15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3815 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

388. mál, sparnaður í ráðuneytum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 713, 714 og 715 eru fsp. sem ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. fjmrh. Tilefni þeirra allra er hið sama. Við afgreiðslu fjárlaga ársins í ár gerði ríkisstj. með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar ráð fyrir sparnaði í ríkisútgjöldum sem nemi nokkrum hundruðum milljóna kr., m.a. í rekstri ríkisstofnana, í launaútgjöldum og Tryggingastofnun ríkisins. Einstakir nefndarmenn í fjvn. leituðu margsinnis eftir útfærslu og tillögum um hvernig ríkisstj. hygðist ná þessum sparnaði, en fengu aldrei ákveðin svör við þeim spurningum og engar tillögur hafa enn sést um hvernig ætlunin er að ná þessu takmarki, enda þótt fjórðungur fjárlagaársins sé liðinn.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. sagði hæstv. fjmrh. m.a., með leyfi forseta:

„Lagt er til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 574 millj. frá því sem greinir í frv. Ráðgert er að af sparnaði í rekstrarútgjöldum náist tæplega 50 millj. kr. með lækkun einstakra rekstrarverkefna eða frestun þeirra um stundarsakir, en 120 millj. kr. náist með sérstökum sparnaðaraðgerðum á vegum ráðuneyta og stofnana ríkisins. Er fyrirhugað að setja ákveðin mörk á fjárveitingar til einstakra útgjaldaliða, m.a. ferða- og bílakostnað, risnu og aðkeypta þjónustu af ýmsu tagi.“

Við 3. umr. ítrekaði hv. formaður fjvn. þessa ætlan ríkisstj. og mér vitanlega hefur ekki verið horfið frá henni. Hins vegar verður ekki séð af fréttum og umræðum um þessi mál að neinar þær breytingar hafi orðið á skipan þessara mála sem um munar. Hæstv. ráðherrar eru stöðugt á faraldsfæti, Saga class er þéttsetið ríkisstarfsmönnum í flestum ferðum og ekki er vitað að dregið hafi úr veisluhöldum hins opinbera. Því spyr ég hæstv. fjmrh. á þskj. 713 hvaða reglur gilda um ferða- og bílakostnað, risnu og aðkeypta þjónustu af ýmsu tagi á vegum ríkisins og í öðru lagi: hefur þeim reglum verið breytt eða á annan hátt reynt að ná því markmiði, sem sett var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986, um 120 millj. kr. lækkun rekstrarkostnaðar í ráðuneytum og ríkisstofnunum?