15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3820 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

313. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Fyrirspyrjandi (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. minni. Ég lýsi ánægju minni yfir því að það skuli vera ásetningur hans að endurskipuleggja þá nefnd sem hér um ræðir á þann hátt að við fáum niðurstöður hennar í hendur sem allra fyrst. Er tími til kominn frá árinu 1982 að slík niðurstaða liggi fyrir.

Fyrir alþm. hlýtur það hins vegar að vera umhugsunarefni að tillögur þingsins skuli vera í meðförum nefnda af því tagi sem hér um ræðir svo árum skiptir. Hljóta þingmenn að vera sammála um að til slíks sé ekki ætlast. En hvað er unnt að gera til að koma í veg fyrir að svo verði þegar um jafnmikil og brýn hagsmunamál er að ræða og þessi hér?

Full ástæða er að mínu mati að taka á þessum málum. en ekkert eða mjög lítið hefur breyst í öryggismálum sjómanna hvað þennan málaflokk snertir á síðustu árum og alls ekki hefur dregið úr slysatíðni. Þegar ég spurðist fyrir um þessi efni hér fyrir tveimur árum hafði hörmulegt slys átt sér stað í Grundartangahöfn í Hvalfirði. Á þessu ári minnist ég nokkurra slíkra slysa við hafnir landsins, m.a. tveggja í Vestmannaeyjahöfn, þar sem giftusamleg björgun tókst í öðru tilvikinu en í hinu því miður ekki. og einnig minnist ég tilvika úr Akureyrarhöfn um svipað efni.

Seinagangur í þessum efnum er því óverjandi með öllu. Ég ítreka því ánægju mína með þá yfirlýsingu ráðherra að á þessum málum skuli nú tekið. Vænti ég þess að nú verði loks brugðist við á skjótan og skilvirkan hátt.