15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3818 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

313. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Fyrirspyrjandi (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Hér á Alþingi var þann 27. apríl 1982 samþykkt svofelld þál., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. skipun fimm manna nefndar til að gera heildarathugun á fiski- og farskipahöfnum landsins með tilliti til slysahættu sjómanna og annarra sem um hafnir fara. Í nefndinni sitji einn fulltrúi tilnefndur af Slysavarnafélagi Íslands og sé hann formaður nefndarinnar. Eftirtaldir aðilar skipi hver einn fulltrúa í nefndina: Siglingamálastofnun ríkisins, Hafnamálastofnun ríkisins, Landssamband ísl. útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands. Skal starf nefndarinnar miða að því a) að benda á kunnar eða hugsanlegar slysagildrur við hafnarmannvirki og landgang skipa og báta, b) að benda á við hvaða hafnir landsins og á hvaða sviði sé helst og brýnust þörf úrbóta, e) að kanna aðbúnað til björgunar og slysavarna við hafnir landsins, d) að gera tillögur um leiðir til úrbóta í ofangreindu efni sjómönnum og öðrum sem um hafnir fara til aukins öryggis.

Ofangreind athugun og tillögugerð skal liggja fyrir eigi síðar en í árslok 1982.“

Þann 15. nóv. 1982 voru nefndarmenn skipaðir. Í bréfi formanns nefndarinnar um störf hennar í mars 1984 sagði m.a., með leyfi forseta:

„Nefndarmenn eru sammála um að nauðsynlegt sé að þeir geti skipt með sér verkum eftir landshlutum, gert úttekt samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og heimsótt ýmsar hafnir til samanburðar á frágangi hafnarmannvirkja til samráðs við hafnarstjóra og hafnarverði um ábendingar til úrbóta þar sem þörf krefur.

Í viðræðum við samgrn. var þessu komið á framfæri og ítrekað með bréfi ásamt beiðni um sérstaka fjárveitingu í því augnamiði. Þótt nefndarstörf hafi legið niðri um sinn eru ýmsar athyglisverðar upplýsingar sem liggja fyrir og er fullur vilji nefndarmanna að takast á við þau verkefni, ljúka störfum og skila áliti. Því er áréttuð sú ósk og þess er vinsamlegast farið á leit við hið háa ráðuneyti að það hlutist til um sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis allt að 150 þús. kr.“

Í svari hæstv. samgrh. við fsp. minni um sama efni hér á Alþingi þann 6. mars 1984, fyrir tveimur árum, kom fram að af hálfu hans mundi ekki standa á því að reyna að verða við beiðni nefndarinnar um að hún gæti haldið áfram störfum og lokið þeim sem fyrst. Kvaðst ráðherra leggja á þetta áherslu.

Í lok ársins 1983 hafði nefndin hins vegar alls ekki lokið störfum, heldur ekki í árslok 1984 og enn síður í árslok 1985. Er því ekki nema von að spurt sé hvað valdi slíkum drætti.

Af þessu tilefni hef ég leyft mér að leggja fram á þskj. 580 fsp. til hæstv. samgrh. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 27. apríl 1982 um störf nefndar til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna og tillögugerð í því efni?"