15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

407. mál, utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Árið 1986 var lýst friðarár af hinum Sameinuðu þjóðum. Við vorum að finna að því hér á Alþingi um daginn að ríkisstjórn Íslands hefði ekki sýnt þessu máli þann sóma sem skyldi að undirbúa þátttöku Íslands í þessu alþjóðlega friðarári. Frá því að sú umræða fór fram höfum við ekki orðið varir við frekari aðgerðir af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar þar að lútandi, en við höfum hins vegar orðið vitni að stórum tíðindum á alþjóðavettvangi sem lítið eru í samræmi við yfirlýst markmið þessa árs sem friðarárs.

Í skýrslu utanrrh., sem er orðið hefðbundið að lögð sé fyrir Alþingi, lesum við á bls. 8, með leyfi forseta: „Rétt er að rifja upp að Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag 16 lýðræðisríkja með þá yfirlýstu stefnu að leiðarljósi að það muni aldrei ráðast gegn öðrum ríkjum eða beita valdi að fyrra bragði. Tilgangur þess er að tryggja öryggi aðildarríkja sinna með gagnkvæmum skuldbindingum og sameiginlegri sjálfsvörn í samræmi við 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er yfirlýst stefna bandalagsins að virða í einu og öllu stofnskrá samtakanna og leysa ágreining þjóða í milli með friðsamlegum hætti.“

Forusturíki þessa bandalags, sem á undanförnum dögum hefur dregið saman aðalflota sinn á Miðjarðarhafi og lét í nótt vopnin tala með árás á eitt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, vitnar líka til 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfsvörn til réttlætingar gerðum sínum með svipuðum hætti og hæstv. utanrrh. gerir varðandi Atlantshafsbandalagið sem hann er dyggur stuðningsmaður að. Hvernig hljóðar 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Reagan forseti vitnaði til í ræðu sinni til bandarísku þjóðarinnar s.l. nótt þegar hann var að réttlæta árás sína á eitt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna? Hún er þannig, með leyfi forseta:

„Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar eitt sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna Sameinuðu þjóða, þangað til öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir gerðar af meðlimum við framkvæmd þessa sjálfsvarnarréttar skulu undir eins tilkynntar öryggisráðinu og skulu þær á engan hátt skerða vald eða ábyrgð öryggisráðsins skv. þessum sáttmála til að hefja hvenær sem er þær aðgerðir sem það álítur nauðsynlegar til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.“

Þetta er efni 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Reagan forseti vitnar til með svipuðum hætti og utanrrh. Íslands í sambandi við stuðningsyfirlýsingu sína við Atlantshafsbandalagið, en Reagan notar þessa grein til að réttlæta árás sína á Líbýu.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, við þessa umræðu um utanríkismál að við áttum okkur á því hvar við erum stödd í sambandi við öryggishagsmuni okkar og hvernig er komið forustunni í því ríki sem er ótvírætt forustuafl í því bandalagi sem Ísland hefur verið aðili að frá því 1951.

Eitt er það að fordæma hryðjuverkastarfsemi. Það gerum við öll. Það eru óhæfuverk sem þjóðir heims verða að bindast samtökum um að snúast gegn með réttum ráðum. Hver ímyndar sér að innrás í ríki eða árás á ríki af því tagi sem gerð var s.l. nótt sé til þess að draga tennurnar úr hryðjuverkastarfsemi eða hryðjuverkamönnum? Ætli bandaríska þjóðin sannfærist um það þegar hún sér sjónvarpsmyndirnar af afleiðingum þessa hervirkis Bandaríkjanna á óbreytta borgara sem fyrir þessari árás urðu og á erlend sendiráð sem einnig urðu fyrir barðinu á þessari árás?

Það fór ekki mikið fyrir því í máli hæstv. utanrrh. að fjalla um þetta efni. Hann virðist þurfa að hugleiða það allnokkru lengur umfram það sem hann vitnaði hér til samþykktar ríkisstjórnar Íslands sem harmar samkvæmt viðteknu orðalagi hæstv. forsrh. árás Bandaríkjamanna á Líbýu og lýsir yfir þeirri von að ekki komi til frekari átaka. Sterkari eru nú orðin ekki úr orðasafni ríkisstj. varðandi þetta efni. Hún harmar. Hún lýsir yfir von.

Ég lagði á fundi utanrmn. Alþingis í gærmorgun fram tillögu í sambandi við deilu Bandaríkjamanna og Líbýu sem ég ætla að leyfa mér að kynna hér og þingflokkur Alþb. stóð að baki í gær á meðan hún var tímabær og í samræmi við rás atburða. Till. er þannig, sem liggur fyrir utanrmn., með leyfi forseta:

„Alþingi lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar miklu spennu sem nú ríkir í samskiptum Bandaríkjanna og Líbýu og varar eindregið við því að gripið verði til hernaðaraðgerða í þessari deilu. Alþingi telur vopnuð átök ekki líkleg til að binda endi á hryðjuverkastarfsemi, en hvetur til samvinnu Evrópuríkja gegn slíkum óhæfuverkum.“

Utanrmn. sá sér ekki fært í gærmorgun að taka afstöðu til þessarar till. þótt einstakir nefndarmenn hafi lýst yfir stuðningi við hana. Ég gekk eftir því að reynt yrði utan fundar að bera sig saman og ná samstöðu um afgreiðslu till. sem lögð yrði fyrir Alþingi í ljósi þess hver staðan var á Miðjarðarhafi í gær. Hvaða alþm. hefðu í gær ekki viljað taka undir tillögu af þessu tagi? En meiri hl. í utanrmn. eða forustan í utanrmn. og hæstv. utanrrh. þurfti að sofa á tillögunni áður en henni væri veitt brautargengi til að afla sér upplýsinga. Og svarið kom í nótt. Þá töluðu vopnin. Hvar er rödd Íslands í sambandi við þá spennu og þá augljósu hættu sem fyrir lá í gær? Rödd Íslands heyrðist ekki í þeim efnum. Svona má Alþingi ekki bregðast við í stórmálum. Ísland verður og Alþingi Íslendinga verður að gæta sóma síns og láta rödd friðar og sátta tala á meðan enn er tækifæri til.

Þessi umræða, herra forseti, sem hér fer fram um utanríkismál, fer fram í skugga þeirra voveiflegu atburða sem hafa verið að gerast síðasta sólarhring og sem hafa verið í aðsigi og öllum sjáanlega í aðsigi undanfarna daga og undanfarnar vikur. Ég treysti því að utanrmn. nái saman um verðuga tillögu fyrr en seinna í ljósi atburða s.l. sólarhrings og þar stilli menn sig saman í þessum efnum svo að Alþingi fái að lýsa yfir vilja sínum í máli sem þessu.

En það eru fleiri stórmál á döfinni, sem Alþingi Íslendinga þyrfti að taka afstöðu til í framhaldi m.a. af viljayfirlýsingu þingsins samhljóða um afvopnunarmál fyrir tæpu ári, og þar á ég við þær tilraunasprengingar með kjarnorkuvopn sem forusturíki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, lætur sér sæma að standa að ítrekað þó að gagnaðilinn, Sovétríkin, hafi fyrir sitt leyti lýst yfir stöðvun á tilraunum með kjarnorkuvopn þann 30. júlí s.l. og hafi ekki enn sprengt neina kjarnorkusprengju neðanjarðar frá þeim tíma og tvívegis framlengt það bann, framlengt af sinni hálfu stöðvun

kjarnavopnasprenginga þó þeir nú, eftir síðustu sprengingu Bandaríkjamanna, mjög öfluga sprengingu á tilraunasvæði þeirra í Nevada, hafi áskilið sér rétt til að taka upp tilraunir á ný.

Hér var tækifæri og hér er kannske enn þá tækifæri til þess að byrja að vinda ofan af því brjálæði vígbúnaðar, vígbúnaðarkapphlaups, sem er í fullum gangi og hefur undið upp á sig undir forustu Reagan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum frá árinu 1981 að telja og hefur m.a. endurspeglast í stórfelldri uppbyggingu hernaðarmannvirkja hér á Íslandi með samþykki og blessun ríkisstjórnar Íslands og þeirra utanrrh. sem hafa farið með völd á þessu tímabili.

Það er ekki spurningin lengur hjá Bandaríkjastjórn, eins og hjá hæstv. utanrrh., um eftirlit með tilraunasprengingum með kjarnavopn. Spurningin snýst ekki um það lengur. Það hefur bara reynst blæja, bara huliðshjálmur, til þess að dylja andstöðu við slíkum tilraunasprengingum.

Nei, það er vilji Bandaríkjastjórnar gegn vilja meiri hluta Bandaríkjaþings að halda áfram tilraunasprengingum með kjarnorkuvopn. Hversu lengi hefur ekki verið svarað en þessar sprengingar, þessar tilraunasprengingar, tengjast þeirri áætlun um geimvopn, stjörnustríðsáætlun Bandaríkjanna, sem fær alveg sérstaka blessun í þessari skýrslu hæstv. utanrrh. eins og ég mun koma að nánar síðar. Þar eru kjarnorkusprengingar undirstaða þeirra rannsókna sem meinlausar eiga að teljast og Íslendingar ættu að keppa að að gerast aðilar að eða njóta ávaxtanna af samkvæmt orðum þessarar skýrslu utanrrh. sem hér liggur fyrir. Kjarnorkusprengingar eru einn þátturinn þar til þess að framkvæma þá leysigeisla sem í stjörnustríðsdraumum Bandaríkjaforseta eiga að geta, hugsanlega, grandað eldflaugum andstæðinganna sem fyrst eftir að þeim er skotið á loft, ekki fyrir mannlegt tilstilli því allt verður það tölvuvætt ef þær hugmyndir reynast með einhverjum hætti tæknilega framkvæmanlegar sem miklu fleiri draga í efa en hinir, sem telja að geimvopnadraumurinn, stjörnustríðsdraumurinn, það að færa vopnakapphlaupið út í himingeiminn, eigi sér nokkra stoð í veruleikanum, í veruleika framtíðarinnar.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að Alþingi Íslendinga segi sitt orð um þetta brjálæði sem þarna er á ferðinni, segi sitt orð um það framferði, svo ekki séu nú notuð sterkari orð, stærsta herveldis heims og öflugasta að halda áfram kjarnorkuvopnatilraunum.

Ég lagði fram á vettvangi utanrmn. í gærmorgun, vegna síðustu kjarnorkuvopnatilraunar Bandaríkjanna, svofellda ályktun sem ég les - hún er stutt - með leyfi forseta, og ætlast til að utanrmn. geri hana að sinni, óbreytta eða með breytingum, til að leggja hana fyrir Alþingi til samþykktar. Hún er svofelld:

„Alþingi fordæmir að hafnar eru á ný tilraunir með kjarnorkuvopn og telur brýnt að hið fyrsta verði gerður samningur um allsherjarbann við slíkum tilraunum undir traustu eftirliti.“

Hvaða alþm. treysta sér ekki til að gjalda slíkri ályktun atkvæði sitt? Í gildi er alþjóðasamningur um takmarkað bann við tilraunum með kjarnavopn frá 1963. Þessi samningur gerir ráð fyrir möguleika á endurskoðun ef þriðjungur aðildarríkja óskar eftir því. Þá verði kvödd saman alþjóðaráðstefna til þess að ná fram breytingum og þær breytingar sem þurfa að verða eru allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Samþykkt Alþingis um gerð slíks samnings er það sem ég er að mæla fyrir að gerð verði þannig að lóð Íslands falli á skál friðarins á friðarárinu 1986 og það verði hluti framlags Íslands til þessara mála, gildari en sú sýndarmennska sem ríkisstjórn Íslands hefur verið að boða að hún ætli að beita sér fyrir á þessu ári. Alþingi þarf að leggja sitt lóð á þá vogarskál.

Herra forseti. Staðan á Miðjarðarhafi undanfarna daga sýnir okkur ótvírætt hversu skammt getur verið í ragnarök. Fréttirnar sem við höfum verið að hlusta á frá því í morgun minna okkur óhugnanlega á þann aðdraganda þriðja heimsstríðs sem dreginn hefur verið upp í vönduðum kvikmyndum, framleiddum í Bandaríkjunum eða Bretlandi, og menn þekkja, kvikmyndum eins og Þráðum, kvikmyndum eins og Daginn eftir eða „The day after“ á enskunni, þar sem einmitt aðdragandi af þessu tagi varð til þess að menn voru kvaddir til að ýta á hnappana og opna lyklana í Missouri eða annars staðar í Bandaríkjunum fyrir eldflaugarnar, hleypa þeim af stað. Ég er ekki að segja að það þurfi að vera Bandaríkjamenn sem gera það. Hver verður fyrstur? Kannske er enginn til frásagnar. Kannske verður það aldrei upplýst enda óvíst um að nokkrir sagnfræðingar verði til að grúska í slíku. Yfir svona þróun má Alþingi Íslendinga ekki þegja. Þess vegna þurfum við að álykta og ég vænti þess að við náum saman um skýrari og markvissari ályktun en ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti sent frá sér þó hún sé góðra gjalda verð svo langt sem hún nær.

Það er áhyggjuefni, eins og ég hef nefnt, hvernig komið er forustusveit í forusturíki Atlantshafsbandalagsins þar sem dómgreindin er af því tagi sem við höfum orðið vitni að á þessum sólarhring þar sem svo virðist, ef trúa má fréttum, að árásir af því tagi sem forustumaður ríkisins stendur fyrir, ber pólitíska ábyrgð á, njóti pólitísks stuðnings í landinu. Það á vissulega eftir að sjást hversu lengi sá stuðningur endist, hversu lengi hann dugir. Það er ekki verið að spyrja bandamenn. Var hæstv. utanrrh. Íslands spurður um þetta efni? Fékk hann kynningu á því hvað til stæði eins og látið er að liggja að gert hafi verið við tiltekna vini og bandamenn Bandaríkjanna af sendiboða fyrir síðustu helgi? Hvað fékk hæstv. utanrrh. Íslands að vita um hvað til stæði? Eða var hann bara tekinn í rúminu? Gleymdist að hafa samband við hann? Ég spyr.

Herra forseti. Þessir alvarlegu atburðir sem ég hef gert að umræðuefni verða eflaust ræddir af öðrum við þessa umræðu og e.t.v. verður staðan í þessum málum orðin önnur eftir að við höfum hlýtt á fréttir kvöldsins. Um það vitum við ekki. Óvissan er slík sem hleypt hefur verið af stað af ábyrgðaraðila Atlantshafsbandalagsins, ef svo má segja, forustuaðila, en við erum líka ábyrg sem aðilar að þessu bandalagi og það var verið að nota aðstöðu þessa bandalags í nágrannaríkinu Bretlandi undir árásarflotann. Þaðan var lagt upp og laumast suður með ströndum ríkja Atlantshafsbandalagsins sem ekki vildu leyfa árásarsveitunum að fljúga yfir sitt land. Ætlar íslenska ríkisstj. að láta slíku ómótmælt að í nafni Atlantshafsbandalagsins, sem Ísland er aðili að, sé læðst þannig að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í náttmyrkri? Hvað segir hæstv. utanrrh. Íslands um þetta? Hann á eftir að tala síðar við umræðuna.

Ég mun, herra forseti, hér á eftir ræða nokkur þau atriði, fá af mörgum, sem ástæða er til að fjalla um í umræðu sem þessari. Ég mun ræða nokkuð um störf utanrmn. og samþykktir Alþingis um utanríkismál. Ég mun líka aðeins ræða um framkvæmd að þessum samþykktum á þeim tíma sem liðinn er síðan þær voru gerðar. Ég mun drepa á nokkra þætti í þróun alþjóðamála umfram það sem hefur verið að gerast síðustu klukkustundirnar, einkum afvopnunarmálin, og ég mun ræða lítillega um afstöðu Alþb. til öryggis- og varnarmála. En það munu fleiri af talsmönnum Alþb. tala við þessa umræðu. Varamaður minn í utanrmn., hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon mun ræða tiltekna þætti sem ég mun lítt snerta, svo sem þróunarsamvinnu, samvinnu við nágrannaríkin Færeyjar og Grænland sem eru mikilsverð fyrir Ísland, en einnig um hernaðaruppbygginguna hérlendis sem ekki er ástæða til að gleyma og sem hæstv. utanrrh. hefur dregið fram ýmsar gagnmerkar upplýsingar um í sinni skýrslu, tölulegar, og það er vel. Og það munu fleiri talsmenn flokksins tala við þessa umræðu. Formaður Alþb., Svavar Gestsson, hefur tekið þátt í norrænu þingmannasamstarfi í sambandi við undirbúning og umræðu um undirbúning að kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum og ég eftirlæt honum að ræða um það mjög svo mikilsverða mál sem sannarlega þarf að fá skilmerkilegri meðferð af hálfu Alþingis og utanrmn. og ríkisstj. en verið hefur til þessa því að þar er allt afundið. Þar eru engir peningar til að vinna nauðsynlegar skýrslur. Þar er takmarkaður áhugi á því að taka á málum.

Það er vissulega góð hefð sem felst í því að hæstv. utanrrh. leggur hér fram skýrslu um utanríkismál. Þau mætti ræða oftar á Alþingi en það er mjög eðlilegt að fram fari ítarleg umræða um þessi efni í tengslum við þessa skýrslu og ég vil þakka framlagið sem slíkt, nú sem fyrr, þó ég hafi margt við innihaldið að athuga. Ég held ég þurfi í rauninni ekki að eyða mörgum orðum að því hversu ólíkt mat mitt á stöðunni varðandi alþjóðamál er því sem fram kemur af hálfu hæstv. ráðherra. Sú uppmálun hlutanna í svarthvítu sem þar kemur fram, nú sem fyrr hjá forvera hæstv. núv. utanrrh., þar hefur ekkert breyst fremur en væntanlega um stefnuna sem hann hefur sagt að hann ætli að fylgja dyggilega fram sem forverinn markaði.

Ég mun gera örfá atriði að umtalsefni á eftir og ég hef nefnt geimvopnin þar sérstaklega. Það kemur ljóslega fram í þessari skýrslu að þar er horft á alþjóðamálin í gegnum gleraugu. Hver skyldi hafa lánað hæstv. ráðherra og embættismönnum hans gleraugun þegar þeir eru að draga saman efnið í þessa skýrslu? Þau eru komin vestan um haf. Eða frá öðrum þeim sem eru sannfærðir um að sú stefna sem fylgt er innan Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkin hafa alla forustu um sé hin eina sanna, rétta. Það er það sem við sjáum endurspeglast á þessum blaðsíðum. Sjálfstæði í mati á alþjóðamálum eða sjálfstæði í mati á einstökum þáttum utanríkismálastefnu-hvenær kemur að því? Jú, hæstv. ráðherra sagði: Ja, við erum bara að leggja fram nokkuð sjálfstætt mat á utanríkismálunum og stöndum fast á okkar þegar þar að kemur. Og hvenær kemur að því? Jú, það er hermangið. Ef hróflað er við hermanginu og gróðamöguleikanum í sambandi við hersetu Bandaríkjanna hérlendis er mér að mæta, segir hæstv. utanrrh., þá er komið upp sjálfstætt mat á stöðunni.

Rainbow Navigation-málið: Nú er komið alveg að lokapunkti. Nú er þolinmæðin brostin. Hér er mér að mæta, sagði hæstv. ráðherrann. Til hvaða ráða ætlar hæstv. ráðherra að grípa í þessu hjartans máli sínu? Hann hlýtur að greina Alþingi frá því. Þetta er hans eina sjálfstæðismál í utanríkismálum ef marka mátti ummæli hans áðan og skal nú hvergi hopað því það er buddunnar lífæð sem er í veði og þá fer að hrikta um Suðurnes og á stöku skrifstofum hér í Reykjavík þar sem safnað er í baukana.

Það liggur fyrir og er enn staðfest í þessari skýrslu að ríkisstj. Steingríms Hermannssonar er dyggasti stuðningsmaður stefnu Reagans Bandaríkjaforseta, kannske að frátalinni Margaret Thatcher, hinni bresku. Það er hugsanlegt að ríkisstj. Steingríms Hermannssonar standi þar nokkuð jafnfætis en í sumum atriðum áreiðanlega framar í fylgispekt við stefnu Reagan-stjórnarinnar sem meiri hluti Bandaríkjaþings er andvígur í mjög þýðingarmiklum greinum og forseti Bandaríkjanna er þar í stríði við eigið þing. En hér uppi á Íslandi er allt á hreinu um þetta efni. Allt á hreinu. Og rödd Íslands, hún skal sko ekki hljóma í kór Norðurlandaþjóða ef hætt er við að það styggi aðila vestur í Washington, að það komi einhver hjáróma tónn inn í kórinn héðan frá Íslandi, hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar og hæstv. utanrrh. hans, tvísöng þeirra í þessum efnum. Þar á ég m.a. við atkvæðagreiðsluna á þingi Sameinuðu þjóðanna í desember s.l. í sambandi við ályktunartillögu frá Svíþjóð, Mexíkó og fleiri ríkjum um frystingu kjarnavopna. Þar skyldi Ísland gæta sín að ekki kæmi neinn falskur tónn sem væri mistúlkaður þar vestra því að tillagan var alveg stórvarasöm. Það vantaði í hana, sagði hæstv. fyrrv. utanrrh. og núv. hefur staðfest það, að hans mati ýmsa þætti þannig að tillagan uppfyllti ekki ákvæði samþykktar Alþingis frá 23. maí 1985. Svoleiðis að honum var bara aldeilis ómögulegt að gjalda tillögunni atkvæði sitt eins og öll hin Norðurlandaríkin gerðu.

Ja, þetta er myndarframmistaða. En nú skuldar hæstv. utanrrh. okkur skýringu og ég ætla að biðja hann um að reiða hana fram hér við umræðuna og helst fyrr en seinna. Hvaða þættir eru það sem vantar í Svíþjóðar-Mexíkó tillöguna? Hvaða þættir eru það nákvæmlega í sambandi við eftirlit og öryggi sem þarf að uppfylla til þess að Ísland geti staðið með hinum ríkjunum, á annað hundrað, og ekki setið hjá eins og sex önnur ríki í þágu málstaðar Pentagon? Hvaða atriði eru það varðandi eftirlit og öryggi - því mér skilst að það sé á því sviði? Hæstv. ráðherra verður að upplýsa Alþingi um þetta og líka stuðningsmenn sína svo þeir viti hvar þeir standa. Því að hver veit nema þau fádæmi gætu gerst að Gorbatsjoff austur í Moskvu ætti eftir að leysa málið fyrir hæstv. utanrrh. þannig að hann gæti kannske komið með inn á tillöguna. En mælikvarða verðum við að hafa í svo þýðingarmiklu máli því að það er tekið eftir afstöðu sem þessari á alþjóðavettvangi af Íslands hálfu. Þetta er svo mikilsvert atriði, hæstv. utanrrh., að það lá við stjórnarslitum í desember s.l. Menn eru vonandi ekki búnir að gleyma því að þegar við opnuðum fyrir morgunútvarpið þann 6. eða 7. desember fréttum við að formaður Sjálfstfl. hefði gengið á fund forsrh. landsins og tilkynnt honum að það varðaði stjórnarslitum á Íslandi ef einhverjir undanvillingar úr Framsfl., hv. þm. Framsfl., færu að hlaupa inn á tillögur, vafasamar tillögur sem gerðu ráð fyrir því að Ísland stæði með öðrum Norðurlöndum og segðu já við frystingu tilrauna með kjarnavopn og öðrum þáttum afvopnunarmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það hefur sitthvað gerst, herra forseti, frá því við ræddum skýrslu utanrrh. 2. maí í fyrra og þar er hvað merkast samþykkt Alþingis frá 23. maí um stefnu Íslands í afvopnunarmálum. Sú samþykkt markaði afstöðu þingsins til mikilvægra þátta afvopnunarmála og kjarnorkuvígbúnaðarins. Með þessari samþykkt fagnaði Alþingi m.a. hverju því frumkvæði sem fram kemur til að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins. Alþingi beindi því til ríkisstj. í þessari samþykkt að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna. Alþingi áréttaði þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn, gerði það að sinni stefnu. Það var hvatt til þess að kanna samstöðu og grundvöll fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, og utanrmn. var falið að kanna í samráði við utanrrh. þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Öryggismálanefnd er falið skv. þessari tillögu í samráði við utanrrh. að taka saman skýrslu um hugmyndir sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.

Þetta var stefnumarkandi samþykkt þingsins og mjög mikilsverð samþykkt. Með henni tók Alþingi af skarið um að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn og það er afar þýðingarmikil stefnumörkun af hálfu þingsins. Við höfum fengið upplýsingar bandarískra aðila í des. 1984 um áætlanir bandarískra hermálayfirvalda um að flytja til Íslands kjarnorkudjúpsprengjur, 48 talsins, og þessar upplýsingar var fullyrt að hefðu verið staðfestar af Bandaríkjaforseta. Það er víst ekkert skorið úr um þetta mál þó að bæði forsrh. og utanrrh. Íslands spyrðust fyrir því að þeir fengu kalda kveðju, bara svarað: Um svona atriði spyr maður ekki í góðu samkvæmi Atlantshafsbandalagsins. Um það er engar upplýsingar að fá. Hvað eruð þið að ímynda ykkur, drengir góðir? Þetta voru svörin sem fengust.

Það er ekki þýðingarlítið að Alþingi Íslendinga hefur tekið af skarið í þessu örlagamáli og lýst því yfir að allar áætlanir af þessu tagi brjóti í bága við vilja Alþingis Íslendinga. Íslensk stjórnvöld hafa enga heimild til að samþykkja að taka við kjarnorkuvopnum yfir á íslenskt yfirráðasvæði, hversu mjög sem þau langaði til ef aðstæður væru þannig, enga heimild til þess á meðan ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 stendur og hefur ekki verið breytt af Alþingi sjálfu.

Þessi skilningur lá fyrir við samþykkt tillögunnar, var undirstrikaður í þessum ræðustól af ýmsum talsmönnum, m.a. af formanni þingflokks Framsfl., og var ekki mótmælt. Þessi niðurstaða, þessi samþykkt Alþingis er hin þýðingarmesta. Það er ástæða til í þessu samhengi, herra forseti, að minna á yfirlýsingu hæstv. fyrrv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar úr þessum ræðustól á fundi Sþ. þann 16. apríl 1985 þegar hann svaraði fsp. frá hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni sem innti hann í fyrsta lagi eftir því hvort yfirlýsingar utanrrh. um að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi taki einnig til herskipa sem koma í hafnir hérlendis eða sigla um íslenska lögsögu. Ég sé ástæðu, með leyfi forseta, til að rifja svar hæstv. fyrrv. utanrrh. upp, það er stutt og að þessu sinni sem betur fór skýrt. Geir Hallgrímsson hæstv. ráðherra svaraði þannig:

„Fyrri fsp. hv. þm. svara ég játandi. Það er skýr stefna ríkisstjórnar Íslands að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi og tekur hún einnig til herskipa í íslenskri lögsögu.“

Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði einnig: Er utanrrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því að banna siglingar herskipa um íslenska lögsögu og komur þeirra í hafnir hérlendis nema fullvíst sé að þau beri ekki kjarnorkuvopn?

Og hæstv. ráðherra svaraði þessu þannig:

„Síðari fsp. hv. þm. vil ég svara með þeim hætti að í samræmi við þau svör sem ég gaf við fyrri fsp. og í samræmi við þá stefnu sem lýst hefur verið yfir er fullljóst að sigling herskipa með kjarnorkuvopn um íslenska lögsögu er óheimil og þá jafnframt koma þeirra til hafna hérlendis og mun ég framfylgja þeirri stefnu.“

Þetta var svar hæstv. ráðherra um þetta efni. Hann sagði einnig:

„Ég tel ekki þörf frekar að taka af öll tvímæli í þessum efnum vegna þess að af hálfu íslenskra stjórnvalda og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hafa engin tvímæli átt sér stað.“

Þetta var svar ráðherrans og þm. sagði við lok umræðunnar:

„Ég skildi hæstv. utanrrh. svo sem það væri ótvírætt og undantekningarlaust að umferð herskipa með kjarnorkuvopn væri brot á þessari íslensku stjórnarstefnu. Ég tek það þá þannig að ef upp komi efasemdir um að þessi vor stefna sé virt muni íslensk stjórnvöld ganga úr skugga um að svo sé. Sé þessi skilningur réttur hjá mér er ég ánægður með þau svör sem hæstv. utanrrh. hefur gefið.“

Og lengri varð ekki umræða um þetta efni. Þetta var hins vegar hin mikilsverðasta umræða og yfirlýsingar sem ástæða var til að þakka þáverandi hæstv. utanrrh. landsins.

Ég treysti því að hæstv. utanrrh. standi við stefnu forvera síns sem hann hefur lýst yfir að hann fylgi að fullu í þessu mikilsverða atriði.

Mér finnst hins vegar ekki nógu góður svipur á þeim orðum í skýrslu hæstv. utanrrh. sem varða ályktun Alþingis varðandi kjarnorkuvopnin og er að finna á bls. 8 í skýrslu hans, þar sem hæstv. ráðh. segir, með leyfi forseta: „Ályktunin ítrekar þá stefnu, sem farið hefur verið eftir, að á Íslandi skuli ekki staðsett kjarnavopn. Utanríkisráðherrar Íslands hafa marglýst yfir að staðsetning kjarnavopna á Íslandi sé óheimil án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Sú stefna er í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og yfirlýsta stefnu Atlantshafsbandalagsins.“

Hér er talað um samþykki íslenskra stjórnvalda en ég ítreka það, enda hlýtur það að vera skilningur allra hér á Alþingi, að ætli íslensk stjórnvöld sér að taka afstöðu til mála sem þessara þá eru þau bundin af vilja Alþingis í þessu efni á meðan hann liggur fyrir eins og frá honum var gengið í samþykktinni 23. maí 1985. Vilji íslensk stjórnvöld virða þingið og lúta vilja þess að þessu leyti þá eru þau bundin af samþykkt Alþingis um þetta efni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, þó ástæða væri til, hvaða undirtektir þessi samþykkt fékk meðal ákveðinna hópa hér innanlands og m.a. má lesa um í Morgunblaðinu í grein sem aðalritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, skrifaði í blað sitt 8. júní s.l. undir fyrirsögninni „Hvers vegna þessa „málamiðlun?"" Það er alveg ljóst að sumir eru ekkert ánægðir með þessa samþykkt Alþingis og átöldu þingflokk Sjálfstfl. mjög harðlega fyrir að gerast aðilar að henni fyrir sitt leyti. Og það eru kannske slíkar ofanígjafir sem hafa orðið þess valdandi að þm. og ráðherrar með góðan hug hafa kannske þurft að draga til baka eða leitast við að túlka þessa samþykkt með öðrum hætti heldur en ég tel eðlilegt vera. Þar á ég m.a. við afstöðuna til frystingar kjarnorkuvopna, sem ég hef þegar rætt, og afstöðuna til kjarnorkuvopnalauss svæðis á Norðurlöndum, í Norður-Evrópu, sem aðalritstjóri Morgunblaðsins gat um í sinni grein - með leyfi forseta, örlítil tilvitnun: „Í pólitískum umræðum á okkar dögum nær hugtakið Norður-Evrópa ekki nema til Norðurlanda og hluta Þýskalands og Bretlandseyja. Þetta er að mínum dómi sá skilningur sem leggja ber í „Norður-Evrópa“ þótt landfræðileg merking þessara orða kunni að vera víðtækari.“ Þess gætir í túlkunum varðandi þetta að menn vilja teygja þetta og þessa gætir einnig í skýrslu hæstv. ráðh. Og það kom fram þegar formaður utanrmn. mælti fyrir þessu máli á sínum tíma að menn vilja reyna að teygja þetta víðar en almennur skilningur er í þessu efni.

Öllu skiptir þó spurningin um það: Er pólitískur vilji fyrir því að skapa kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum? Að Norðurlöndin eigi frumkvæði í slíkri stefnu eða ekki? Um það snýst auðvitað málið, burtséð frá öllum orðhengilshætti er það spurningin um pólitískan vilja.

Við ræddum hér fyrir fáum dögum um viðhorf til samþykktar danska þingsins varðandi vinnu að því markmiði að Norðurlönd átti sig á því hvernig á þessum málum verður tekið og hugmyndum um að gera Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaus. Ég var ekkert ánægður með það að hæstv. ráðh. vildi ekki ræða þessi mál hér utan dagskrár í Alþingi og mér var synjað um orðið af hæstv. forseta Sþ., synjað um að taka til máls hér utan dagskrár til að ræða þessi þýðingarmiklu efni. En ég ætla ekki að fjölyrða um það hér og nú. Hins vegar er nauðsynlegt, og það ítreka ég, að skýr stefna verði mörkuð af hálfu þingsins um vinnu að málinu í samvinnu við önnur Norðurlönd þannig að okkur miði fram í þessari umræðu og það verði þá leitt í ljós hvar ágreiningurinn er. Hver er þessi ágreiningur? Hvar eru mörk hins pólitíska vilja í þessu efni?

Samþykkt Alþingis um afvopnunarmál, sem ég hef rætt hér, hefur mikið gildi þrátt fyrir ólíka túlkun um viss atriði. Og Alþingi verður að skera úr þegar á slíkt reynir, m.a. varðandi afstöðu á alþjóðavettvangi. Ef um ágreining á túlkun á þessari samþykkt er að ræða þá er sjálfsagt að menn skeri úr með atkvæðum hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég minntist hér á geimvopn. Einn dapurlegasti kaflinn í skýrslu hæstv. utanrrh. varðar einmitt geimvopn. Ég hlýt að vekja athygli á honum, hann er á bls. 10. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna til örstutts kafla úr skýrslunni sem snertir þetta og er svohljóðandi:

„Eftir leiðtogafund Reagans og Gorbatsjoffs í nóvember vöknuðu vonir á Vesturlöndum um að samninganefndir Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Genf myndu einbeita sér að því að ná samningum um atriði sem minnstur ágreiningur var um, svo sem um 50% niðurskurð langdrægra kjarnavopna og niðurskurð meðaldrægra kjarnavopna í Evrópu. Þessar vonir hafa ekki ræst því Sovétmenn gera þá kröfu að Bandaríkjamenn hætti við geimvarnaáætlun sína áður en samið verði um meðaldræg og langdræg kjarnavopn. Á þetta hafa Bandaríkjamenn ekki fallist og benda á að hér sé aðeins um að ræða rannsóknir og alls óvíst um niðurstöður þeirra. Hins vegar sé von þeirra sú að þær sýni fram á hvernig unnt sé að gera kjarnavopn óþörf. Vilja þeir þar af leiðandi ekki útiloka sjálfar rannsóknirnar. - Þar á meðal kjarnorkusprengingar. - Vekja þeir athygli á því að Sovétmenn hafi stundað svipaðar rannsóknir um árabil.

Íslensk stjórnvöld - og hér kemur stefnan - telja mikilvægt að staðið verði við gerða alþjóðasamninga, þar á meðal áðurnefndan samning um takmörkun gagneldflaugakerfa. Rannsóknir af því tagi sem hér um ræðir þurfa ekki að stríða gegn slíkum samningum. Auk þess er óraunhæft að ætla að hægt sé að framfylgja banni við rannsóknum. Bendi niðurstöður geimvarnarannsókna til að geimvarnakerfi geti stefnt heimsfriðnum í hættu ber risaveldunum að sjá til þess að geimvarnaáætlanir verði aldrei að veruleika. Sýni þær á hinn bóginn að geimvarnakerfi muni stuðla að friði og öryggi er eðlilegt að risaveldin geri samkomulag um framkvæmd slíkra áætlana. Vert er að hafa í huga að geimvarnaáætlun Bandaríkjamanna gerir ráð fyrir stórstígum framförum á sviði tækni og vísinda og má þar nefna upplýsinga-, efna-, orku-, leysigeisla- og kerfistækni. Geri Bandaríkjamenn - ég bið menn um að taka eftir þessu niðurlagi í stefnumótuninni - öðrum þjóðum kleift að taka þátt í áætluninni er ljóst að Íslendingar geta, ekki síður en aðrir, notið góðs af samvinnunni.“

Hvað er hér á ferðinni, góðir þingmenn? Hvað er hér á ferðinni? Hvað er hæstv. utanrrh. Íslands hér að fara? Ætlar hann að fara að seilast eftir samningum við bandarísk stjórnvöld um aðild að stjörnustríðsáætluninni? Annað verður ekki lesið út úr þessum orðum en það sé keppikefli hæstv. ráðh. að íslendingar leiti eftir aðild og samvinnu um geimvarnaáætlunina sem er kölluð svo fallegu nafni, en almennt gengur undir nafninu stjörnustríðsáform eða -áætlanir, SDI, Strategic Defense Initiative, sem þetta er skammstöfun fyrir.

Ég held að hæstv. utanrrh. ætti m.a. að kynna sér greinar í virtum ritum um þessi efni. Það úir og grúir í öllum erlendum blöðum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna af umræðu um SDI. Hérna er Der Spiegel, virt þýskt tímarit, frá 24. mars, sem skrifar um SDI, rannsóknirnar meinlausu sem hæstv. utanrrh. telur að eigi ekkert að standa í veginum fyrir friðsamlegum umleitunum og afvopnun - Rússarnir hafi bara verið að þessu áður, segir ráðh. hér í skýrslu sinni, og það er fullkomlega réttlætanlegt að Bandaríkin standi að slíkum rannsóknum. Hvað ætli Der Spiegel hafi að segja um þetta efni? Ég eftirlæt hæstv. ráðh. að taka hann með sér á náttborðið og kynna sér það sem þar stendur um þær tilraunir sem hafa verið í gangi og hafnar eru í sambandi við stjörnustríðsáætlunina, þessar meinlausu rannsóknir sem erfitt er að koma í veg fyrir, væntanlega af því að þær fari svo hljótt inni í tilraunastofum. En ætli það sé nú víst að þær fari allar svo hljótt?

Þann 10. apríl s.l. var sprengd kjarnorkusprengja neðanjarðar og 30. desember s.l., bæði skiptin í Nevada, sem liður í þessum rannsóknum og eingöngu sem liður í þessum rannsóknum, stjörnustríðsrannsóknum Reagan-stjórnarinnar, sem hæstv. utanrrh. Íslands er að sækjast eftir aðild að og lýsir hér með hinum fegurstu gylliorðum um afurðir tækni og vísinda sem geti fylgt í kjölfarið. Áætlanir sem eru um að flytja vopnakapphlaupið út í himingeiminn. Áætlanir sem næstu fimm árin eiga að kosta litla 26 milljarða bandaríkjadollara og verið er að egna fyrir meðal bandalagsríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins og reyna að lokka þau með þennan sjóð í höndum til þátttöku og um leið til pólitískrar ábyrgðar á þessari vitfirringu. Rannsóknum, sem fremstu vísindamenn margir draga í efa að nokkurn tímann muni ganga upp, hversu miklum upphæðum sem til þeirra verður varið - og tíma. En gangi þær upp þá liggur það fyrir að flestra mati að maðurinn hefur ekki lengur neina stjórn - og er hún þó orðin takmörkuð - ekki nokkra stjórn á þeim vígtólum, á þeim morðtólum og gereyðingarvopnum sem þegar hafa verið framleidd því að tíminn, sem er til umráða og ákvarðana um að hleypa af stað stjörnustríðsvopnunum, geimvopnunum, hann skiptir aðeins mínútum. Ráðrúmið er ekkert. Það eru tölvur sem taka ákvörðunina, hvenær flaugarnar fara af stað, hvenær sprengja skal til að leysa leysigeislana úr læðingi sem eiga að granda eldflaugunum. Það er þessi rannsóknaáætlun sem hæstv. utanrrh. Íslands er að tala um í skýrslu sinni að við eigum að gerast aðilar að, við eigum að leita samvinnu um.

Það er búið að draga Margrétu Thatcher upp í þetta ból með undirritun á samningi. Það er væntanlega upp í það sama rúm sem hæstv. ráðh. vill komast. Og það er búið að draga Helmut Kohl á asnaeyrunum upp í það sama, og samstarfsflokkinn sárnauðugan, frjálsa demókrata - svona svipað eins og þegar Sjálfstfl. er að teyma framsóknarmaddömuna upp í hjá sér í sambandi við hin afdrifaríkustu mál á sviði utanríkismála og afvopnunarmála og feykja út af borðinu flokksþingssamþykktum Framsfl. í sambandi við utanríkismál, eins og er að gerast hér þing eftir þing. Og er ömurlegt upp á að horfa hvernig Framsfl. er komið í þessu samstarfi. Þar fer nú lítið lengur fyrir fyrirvörunum sem einu sinni giltu. Þeir eru gleymdir.

Fyrir Alþingi liggur tillaga annars eðlis, tillaga um stuðning við bann gegn geimvopnum, sem ég flutti ásamt þremur hv. þm. í byrjun þings til að Alþingi gæfist kostur á að marka stefnu til geimvopna- og stjörnustríðsáforma Bandaríkjastjórnar. Meðflm. að þessari tillögu eru hv. þm. Kristín S. Kvaran og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Þessari till. var snemma þings vísað til utanrmn. Þar liggur hún enn óafgreidd en það hefur verið rætt um hana í undirnefnd. Það hefur komið í ljós að stjórnarþingflokkarnir hafa ekki enn fjallað um till. efnislega. En því var heitið að það yrði gert við fyrstu hentugleika og ég vænti að það hafi gerst í gær þannig að talsmenn þessara flokka geti hér lýst sinni afstöðu til þessarar þáltill. og almennt um stuðning við bann gegn geimvopnum.

Ég vil ekki trúa því að hæstv. utanrrh. að athuguðu máli ætli sér þann sess eða það ból - svo ég haldi nú áfram samlíkingunni - að skríða upp í þessa geimferju með vopnabúnaðinn og rannsóknirnar eins og lesa má út úr skýrslu hans hér, því miður. Og ég vænti að afstaða þingflokkanna til þessa máls, þessa afdrifaríka máls, skýrist hér við umræðuna og þá einnig af hálfu þingflokks Alþfl., sem ég vænti að styðji þetta mál, bann við geimvopnum og andstöðu af hálfu Alþingis Íslendinga eins og sósíaldemókrataflokkar um, ég held, gervalla Evrópu standa raunar í harðri baráttu gegn brjálæðinu. T.d. í Vestur-Þýskalandi gegn aðild stjórnvalda að geimrannsóknum, að rannsóknum á þessu sviði. Og sama var uppi á teningnum í Bretlandi.

Herra forseti. Það hefur mikið verið að gerast í sambandi við afvopnunarmálin og afstöðu stórveldanna í þeim efnum. Þar hefur sem betur fer komist á mikil hreyfing. Þar hefur orðið breyting t.d. á afstöðu stjórnvalda í Sovétríkjunum, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. og lesa má úr skýrslu hans, mjög róttæk breyting í orði a.m.k., þar sem settar eru fram hugmyndir um það að afvopnast varðandi kjarnorkuvígbúnaðinn þannig að fyrir lok þessarar aldar sé búið að kistuleggja kjarnorkuvopnin. Menn spyrja eðlilega: Hver er alvaran að baki slíkum tillögum eins og við höfum heyrt frá forustumönnum Sovétríkjanna á undanförnum mánuðum? Ég vil ekki fara að skýra þeirra afstöðu eða túlka á einn eða annan hátt, því að um það veit ég ekki, á það verður að reyna við samningaborð. En þar hafa komið fram hugmyndir sem fyllsta ástæða er til að láta reyna á, hvort pólitískur vilji er til að framfylgja að kistuleggja kjarnorkuvopnin og hætta frekari þróun kjarnorkuvopnabúnaðar. Slíkt hljótum við að styðja, að látið verði reyna á og það ætti að vera hlutverk Íslendinga á alþjóðavettvangi að greiða fyrir því að fyrr en seinna fáist úr því skorið og þá einnig varðandi það eftirlit sem menn telja nauðsynlegt að fylgi, en einmitt á því sviði virðist hafa orðið mjög róttæk breyting frá fyrri afstöðu Sovétríkjanna hvað snertir vilja til að opna fyrir eftirlit, en á slíkt verður að reyna. Til þess verður gagnaðilinn að vera reiðubúinn til að lýsa yfir vilja af sinni hálfu til að stíga slík skref, m.a. varðandi frystingu kjarnavopna.

Því miður hefur ekki orðið róttæk breyting á mörgum öðrum sviðum þar austur í Sovétríkjunum sem við hefðum viljað sjá. Enn er haldið uppi af hálfu Sovétríkjanna grimmdarlegu stríði gegn nágrannaríki, í Afghanistan, styrjöld sem er siðlaus og stendur í vegi fyrir trausti á málflutning Sovétríkjanna á ýmsum sviðum á meðan þau eru uppvís að slíku framferði eins og þar er enn fram haldið gegn fátækri bændaþjóð. Þó að það mál hafi vafalaust ýmsar hliðar hvað snertir hlutdeild annarra aðila, þá er það ótvírætt hver hóf þann leik og hver ber fyrst og fremst ábyrgð á þeirri styrjöld sem þar er fram haldið. Þar er gengið gegn almenningsáliti heimsins, þori ég að fullyrða, a.m.k. er það hérlendis og minn flokkur, Alþb., hefur ítrekað fordæmt þessa villimannlegu styrjöld sem þar er enn fram haldið.

En hitt risaveldið gengur einnig gegn almenningsáliti heimsins. A.m.k. skulum við vænta að sú verði reyndin í sambandi við geimvopnin þegar á reynir og ég hef þegar rætt um hver ætti að vera hlutur Íslendinga að því leyti. Og hið sama gildir um áframhaldandi tilraunir þeirra með kjarnorkuvopn.

Spurt er um afstöðu allra þjóða í málum sem þessum, örlagamálum sem varða allt mannkyn. Það er sannarlega ánægjuefni þegar leiðtogar ríkja taka sig saman um að leitast við að breyta stöðunni að þessu leyti, t.d. eins og gerst hefur með friðarfrumkvæði þjóðarleiðtoga sex ríkja úr fimm heimsálfum sem hafa látið mikið að sér kveða og þar sem Olof Palme fyrrv. forsrh. Svíþjóðar, sem veginn var fyrir skömmu, var mikilvirkur aðili að, því friðarfrumkvæði og einn af varaþm. á Alþingi Íslendinga, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur helgað krafta sína að undanförnu að verulegu leyti stuðningi við þetta mál sem staðið er að á vettvangi samtaka þingmanna undir heitinu „Parliamentarians for World Order“. (Gripið fram í: Það er búið að skipta um nafn á samtökunum.) Það er ágætt að fá það upplýst hvert nafnið er, en það er ekki nafnið sem máli skiptir heldur verkin og að hverju er unnið á vegum þessara samtaka.

Ég tel að það sé mjög jákvætt þegar Íslendingar geta lagt af mörkum skerf með þeim hætti, sem Ólafur Ragnar hefur gert í þessu máli, og það væri betur að það væru fleiri sem legðust á þá sveif, m.a. aðilar sem til þess hafa aðstöðu og eru við stjórnvölinn hérlendis. En því hefur ekki verið að heilsa, því miður.

Ég vil, herra forseti, fara að stytta mál mitt því hér eru margir sem vilja tjá sig. Ég vil aðeins rifja hér upp afstöðu Alþb. til öryggismála þeirra, sem ég hef hér verið að ræða varðandi öryggi Íslands, með því að vitna hér örstutt í samþykkt landsfundar Alþb. frá nóvember s.l. um utanríkis- og sjálfstæðismál, en þar segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Landsfundur 1985 ítrekar fyrri andstöðu Alþb. við veru Íslands í NATO og bandarísku herstöðvarnar hér. Krafan er því ótvírætt: „Ísland úr NATO, herinn burt.“ Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, lýsa yfir hlutleysi og styðja alla alþýðubaráttu fyrir friði, lýðræði og réttlátu þjóðskipulagi.

Fundurinn fordæmir stóraukin hernaðarumsvif hérlendis sem ganga þvert gegn vaxandi friðarvilja almennings og andúð á vígbúnaði. Ísland er tvímælalaust eitt af mikilvægustu víghreiðrum NATO í norðurhöfum og herstöðvarnar hér eru hlekkir í fremstu víglínu í hugsanlegri kjarnorkustyrjöld. Af þessari feigðarbraut verður að snúa.

Það er skylda Íslendinga að leggja sinn skerf af mörkum til friðar í heiminum með því að hætta þátttöku í hernaðarbrölti og stöðva allar hernaðarframkvæmdir í landinu. Það er óþolandi að á sama tíma og örbirgð og hungursneyð ríkir víða um lönd er tugum milljarða íslenskra króna kastað á bál vígbúnaðarkapphlaupsins hér á landi. Á meðan því marki er ekki náð að herinn hverfi á brott ber að einangra herstöðvarnar og loka á öll efnahagsleg tengsl og önnur samskipti við hið erlenda herlið.“

Þetta er sú afstaða sem Alþb. ítrekaði og markaði í þessum efnum á landsfundi sínum hinum síðasta.

Eins og ég gat um, herra forseti, þá eru þau mál fjölmörg sem ástæða væri til að ræða en vegna síðustu atburða á alþjóðavettvangi, ekki síst, hef ég hlotið að dvelja mjög við afvopnunarmálin og spurninguna um stríð og frið.

Ég minni hér á eitt mál sem fjallað var um á vettvangi utanrmn. Alþingis og gekk fram með samhljóða samþykkt á síðasta vori, en það var staðfesting á alþjóðasamningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Þar var um mikilsvert mál að ræða og ég flutti s.l. haust, ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, þáltill. um sérstaka úttekt á mismunun gagnvart konum hérlendis með tilliti til ákvæða þessa alþjóðasamnings. Þessi till. hefur verið til meðferðar í félmn. Sþ. Á þessu sviði er víða pottur brotinn. Vissulega er þar launamisréttið, sem konur í þessu landi sem víðast hvar annars staðar búa við, hvað tilfinnanlegast, en þetta endurspeglast á mörgum sviðum og einnig þá í utanríkisþjónustu okkar. Þar hallar vissulega mjög á konur.

Ég óskaði eftir því fyrir nokkru á vettvangi utanrmn. að fá grg. um hlut kvenna í íslensku utanríkisþjónustunni og samkvæmt þeirri grg. var það staðfest að hlutur kvenna í utanríkisþjónustu okkar í sögu lýðveldisins, þ.e. á hinum efri þrepum, hefur verið harla smár. Samkvæmt þeirri grg. starfa nú aðeins þrjár konur með diplómatíska stöðu hjá íslensku utanríkisþjónustunni, sem sendiráðunautar allar þrjár, og frá upphafi lýðveldisins eru það aðeins fimm konur samtals sem hafa starfað með diplómatísk verkefni í íslensku utanríkisþjónustunni. Þeim mun fjölmennari eru konur hins vegar í illa launuðum þjónustustörfum, m.a. sem ritarar í utanrrn. og hjá sendiráðum okkar erlendis.

Þetta er ekki sagt þeim körlum til hnjóðs sem starfa í utanríkisþjónustu okkar. Hér er á ferðinni það sama og í flestum öðrum ábyrgðarstöðum í samfélaginu, að þar er hlutur kvenna allur annar og minni en skyldi.

Starfsmenn okkar í utanríkisþjónustunni vinna vissulega hin mikilsverðustu störf og oft við mjög erfið skilyrði. Ég tala nú ekki um í samanburði við það sem gerist hjá starfsbræðrum þeirra hjá fjölmennari þjóðum. Þessi störf er ástæða til að þakka þegar við ræðum hér um utanríkismál.

Ég vil, herra forseti, um leið og ég lýk máli mínu að þessu sinni við þessa umræðu, undirstrika nauðsyn þess fyrir litla þjóð, fyrir fámenna þjóð sem Íslendinga, að treysta sem best má verða samstöðu sína til hinna mikilsverðustu mála. Íslendingar eiga að þekkja það af reynslu sinni, m.a. þann skamma tíma sem þeir hafa verið fullráða um sín málefni, fullvalda þjóð, hvaða þýðingu það hefur að þjóðin nái saman í hinum mikilsverðustu málum. Þetta sýndi sig ekki síst í sjálfstæðisbaráttunni og þetta hefur sýnt sig í sambandi við sókn okkar til að ná fullum ráðum yfir auðlindum landsins og sjávarins umhverfis það, þar á meðal í landhelgisbaráttu okkar. Sá lærdómur má ekki gleymast.

Það er því hryggðarefni að á sviði öryggismála, sem við köllum svo, skuli þjóðin vera klofin í tvær fylkingar með mjög ólík sjónarmið. Annars vegar er sú stefna, sem hefur orðið ofan á, að hengja Ísland aftan í Atlantshafsbandalagið og hernaðarbrölt þess og ljá hér land undir herstöðvar og hins vegar stefna þeirra sem vilja að Ísland skipi sér með hlutlausum þjóðum gagnvart hinum stríðandi blökkum risaveldanna.

Það er mikil nauðsyn að við ræðum þessi mál og þennan ágreining af einurð hér á Alþingi íslendinga og með þann vilja í vegarnesti að reyna að brúa bilið en ekki að breikka það. Stefna núv. ríkisstj. hefur því miður leitt til þess að bilið hefur breikkað því að hún hefur verið öll mjög á einn veg. Hún hefur verið einhliða og Ísland hefur á undanförnum árum, alveg sérstaklega í tíð núv. ríkisstj., verið hengt aftan í þá stefnu sem Reagan-stjórnin í Bandaríkjunum hefur fylgt og magnað hefur upp vígbúnaðarkapphlaupið á undanförnum árum. Þetta er ekki stefna sem er samboðin smáþjóð sem Íslendingum. Á þessu þarf að verða breyting. Ég tel að það séu lífshagsmunir Íslendinga í bráð og lengd að taka aðra afstöðu til þess að treysta sjálfstæði sitt og menningu og skipa sér á þann sess með öðrum þjóðum sem okkur er sæmd af.