15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

402. mál, úttekt á umfangi skattsvika

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hinn 3. maí 1984 eða fyrir tæpum tveim árum var samþykkt þáltill. frá þm. Alþfl. um úttekt á umfangi skattsvika. Þessi till. fól í sér að komið yrði á fót starfshópi sem í samvinnu við skattayfirvöld hefði það verkefni að gera grein fyrir og leggja mat á umfang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum gögnum annars vegar og upplýsingar um framtaldar tekjur í skattframtölum hins vegar, í öðru lagi hvort skattsvik megi rekja sérstaklega til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina, í þriðja lagi umfang söluskattssvika hér á landi og í fjórða lagi helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir séu vænlegastar til úrbóta. Niðurstöður átti að leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 1985.

Þar sem nú er liðið rúmlega ár frá því að niðurstöður þessa starfshóps áttu að liggja fyrir taldi ég ástæðu til að leggja fsp. fyrir hæstv. fjmrh. um hvort niðurstöður þessa starfshóps, sem vinnur að úttekt á umfangi skattsvika, verði lagðar fyrir Alþingi fyrir þinglok og þar sem senn líður að þinglokum vænti ég þess að ráðherra hafi jákvæð svör við þessari fsp. minni.