17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. sér ekki ástæðu til að víkja einu orði að fjárhagserfiðleikum heimilanna í sinni stefnuræðu. Ekki orð heldur vegna ógnvekjandi vanda og neyðar þúsunda fjölskyldna sem eru með eigur sína á uppboði vegna þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið. Það eina sem forsrh. hefur fram að færa við heimilin eru hótanir, hótanir um að sætti launafólk sig ekki áfram við kaupskerðingu og aukna skattbyrði sé efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í voða.

En þennan boðskap, hæstv. forsrh., þýðir ekki lengur að bera á borð fyrir launafólk. Þú skuldar launafólki skýringu á hrikalegum viðskiptahalla og aukningu erlendra skulda um 13 milljarða í stjórnartíð þinni. Hvað varð um öll verðmætin, þann fjórðung af tekjum heimilanna sem launafólk af þröngum efnum lagði af mörkum til að gera sitt til að minnka erlendar lántökur og halda hriplekri þjóðarskútunni á floti? Ríkisstj. skilur ekki að það eru ekki laun fólksins sem eru að stefna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða heldur stjórnarstefnan sjálf - eða ætlar forsrh. virkilega að bera það á borð fyrir fiskvinnslukonuna sem ber úr býtum 92 kr. í tímakaup eftir 40 ára starf við verðmætasköpun í þjóðfélaginu að laun hennar stefni efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða eða að 16 000 kr. dagvinnulaun láglaunafólks séu orsök þess vanda sem við er að glíma? Við slík kjör búa um 5000 einstæðar mæður með um 7000 börn á framfæri sínu, einstæðu mæðurnar sem skv. nýlegum upplýsingum greiða skattana fyrir atvinnurekendur.

Þetta eru m.a. konurnar sem vinna að verðmætasköpun í störfum ófaglærðra í þjóðfélaginu og í hefðbundnum kvennastarfsgreinum þar sem flótti er brostinn á vegna vinnuþrældóms og lágra launa. Afleiðingarnar birtast okkur m.a. í skorti á fóstrum á dagvistarheimilum og að fjöldi vistrýma stendur auður í B-álmu Borgarspítalans þrátt fyrir neyðarástand í vistunarmálum aldraðra. Konurnar í láglaunastéttunum geta ekki lifað eftir leikreglum bankastjóranna og ekið um á fríum bílum með launaauka í vasanum og sloppið við að greiða iðgjöld af sínum lífeyri. Samt uppsker iðgjaldafríi bankastjórinn hálfs árs laun ófaglærðu verkakonunnar eða 90 þús. kr. sér til framfærslu og fjárhagslegs öryggis á hverjum einasta mánuði í ellinni. Verkakonan sem samviskusamlega greiðir sín iðgjöld horfir fram á ævikvöldið með 5% af lífeyri bankastjórans sér til framfærslu. Jöfn bankastjóranum stendur hún ekki fyrr en í himnaríki, enda þarf blessaður bankastjórinn aðeins að leggja til hliðar lífeyri sinn í hálfan mánuð til að eiga fyrir sinni útför meðan verkakonan þarf á að halda öllum sínum lífeyri úr lífeyrissjóðnum í heila tíu mánuði til að eiga fyrir sinni útför. Samt hafði forsrh. ekkert við ellilífeyrisþega að tala í sinni stefnuræðu nema nöldra og barma sér sáran yfir því að tryggingabætur gamla fólksins eigi sök á rekstrarhalla ríkissjóðs og hve bætur ellilífeyrisþega vegi þungt í útgjöldum trygginganna.

Hæstv. forsrh. virðist ekkert eiga vantalað við launafólk nema segja því að spara og herða sultarólina á sama tíma og ríkisreikningur sýnir að risna forsrn. hefur hækkað um 202% milli ára. Slíkt bruðl er auðvitað dýrt spaug ef fjármagna þarf halla ríkissjóðs með erlendum lánum.

Spyrja má líka forsrh.: Hvað á launafólk að spara þegar allt hækkar nema kaupið og dagvinnutekjur nægja ekki fyrir matarreikningi eða húsaskjóli? Kannske var forsrh. að beina orðum sínum um sparnað og aðhald til þeirra þúsunda fjölskyldna sem eru með eigur sínar undir hamrinum og sætt hafa þvílíkri eignaupptöku að í öllum siðuðum löndum væri búið að kippa stólunum tíu undan rassinum á þeim ráðamönnum sem höguðu stjórnarstefnunni með þeim hætti. Ekki einu sinni stólaskipti kæmu til greina.

Lítum á hvernig íhaldið framkvæmir eignastefnu sína. Hún er framkvæmd með eignaupptöku. 400 þús. kr. húsnæðisstjórnarlán, sem í upphafi ríkisstjórnartímabils Steingríms Hermannssonar samsvaraði 47,6 mánaðarlaunum, er í dag orðið 810 þús. kr. eða 49,3 mánaðarlaun þrátt fyrir að greitt hafi verið af því sem samsvarar 5,5 mánaðarlaunum. Eignaupptaka af 400 þús. kr. láni er 7,5 mánaðarlaun verkamanns. Íbúðarkaupandinn hefur til einskis stritað í 7,5 mánuði. Hann situr áfram eignalaus auk þess að hafa tapað 128 þús. kr. að raungildi. Við okur- og ránskjarastefnuna bætist síðan að launa og lífskjör verkafólks á Íslandi eru með þeim lægstu sem þekkjast í Evrópu. Þetta fólk spyr með réttu: Hvað verður um þau miklu verðmæti sem erfiði og strit vinnandi fólks skapa? Hve stór hluti verðmætanna og afraksturs af vinnu launafólks lendir í höndum gróðaaflanna í þjóðfélaginu, gróðaaflanna sem lifa á neyð vinnandi fólks, gróðaaflanna sem lifa í skjóli neðanjarðarhagkerfis, á skuldabréfabraski verðbréfamarkaðarins eða fjármagna sínar lystireisur og lúxuslíf með undandrætti frá skatti?

Ástæða er til að minna á að Alþfl. hefur einn flokka á Alþingi markað skýra stefnu um aðgerðir gegn skattsvikum, en tillögur flokksins voru samþykktar sem ályktun Alþingis vorið 1984 og eru sumar komnar til framkvæmda. M.a. hefur skattaeftirlitið, rannsóknarlögreglan og sakadómur Reykjavíkur fengið aukinn mannafla vegna átaks gegn skattsvikum og efnahagsbrotum.

En hvað er fram undan fyrir heimilin og launþega í landinu? Í fyrstu fjárlögum Alberts Guðmundssonar 1984 voru útgjöld til félagsmála skorin niður um 1100 millj. kr., en fyrir þá upphæð hefði verið hægt að byggja 300-400 íbúðir fyrir láglaunafólk. En áfram er haldið á sömu braut og einkenni fjárlaga aukin skattbyrði heimilanna og niðurskurður til samneyslunnar. Enn einu sinni er sótt að Framkvæmdasjóði fatlaðra sem ekki fær eina krónu í hækkun milli ára. Framlög til dagvistarmála eru skorin niður. Engin aukning verður á framlagi milli ára til húsnæðismála þrátt fyrir að söluskattur hafi verið hækkaður í því skyni að gera sérstakt átak í húsnæðismálum á næsta ári.

Ríkisstj. hefur verið iðin við að veita fyrirtækjum og fjármagnseigendum skattaívilnanir og fríðindi svo hundruðum milljóna skiptir. Nú á að auka skattbyrði heimilanna. Nýjar skattaálögur eru boðaðar í formi vörugjalds, sölugjalds, bensíngjalds og hækkunar á gjaldskráin þjónustufyrirtækja. Tekjuskattslækkunin sem íhaldið lofaði og nota átti sem skiptimynt í samningum við launafólk er meira en tekin aftur í formi neysluskatta sem verst kemur niður á láglaunaheimilunum í landinu. Láglaunafólkið fær það varla bætt gegnum alinannatryggingakerfið því framlög til almannatrygginga og Atvinnuleysistryggingasjóðs eru lækkuð um 250 millj. kr. milli ára.

Það vekur líka furðu að á sama tíma og fyrrv. fjmrh. fleygir 40 millj. á borðið til að staðgreiða nýja áfengisútsölu í enn einni verslanahöllinni, þá er 1 millj. kr. fjárveiting - 1 millj. kr. fjárveiting - til aðgerða gegn fíkniefnum skorin niður í 675 þús. kr. Slíkur niðurskurður mun leiða til stóraukinna útgjalda til félags- og heilbrigðismála á næstu árum. Hér er um stórt þjóðfélagslegt vandamál að ræða sem skiptir okkur öll máli. Ég skora á ríkisstj. að breyta afstöðu sinni og stórauka framlög til aðgerða gegn fíkniefnamálum í stað þess að skera þau niður. Engin fjölskylda er óhult fyrir þessum vágesti sem ógnar lífi og hamingju fjölda ungmenna og fjölskyldna í landinu og hefur í för með sér stóraukin afbrot í þjóðfélaginu.

Góðir Íslendingar. Ég hef hér sýnt fram á hvernig ráðist hefur verið að samneyslunni og velferð þeirra sem síst skyldi og hvernig fjármagnseigendur og gróðaöflin í þjóðfélaginu vaða uppi og fitna í tíð þessarar ríkisstj. á kostnað launafólks. Formaður Alþfl. mun hér á eftir kynna róttækar umbótatillögur Alþfl. Þær eru lykillinn að jöfnuði í eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og forsenda þess að ná fram þjóðfélagslegu réttlæti og þjóðarsátt um nýjar leiðir til bættra lífskjara. Alþfl. sem forustu- og sameiningarafl jafnaðarmanna og félagshyggjufólks er það sóknarafl sem mun duga til að brjóta á bak aftur framgang frjálshyggjunnar, fjármagnseigenda og íhaldsaflanna sem gert hefur þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari í þessu þjóðfélagi.