15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3816 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

388. mál, sparnaður í ráðuneytum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Spurt er um hvaða reglur gildi um ferða- og bílakostnað, risnu og aðkeypta þjónustu af ýmsu tagi á vegum ríkisins í samræmi við áform um lækkun útgjalda á þessum sviðum.

Að því er varðar ferða- og bílakostnað er það að segja að í byrjun þessa árs voru ráðuneytum kynntar leiðbeiningar til að ná þessu markmiði fjárlaga fyrir árið 1986. Þau atriði sem lögð var áhersla á voru þessi: Í fyrsta lagi að ferðaáætlanir ráðuneyta og stofnana yrðu endurskoðaðar : öðru lagi að leitað yrði eftir samningi við flutningsaðila um fargjöld í styttri ferðum. Í þriðja lagi að gerð yrði athugun á samningsbundnum erlendum ferðum starfshópa hjá ríkinu. Og í fjórða lagi að endurskoðaðir yrðu aksturssamningar og útboð á bílaleigubílum fyrir ríkisstofnanir. Einstökum ráðuneytum var gerð grein fyrir þessum atriðum í byrjun árs og falin framkvæmd þeirra.

Að því er varðar aðkeypta þjónustu er það að segja að Fjárlaga- og hagsýslustofnun gerði í janúar s.l. könnun meðal ráðgjafarfyrirtækja um hvaða þjónustu aðilar veittu og gjaldskrár þeirra. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur enn fremur gefið út leiðbeiningabækling til ríkisaðila sem greinir frá helstu atriðum sem taka skal tillit til við gerð samnings um ráðgjöf. Ráðuneyti og stofnanir voru enn fremur beðnar um upplýsingar um áform um aðkeypta ráðgjöf og þjónustu á árinu 1986.

Það er ljóst að aðkeypt þjónusta af ýmsu tagi hefur hækkað meira en nemur almennum launabreytingum í landinu og er því nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir af því tilefni. Til að mynda má nefna að frá 4. ársfjórðungi 1983 hafa laun Bandalags háskólamanna hækkað um rúmlega 73%, en útseldir taxtar verkfræðiskrifstofa um rúmlega 90%. Fyrir því hafa verið teknar ákvarðanir í ríkisstj. þess efnis að ekki verði sjálfkrafa viðurkenndir taxtar ráðgjafarfyrirtækja sem byggjast á samningum fyrirtækjanna við starfsmenn sína. Í raun og veru eru fyrirtækin þar með að semja um eigin tekjur við sína starfsmenn. Héðan í frá verða taxtar af þessu tagi ekki viðurkenndir nema þeir séu í samræmi við almennar launabreytingar. Leitað verður eftir almennum samningum við ráðgjafarfyrirtæki um þessi efni. Þegar hefur verið ákveðið að auka útboð á þjónustustarfsemi. M.a. hefur verið lagt til að aukin verði útboð á hönnun og verklegum framkvæmdum í einum og sama pakka, ef þannig má taka til orða.

Að því er varðar risnukostnað var þegar í stað óskað eftir því við einstök ráðuneyti að ýtrasta aðhalds yrði gætt í þeim efnum í samræmi við ákvörðun Alþingis við samþykkt fjárlaga.

Þá er spurt hvort þeim reglum hafi verið breytt eða á annan hátt reynt að ná fram því markmiði sem sett var með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986 um 120 millj. kr. lækkun rekstrarkostnaðar í ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Svarið er þetta: Fjárveitingar til einstakra ráðuneyta og stofnana hafa verið hlutfallslega lækkaðar þannig að 120 millj. kr. lækkunin nái fram að ganga. Forstöðumönnum ráðuneyta og ríkisstofnana hefur þar með verið falið að sjá svo um að fyrirhuguðum sparnaði verði náð á þessu ári.

Fjmrn. hefur látið ráðuneytum og stofnunum í té 1eiðbeiningar um atriði sem taka þarf tillit til svo að þessum settu markmiðum verði náð.