15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3813 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

393. mál, stuðningur við loðdýrabændur

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að ekki skuli liggja fyrir skýrari stefna af hálfu stjórnvalda í þessu máli því að raunar gat hæstv. ráðh. ekki svarað neinu ákveðnu til um hvort og þá í hvaða formi yrði gripið til stuðnings af stjórnvalda hálfu í þessu sambandi. Ráðstafanir til lækkunar á fjárfestingarkostnaði á s.l. ári hjálpa ekki mikið til viðbótar á þessu ári í þeim erfiðleikum sem við blasa þó að það sé allt góðra gjalda vert og auðvitað er það gott ef fóðurkostnaður þarf ekki að hækka.

Staðan er ekki aðeins mjög erfið hjá loðdýrabændum, sem vinna nú kauplaust margir hverjir og borga með sér í störfum í reynd, heldur eru fóðurstöðvar þeirra nálægt í þroti sumar hverjar, eiga a.m.k. í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, vegna þess að bændurnir hafa ekki haft möguleika á að greiða fóðrið. Hér er því við mjög mikla erfiðleika að etja. Ég vil eindregið hvetja stjórnvöld, og þar á meðal hæstv. landbrh. en einnig hæstv. fjmrh., til að taka á þessum málum fyrr en seinna. Nógir eru erfiðleikar í sveitum í hefðbundnum búgreinum, sem við eigum eftir að ræða vonandi nánar áður en þessu þingi lýkur, þó að ekki bætist við að þeir sem að hinum nýju búgreinum standa séu í þroti og þurfi e.t.v. að gefast upp.

Við verðum að vænta þess að hér sé um tímabundna erfiðleika að ræða. Gengismunurinn t.d. á afurðalánunum skiptir hér allverulegu máli. Í því dæmi sem ég nefndi áðan var reiknað út að gengismunurinn næmi 71 kr. pr. skinn og það safnast þegar saman kemur. Það eru um 70 000 á þau bú að meðaltali sem voru til grundvallar í þeim útreikningum sem ég nefndi áðan.

Ég hvet því stjórnvöld til að marka sína afstöðu hið fyrsta og það er brýn nauðsyn að sá hópur, sem hæstv. ráðh. nefndi að væri að störfum, ljúki þeim fyrr en seinna því að óvissan er erfið og nánast óþolandi fyrir þá sem í þessum rekstri standa.