15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3522)

402. mál, úttekt á umfangi skattsvika

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að taka fram að ég hef ákveðið að þegar í stað verði hafist handa við undirbúning að því að koma í framkvæmd tillögum þeim sem nefndin leggur til til úrbóta á þessu sviði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé útilokað við að una að mat af þessu tagi liggi fyrir um svo umfangsmikil skattsvik í þjóðfélaginu án þess að gripið sé til mjög ákveðinna aðgerða til að freista þess að stemma stigu við þessari mjög svo alvarlegu starfsemi í þjóðfélaginu, ekki einungis vegna þess að ríkið verði af tekjum af þessum sökum heldur líka vegna þess að hér er um að ræða atriði sem leiðir til aukins ójafnaðar í þjóðfélaginu og veldur spillingu og er af þeim sökum einnig óþolandi. Þess vegna verður allt gert til að hrinda í framkvæmd tillögum af því tagi sem nefndin leggur til og ég vænti þess að í byrjun þings á hausti komanda verði hægt að leggja fram þau lagafrv. og þær tillögur til lagabreytinga sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.

Ég geri ráð fyrir því að þessi skýrsla verði tilbúin til prentunar á morgun. Það hefur ekki enn verið að fullu lokið við frágang á handriti, en ég vænti þess að því verki verði lokið á morgun. Það verður enginn undandráttur á því að leggja skýrsluna fram um leið og því starfi er lokið. Ég er fyrir mitt leyti, ef tími vinnst til, tilbúinn að ræða efni hennar. Hitt skiptir þó meira máli að undirbúa nauðsynlegar breytingar þannig að þær geti komið til umræðu hér og ákvörðunar næsta haust.