15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3815 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

374. mál, innheimta skyldusparnaðar

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka félmrh. svör hans. Ég vænti þess að honum sem fleirum sé ljóst að það kerfi sem nú er í gangi er gjörsamlega ónýtt og það þurfi að fara fram veruleg endurskoðun á því.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherra að fyrirhugað er að setja í lög að lögtaksheimild verði fyrir hendi í innheimtu á þessum gjöldum og er þess vissulega þörf.

Hann minntist á að Húsnæðisstofnun vísaði stundum til stéttarfélaga varðandi innheimtu á þessum launum. Því miður er það svo að samskipti stéttarfélaga við innheimtuaðila hafa verið mjög stirð og aðstaða stéttarfélaga til að innheimta þessa hluti erfið vegna þess að þau eru ekki innheimtuaðili þessa skyldusparnaðar. Því hefur aðstoð stéttarfélaganna ekki komið að gagni, því miður.

Ég vænti þess að ef lögtaksheimild fæst muni verða ráðin bót á þessu vandræðaástandi, en með núverandi kerfi er haft stórfé af launþegum og líka það að skyldusparnaðarkerfið, sem vissulega á fullan rétt á sér, er aðeins svipur hjá sjón.