegar þetta barst var boðaður fundur með fulltrúum frá loðdýrabændum og landbrn. og fjmrn. þar sem þessi mál voru rædd en ákveðið að það þyrfti að skoða þau betur og tilnefna skyldi sérstakan hóp til að vinna að málunum. Það hefur verið gert og er hann nú að vinna að athugun þessara mála og á þeim atriðum, sem eru borin fram í fsp., ásamt fleirum.

Það var frá upphafi ljóst að verð á skinnum er breytilegt frá ári til árs. Svo hefur alltaf verið. Því mátti búast við slíku. Eina varanlega lausnin í þessu máli er því sú að reyna að skapa betri grundvöll fyrir loðdýraræktina. Annars vegar er það með lækkun fjárfestingarkostnaðar og hins vegar lækkun rekstrarkostnaðar en þar er fóðrið langstærsti liðurinn.

Á s.l. ári voru gerðar margvíslegar ráðstafanir af opinberri hálfu til að draga úr fjárfestingarkostnaðinum og einnig er verið að vinna að því áfram að skipuleggja fóðurframleiðsluna sem best þannig að hún geti orðið sem hagkvæmust.

Byggðastofnun hefur verið í vetur að gera úttekt og endurskoða fyrri áætlanir um þessi mál og þá sérstaklega í sambandi við fóðurframleiðsluna. Þeirri vinnu er að ljúka. Það er gert ráð fyrir að fóðurnotkun verði sums staðar allt að því helmingi meiri á þessu ári en var á síðasta ári. Miðað við þá útreikninga sem ég hef séð frá Byggðastofnun, fyrstu upplýsingar, er von til þess að fóðurverð frá fóðurstöðvum, sem fá aukinn markað, geti haldist óbreytt frá fyrra ári. Sjá allir hversu mikið hagræði það verður fyrir reksturinn á þessu ári, þ.e. hvernig aukið magn leiðir til lækkandi fóðurverðs.

Að öllum þessum málum er verið að vinna og leita allra leiða til að gera þessa atvinnugrein sem álitlegasta þar sem þörfin er mjög mikil.