15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3827 í B-deild Alþingistíðinda. (3521)

402. mál, úttekt á umfangi skattsvika

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi starfshópur hefur skilað niðurstöðum í þessu máli. Það var vissulega athyglisvert, sem fram kom hjá fjmrh. þar sem hann drap á nokkrar niðurstöður af starfi þessa starfshóps um undandrátt frá skatti, að hann nemi 6,5 milljörðum kr. og að tekjutap ríkissjóðs sé 2,5-3 milljarðar og vegna söluskattssvika 1,2 milljarðar.

Hér er um svo athyglisverða niðurstöðu að ræða að ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að þingið fái að fjalla um þessa niðurstöðu áður en þinglausnir verða og að hægt sé að ræða á hinu háa Alþingi tillögur til þess að hægt sé að gera stórátak í því að uppræta skattsvik. Þess vegna beini ég því til hæstv. fjmrh. að hann nú þegar geri gangskör að því að leggja umrædda skýrslu fyrir þingið. Hann talar um að kynna almenningi hana n.k. föstudag, en fyrir þinglausnir verði skýrslan lögð fyrir Alþingi. Ég fer fram á það og óska eftir því við hæstv. fjmrh. að þessi skýrsla verði þegar í stað lögð fyrir Alþingi þannig að þm. hafi tíma til að kynna sér hana og fá að ræða hana fyrir þinglausnir.

Það hefur verið unnið nokkuð í tíð þessarar ríkisstj. að aðgerðum gegn skattsvikum. Þær aðgerðir sem hefur verið gripið til hafa byggst á tillögu frá þm. Alþfl. sem samþykkt var hér á Alþingi um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Nokkrir þessara liða hafa þegar komist til framkvæmda, t.d. að auka mannafla hjá skatteftirlitinu, og það hefur þegar skilað árangri því að samkvæmt nýlegum upplýsingum skattrannsóknarstjóra hefur með þessu aukna skatteftirliti tekist að upplýsa skattsvik og um 125 millj. kr. komið inn í ríkissjóð vegna endurálagningar og skattsekta. Ég bendi á þetta vegna þess að það er mjög mikið í húfi að Alþingi taki á þessu máli þegar í stað og að fjmrh. leggi drög að því að skipulögðum aðgerðum verði beitt í þessu máli.

Það voru vissulega athyglisverðar fréttir sem fram komu í sjónvarpi í gærkvöld þar sem fram kom að 37% atvinnurekenda séu undir fátæktarmörkum á móti því að 20% láglaunafólks eru í hópi þeirra sem teljast undir fátæktarmörkum. Þetta þarf vissulega athugunar við.

Ég beini því því til hæstv. fjmrh. að hann sjái til þess að þegar í stað verði þessi skýrsla lögð fyrir Alþingi og að hann stuðli að því og geri það sem í hans valdi stendur til að þm. fái að ræða þessar athyglisverðu niðurstöður, sem hann hefur hér upplýst, fyrir þinglok.