15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

407. mál, utanríkismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég komst ekki hjá því að velta því fyrir mér áðan meðan hv. síðasti ræðumaður talaði hvort hann hefði hugsanlega gengið frá megintexta síns máls fyrir þá atburði sem orðið hafa á síðasta sólarhring og ekki unnist tóm til að laga hann til í ljósi nýrra aðstæðna. (ÓE: Heyrði ekki þm. upphaf ræðu minnar?) Ég gerði það nú reyndar, hv. þm. Það gaf mér vissulega tilefni til þessara hugleiðinga og ég hef þá væntanlega komist að réttri niðurstöðu.

Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að þeir alvarlegu atburðir sem nú hafa orðið á síðasta sólarhring setji mark sitt á þessa umræðu og það má segja með fullum rétti að oft hafi verið minni tilefni til þess að Sþ. eyddi eins og einni dagstund í að ræða utanríkismál. Við hefðum sjálfsagt kosið öll sem tökum þátt í þessari umræðu eða á hana hlýðum að tilefnið hefði verið ánægjulegra, t.d. að náðst hefði umtalsverður árangur í afvopnunarmálum og að friðvænlegar horfði nú í heiminum. En hinu verðum við víst að sæta að upp eru komnir atburðir, alvarlegir, og ég vil jafnvel segja alvarlegri heldur en flest okkar hafa enn þá gert sér grein fyrir. Ég held að með tilliti til alþjóðaréttar, til sjálfstæðis þjóðríkja og til samskipta sjálfstæðra þjóðríkja séu hér slík alvörumál á ferð að fá dæmi séu um önnur slík frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Það er e.t.v. ástæða til að rökstyðja þessi orð nokkru nánar því að vissulega hefur verið nóg um ófrið í heiminum á undanförnum árum og áratugum og ekki er þetta einsdæmi um vopnaviðskipti en þetta er einsdæmi að ýmsu öðru leyti. T.d. er það nánast einsdæmi að þarna fer stórveldi með vopnum á hendur miklu minni þjóð án þess undanfara sem gjarnan hefur verið að slíkum vopnaviðskiptum. Þarna er farið í skjóli náttmyrkurs án undangenginna stríðsyfirlýsinga og hefðbundinna viðvarana sem venjuleg samskipti ríkja gera þó ráð fyrir, jafnvel á átakatímum.

Ég verð að segja, herra forseti, í framhaldi af ræðu hæstv. forsrh., að ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið í umræðunni á samþykkt hæstv. ríkisstj. frá í morgun. Ég les samþykkt ríkisstj. þannig að ég get fyllilega tekið undir fyrri hlutann og það geta væntanlega allir en það er sú tenging sem fram kemur við hryðjuverkin og sú ályktun sem í raun og veru virðist dregin af þeim, m.ö.o. að binda þetta þannig saman að árásin hafi verið óumflýjanleg afleiðing af hryðjuverkunum, sem ég er aldeilis ekki sammála. Ég held að hæstv. ríkisstj. hefði átt að reyna að orða þetta öðruvísi. Það var út af fyrir sig eðlilegt að fordæma einnig hryðjuverkin sem vissulega eru hluti af þessu máli en ég er undir engum kringumstæðum sammála því að það megi álykta sem svo að þessi árás, þessi hernaðaraðgerð, sé að einhverju leyti eðlilegt framhald af þeim atburðum. Hún er það ekki. Jafnalvarleg og hryðjuverkin eru sem slík eru þau engin ástæða, enginn rökstuðningur, fyrir slíkum aðgerðum sem fylgdu í kjölfarið af hálfu Bandaríkjamanna.

Ég spyr: Hvert værum við komnir ef menn leyfðu sér að draga slíkar ályktanir? Og ég spyr: Hversu margar vopnaðar árásir hefðum við þá mátt þola á undanförnum árum? Það er óhjákvæmilegt að benda á að jafnvel Líbýa, svo hábölvuð, herra forseti, með leyfi þínu, sem hún nú er, er þó ekki neitt forysturíki hvað það varðar að hýsa hryðjuverkastarfsemi eða skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn. Þvert á móti mundu ýmsir segja að þar væru önnur ríki sem ættu enn þá dekkri fortíð og lékju enn þá ljótara hlutverk. Og ég vil leyfa mér að nefna lönd eins og Sýrland og Íran. Ég mundi segja að Líbýa væri kannske í hópi þeirra 10 ríkja í heiminum sem hvað mestar grunsemdir leika á um að hafi skotið skjólshúsi yfir eða aðstoðað alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og er það vissulega ekki fallegt en þetta leiðir hugann að því hvert menn væru komnir í samskiptum þjóðanna ef þessi vinnuregla væri ávallt viðhöfð. Ég vil benda, herra forseti, á það að það eru ekki einungis ríki við botn Miðjarðarhafs, ekki einungis Arabaþjóðir og nokkrar þjóðir á því landsvæði, sem hafa gerst sekar um íhlutanir í innanríkismál annarra landa, jafnvel með ofbeldisstarfsemi, þannig að álykta mætti sem svo að þær væru þá ástæður til hernaðaríhlutunar.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. t.d. um aðgerðir leyniþjónustu Frakka í Nýja-Sjálandi. Ef menn leyfðu sér að taka sér í hendur slíkan refsivönd, hvað hefði þá nýsjálenska þjóðin mátt segja? Hvaða aðgerða hefði hún þá mátt grípa til með sömu rökum gegn íhlutun, grófri íhlutun leyniþjónustu Frakka, og ofbeldisverkum innan landamæra Nýja-Sjálands á s.l. sumri eða fyrir ekki margt löngu síðan. Ég vil benda á framgöngu leyniþjónustu Bandaríkjanna sjálfra í höfnum Nicaragua. Þar var að sjálfsögðu um ofbeldisaðgerð að ræða þar sem lagðar voru sprengjur inn í hafnir, inn í lögsögu sjálfstæðs ríkis o.s.frv., o.s.frv.

Menn hafa auðvitað glímt við hryðjuverk um árabil. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi hefur verið stórkostlegur höfuðverkur og stórkostlegt vandamál um áratuga skeið og rúmlega það. Menn hafa fyrir löngu svarað því í raun að þar væri um að ræða vandamál sem væri allt annars eðlis en viðbrögð Bandaríkjamanna nú gefa tilefni til. Það hefur verið reynt af hálfu ýmissa ríkja, bæði hlutlausra ríkja og margra Evrópuríkja, að efla samstöðu gegn þessari starfsemi og að beita ýmsum öðrum ráðstöfunum vegna þess fyrst og fremst að menn hafa verið sannfærðir um að önnur ráð væru ekki tiltæk og ofbeldi í slíkum tilfellum mundi ekki leysa vandamálið.

Ég vil nefna til samanburðar viðbrögð og aðgerðir gegn flugránum sem mega heita annað alþjóðlegt vandamál af þessu tagi þar sem ofbeldi er beitt gegn saklausum borgurum. Menn hafa glímt við flugrán um langt árabil. Engum heilvita manni hafa, svo langt ég veit, dottið í hug ofbeldisaðgerðir af því tagi, sem hafa nú orðið, í slíkum tilfellum.

Þannig að niðurstaða mín er sú, og ég vona að það sé sameiginleg niðurstaða okkar allra á Alþingi, að hernaðaraðgerðir séu algerlega óréttlætanlegar, jafnvel í ljósi þeirrar hryðjuverkaöldu sem gengið hefur yfir heiminn. Þess vegna harma ég það orðalag á ályktun ríkisstj., sem ég tel ekki vera nógu gott, sem tengir þetta saman með óviðurkvæmilegum hætti að mínu mati og gerir því skóna að þessi hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna hafi verið nánast óumflýjanleg afleiðing af hryðjuverkum.

Herra forseti. Ég er einnig þeirrar skoðunar að þetta mál sé alvarlegra fyrir okkur Íslendinga en kannske mörg önnur vegna þess að hér er jú margnefnd vina- og bandalagsþjóð okkar á ferðinni, Bandaríkjamenn, og um þá eru ekki haldnar svo fáar lofræður hér, m.a. úr þessum virðulega ræðustól, en látum það nú vera. Látum það liggja milli hluta. Við skulum aðeins íhuga þá stöðu sem við erum í gagnvart þessum aðgerðum vegna beinnar aðildar okkar að t.d. Atlantshafsbandalaginu, og út af fyrir sig mætti einnig velta fyrir sér aðild okkar að þessu máli í gegnum varnarsamning okkar við þetta tiltekna stórveldi, og vegna þess herafla sem það hefur hér á landi.

Í 4. gr. Norður-Atlantshafssamningsins segir, með leyfi forseta, og þar er vitnað til aðstoðar, gagnkvæmrar aðstoðar, sem aðilar, þ.e. aðildarríki bandalagsins muni veita hvert öðru á átakatímum:

„Aðilar munu hafa samráð sín á milli hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“

Þessa grein les ég m.a. vegna þess, herra forseti, að Bandaríkjamenn sjálfir - Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna hefur rökstutt innrás eða hernaðaraðgerð Bandaríkjanna gegn Líbýu á grundvelli 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar er fjallað um, eins og þegar hefur verið vitnað til í þessari umræðu, rétt ríkis til sjálfsvarnar. M.ö.o. Bandaríkin hafa talið öryggi sínu ógnað og þess vegna er þessi innrás gerð, til að tryggja öryggi þeirra á grundvelli réttar þeirra til sjálfsvarnar. Þar með erum við komin beint að orðalagi 4. gr. og því hlýt ég að spyrja hæstv. utanrrh., það er óhjákvæmilegt vegna þessarar greinar Norður-Atlantshafssamningsins: Vissi ríkisstjórn Íslands eða hæstv. utanrrh. um þessar fyrirhuguðu hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn Líbýu með einhverjum fyrirvara? Ef svo var: Hversu langur var hann og hver voru þá viðbrögð hæstv. ríkisstj.? Ég vona að menn hafi skilið að það stendur skýrum orðum að aðilar Atlantshafsbandalagsins skuli hafa samráð sín á milli telji þeir friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.

Það mætti velta þessu ágæta skjali frekar fyrir sér, herra forseti, í tengslum við þessa alvarlegu atburði, m.a. 5. og 6. gr. nefnds samnings, þar sem segir fyrst í 5. gr., með leyfi forseta, að aðilar séu sammála um að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla.

Í 6. gr. segir að ákvæði 5. gr. um vopnaða árás á einn eða fleiri samningsaðila skuli taka til vopnaðrar árásar á lönd hvaða aðila sem vera skal í Evrópu eða Norður-Ameríku, á hin frönsku héruð í Alsír - þetta má úrelt kallast - á hernámslið hvers aðila sem vera skal í Evrópu á eyjar undir lögsögu hvors aðila o.s.frv.

Ég held að við ættum því að gera okkur grein fyrir því að við erum aðilar að þessu bandalagi, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og hvort sem menn eru nú sáttari eða ekki sáttari við það, og að hér er um alvarlega hluti fyrir íslensku þjóðina að ræða sem við getum ekki léttilega yppt öxlum yfir. Væru þeir nógu alvarlegir samt þó ekki væru þessir pappírar fyrir hendi sem ég hef vitnað í.

Ég ítreka því spurningar mínar til hæstv. utanrrh. og ég sé mig knúinn til þess: Vissi utanrrh. Íslands eða ríkisstjórn Íslands um þessar aðgerðir fyrir fram, eins og reyndar skilja mátti á kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að bandalagsþjóðir Bandaríkjamanna í Evrópu hefðu gert, þar sem sagt var frá för fulltrúa Bandaríkjastjórnar til Evrópu til að ráðgast við bandalagsþjóðirnar um þessar aðgerðir áður en þær voru framkvæmdar? Og ef svo var, hver voru þá viðbrögð ríkisstjórnarinnar? Var haft samráð við utanrmn. eða hver var aðdragandi þessa máls? Var hæstv. utanrrh. e.t.v. vakinn í rúminu í morgun með þessar fréttir?

Herra forseti. Það hefur þegar verið eytt miklum tíma í að ræða þetta tiltekna mál og ég mun ekki gera það frekar hér þó að vissulega væri ástæða til þess að við ekki síður en breska þingið tækjum okkur ekki bara þetta kvöld og nóttina heldur einnig morgundaginn til að ræða þessa alvarlegu atburði.

Ég ætlaði að víkja nánar að nokkrum sérstökum þáttum í skýrslu hæstv. utanrrh. og byrja á því að fjalla lítillega um málaflokk sem hefur verið nokkuð til umræðu á þessu hv. Alþingi í vetur þar sem er þróunaraðstoð okkar Íslendinga. Um það tiltekna mál er fjallað á bls. 35 og 36 í þessari skýrslu sem er til umræðu, herra forseti, og einnig er birt tafla á bls. 55 um afrek okkar á þessu sviði á undanförnum árum. Það er hægt að fara fljótt yfir sögu, herra forseti. Því miður miðar okkur ekki áleiðis heldur aftur á bak í þessum efnum. Því hefur reyndar ranglega verið haldið hér fram í þessari umræðu aftur og aftur að framlög okkar ykjust ekki á þessu ári. Hið rétta er auðvitað að þau dragast verulega saman, sbr. töflu á bls. 55 þar sem það kemur fram að áætlun um framlög okkar sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu á líðandi ári, árinu 1986, fer niður í 0,063% af þeirri stærð úr 0,087%, sem var árið áður, þar áður 0,1% rúmt og enn þar áður 0,129%. Hér hefur því í fjögur ár í röð verið um samdrátt á þessu sviði að ræða.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, heldur en þau að minna aftur á samþykkt Alþingis um þróunaraðstoð frá því í maí 1985 og lýsa því yfir, eins og ég geri jafnan þegar við ræðum þessi mál, að ég mun ekki una því að frammistaða Íslands sé með jafnbágbornum hætti. Ég mun í hvert eitt skipti gera það sem í mínu valdi stendur til að bæta þar úr og létta þeirri skömm af hinni sjálfstæðu íslensku þjóð, jafnrík og hún nú er, að standa ekki betur að málum á þessu sviði en raun ber vitni. Ég vil sérstaklega harma það að svo lítið er gert með þessa samhljóða samþykkt frá s.l. vori um að auka þessa aðstoð í áföngum. Á sama tíma og þjóðartekjur hafa farið vaxandi þrjú ár í röð hefur þetta hlutfall farið lækkandi og við höfum okkur ekkert til afsökunar, herra forseti, í þeim efnum.

Ég vil aðeins nefna þann kafla skýrslunnar sem fjallar um samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja og segja það eitt að ég fagna því að nú er slíkur kafli í þessari skýrslu. Það ber vitni um það að þar sé um eitthvað að fjalla í það minnsta og ég hvet eindregið til þess að við Íslendingar sýnum á næstu árum alúð í þessu samstarfi og leitum eftir því að auka það sem allra mest. Ég held að þessum eyþjóðum hér í norðanverðu Atlantshafinu sé mikil þörf á því að ná betur saman en verið hefur og það muni styrkja þær bæði efnalega og menningarlega. Hlutverk okkar, Íslands, er sérstaklega mikilvægt í þessum efnum vegna þess að þetta er eitt af fáum dæmum um alþjóðlega samvinnu þar sem við getum kallast með nokkrum rétti stóri bróðir. Við erum bæði langfjölmennastir og efnalega sterkastir af þessum þremur þjóðum en það leggur okkur einnig bæði skyldur og vanda á herðar og við verðum að gæta þess að ganga ekki þar fram með stórabróðurhugsunarhætti á óeðlilegan hátt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við höfum e.t.v. af ýmsum ástæðum betri aðstöðu til að starfa með og aðstoða þessar nágrannaþjóðir en flestir aðrir og liggur þar ýmislegt til grundvallar.

Þá vil ég víkja að einum tilteknum kafla á bls. 22 þar sem fjallað er um ástand mála í Mið- og Suður-Ameríku, herra forseti. Það væri út af fyrir sig gaman að velta fyrir sér ástandinu víðar en ég vil sérstaklega taka þennan kafla fyrir og nokkurn veginn afmarka mig við hann með tilliti til tímans.

Ég er heldur ósáttur við umfjöllun hæstv. utanrrh. um þetta landsvæði. Mér finnst heldur leiðinlegur nöldurtónn umfram ástæður í garð t.a.m. sandinistastjórnarinnar í Nicaragua og mér finnst gert of lítið úr viðleitni t.a.m. Contadora-ríkjanna og þeim árangri sem þar er hugsanlega hægt að ná til lausnar vandamálunum á þessu landsvæði.

Ég vil minna á, herra forseti, að á s.l. sumri skrifuðu 20 íslenskir alþm. undir yfirlýsingu sem send var þjóðhöfðingjum og þjóðarleiðtogum og forsetum þjóðþinga allra nálægra landa þar sem viðskiptabanni Bandaríkjamanna á Nicaragua var sérstaklega mótmælt og lýst var yfir stuðningi við friðarfrumkvæði Contadora-ríkjanna. Þessari yfirlýsingu hefur síðan verið fagnað og fyrir hana verið þakkað af hálfu margra aðila sem hana fengu.

Ég held að það verði ekki horft fram hjá því að aðstaða Nicaragua er erfið og viðbrögð Bandaríkjamanna hafa ekki bætt þar úr skák. Þar er komið að ákveðnum þætti í þeirra utanríkisstefnu sem ómögulegt er annað en að harma, jafnvel fordæma, svo að ég segi ekki formæla eins og hæstv. forsrh. áðan. Ég alla vega fordæmi hana og ég hefði vonast til þess að hæstv. ríkisstj. treysti sér til að hanna hana því að hún er stundum til í að harma hlutina, eins og við vitum.

Það er ósköp einfaldlega þannig, herra forseti, hæstv. utanrrh., að verið er að ýta stjórn sandinista út í aðgerðir sem við getum ekki sætt okkur við og við hljótum að átelja. En það eru hins vegar þær kringumstæður sem búnar eru til handa þessu þjóðríki, m.a. með viðskiptabanni og ýmsum öðrum þvingunum, sem eru að kippa fótunum undan eðlilegri lýðræðislegri þróun í þessu ríki. Slíku hljótum við harðlega að mótmæla. Þegar talað er um djúpstæðan ágreining Bandaríkjamanna og stjórnar sandinista er ómögulegt annað en að minnast þess að sandinistastjórnin hefur á öllum tímum, þrátt fyrir viðbrögð Bandaríkjamanna, lýst sig reiðubúna til viðræðna við þá um lausn málsins. Stuðningur Bandaríkjamanna við skæruliðahóp contramanna hefur hins vegar gert þarna illt verra og áform þeirra um stóraukinn beinan hernaðarlegan stuðning við þá nú hleypa þessum málum í enn verri hnút en þau hafa verið í hingað til.

Ef ég má, herra forseti, langar mig einnig aðeins til að minnast á kaflann um Afghanistan. Þar er ég aftur heldur ósammála hæstv. utanrrh. Mér finnst sú umfjöllun satt best að segja heldur ræfilsleg. Ég verð að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvað á það eiginlega að þýða að hann skuli ekki eyða nema örfáum línum á ástandið í Afghanistan? Hvers konar linkind eiginlega er þetta? Eru það einhverjir annarlegir viðskiptahagsmunir við þetta stórveldi, Sovétríkin, sem valda því að hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til þess að fjalla nema í örfáum ræfilslegum línum um ástandið í Afghanistan? Mér finnst þetta sérstaklega ámælisvert í raun vegna þess að íslenska þjóðin er sæmilega upplýst um ástandið þarna. Íslenskir fréttamenn hafa verið á þessum slóðum og það hefur jafnvel staðið til að við beindum ákveðnum hluta af okkar hjálparstarfsemi til þessa landsvæðis til lausnar flóttamannavandamálinu þar. Ég hefði talið fyllilega eðlilegt að hæstv. utanrrh. hefði tekið mun sterkar til orða varðandi hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í Afghanistan og hvatt miklu frekar til lausnar á þeim vandamálum en hann gerir í sínum örfáu línum. Mér finnst þetta heldur snubbótt.

Herra forseti. Ég ætlaði síðan aðeins að koma að kafla sem mönnum finnst kannske ástæðulaust að ræða þegar svona miklir stórviðburðir eru að gerast úti í hinum víða heimi. Það er sú aðstaða sem bandaríski herinn hefur á Íslandi og þróun mála þar. En ég brygði illilega hætti mínum ef ég ekki reyndi að víkja að þessu örfáum orðum og mun nú gera svo.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekki síður ástæða til að líta á það mál einmitt í ljósi síðustu atburða en ella. Við höfum á síðustu vikum fengið enn eina sönnun þessa, herra forseti, að hernaðaruppbyggingin hér á Íslandi er á fullri ferð. Hæstv. utanrrh. hefur nýlega staðfest það í svari við fsp. frá þeim sem hér heldur ræðu að veitt hafi verið leyfi seint á s.l. hausti fyrir margvíslegum nýjum hernaðarframkvæmdum á Íslandi og þar á meðal stjórnstöð, sem áður hefur reyndar borið hér á góma, sérstaklega styrktri stjórnstöð, að stærð tæpir 2000 fermetrar, sem á að hýsa miðstjórn heraflans í Keflavík og nálægs viðbúnaðar Bandaríkjamanna hér. Nú er það svo, herra forseti, að því er, eins og venjulega í skýrslum þeirra hæstv. utanrrh., haldið fram, ekki bara á einum stað heldur yfirleitt á tveimur, þremur, fjórum stöðum, að bókstaflega ekkert hafi breyst hér í herstöðinni, þetta sé allt eins og áður var og engin eðlisbreyting hafi orðið, þetta sé allt saman eðlileg tækniendurnýjun o.s.frv. Þessu er haldið fram og menn berja höfðinu við steininn hvað sem á dynur þó að það komi fram í þessum skýrslum ár eftir ár að verið sé að leyfa margvíslegar nýjar hernaðarframkvæmdir af allt öðrum toga en áður hafa verið hér leyfðar eða hér hafa verið, til að mynda sérstaklega styrkt mannvirki sem þola umtalsverðar sprengjur og árásir. Engu að síður er fullyrt að hér sé enginn viðbúnaður annar en varnarviðbúnaður til að verja hólmann og nánasta umhverfi og engin eðlisbreyting hafi orðið á því. Maður fer að velta því fyrir sér, herra forseti, hvað þyrfti eiginlega að gerast til þess að augu þessara manna opnuðust, hvers konar blinda þetta er. Hún er greinilega mjög varanleg og erfitt að koma nokkurri skynsemisglætu inn í þennan múr. Maður getur spurt hæstv. utanrrh., ekki í von um að fá svör en það væri eðlileg rökfræði að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvers vegna reisa menn sérstaklega styrkt mannvirki, sérstaklega sprengjuheld flugskýli og hálfniðurgrafna sprengjuhelda gluggalausa stjórnstöð á svæði þar sem engin von er á nokkurri árás, þar sem ekki er nokkur viðbúnaður sem getur ógnað nokkrum manni? Hvers konar eiginlega sóun er þetta? Hvaða ástæða er til að hafa þessi mannvirki af þessum styrkleika ef það er allt satt og rétt í skýrslunum að hér sé ekki nokkur hlutur sem ógni nokkrum manni, ekki hagamús. Þetta gengur ekki upp, herra forseti. Það er í raun og veru sálfræðilegt viðfangsefni hvers vegna þetta kemst alls ekki að hjá þessum mönnum, hvers vegna þeir átta sig alls ekki á því og neita að viðurkenna hluti sem ættu að liggja öllu sæmilega gefnu fólki í augum uppi.

Það hefur verið venjan þegar við höfum rætt um framkvæmdir varnarliðsins eða eðli herstöðvarinnar í Keflavík að þeir menn sem hafa aflað sér einhverra upplýsinga um þessi mál á erlendum vettvangi, til að mynda þeirra upplýsinga sem liggja á lausu í Bandaríkjunum sjálfum eða hjá ýmsum fræðistofnunum um þessi mál, hafa komið með slíkar upplýsingar heim og talað um þær í nokkur ár og þá hefur loksins byrjað að rofa til. Þá hafa menn, eftir 2-3-4 ár eftir atvikum, viðurkennt að þetta eða hitt gæti átt sér stað. Ég gæti farið út af fyrir sig yfir það, herra forseti, hvernig þetta hefur gerst með hverja framkvæmdina á fætur annarri, hvernig menn hafa staðið jafnvel í þessum ræðustól og neitað því að nokkuð væri á döfinni sem héti stjórnstöð, að nokkur hlutur væri til sem héti Norður-Atlantshafsvarnarkerfið. Einum 2-3-4 árum seinna kemur þetta upp annaðhvort í skýrslum hæstv. utanrrh. eða í svörum við fsp.: Jú, það var verið að leyfa þetta um daginn - eða: Þetta er nú á framkvæmdaáætlun. Svona er þetta ár eftir ár. Ég get flett þessari sögu allri upp í þingtíðindunum og ég gæti lagt hana hérna á borðið. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. utanrrh. að hrista höfuðið núna vegna þess að þetta eru borðleggjandi staðreyndir. Þetta eru tölur sem við getum unnið upp úr þingtíðindunum og skýrslum hæstv. utanrrh. frá undanförnum árum. Það voru meira að segja farnir að koma á prenti í skýrslum öryggismálanefndar hlutir sem utanríkisráðherrar þjóðarinnar höfðu fram að þeim tíma alla tíð neitað að væru til, vissu ekki einu sinni af.

Ég til að mynda hef úr þessum ræðustóli rætt í líklega þrjú ár, jafnlengi og ég er búinn að sitja á þessu virðulega Alþingi, um þá breyttu áherslu í flotamálum Bandaríkjamanna sem hefur verið að eiga sér stað á norðurhöfunum undanfarin ár. Þessu var auðvitað neitað framan af. Menn önsuðu þessu ekki. Það þótti vitleysa. Þetta er almennur fróðleikur sem allir vita nú orðið, birtist bæði í innlendum og erlendum blöðum, kemur út í skýrslum. Þá loksins fer að rofa til hjá þeim sem fara með varnarmál þjóðarinnar eða samskiptin við þetta svonefnda varnarlið.

Svona hefur þetta verið, herra forseti, og það er auðvitað ámælisvert og meira en það. Það er jafn neyðarlegt að lesa þessar síendurteknu lummur um að ekkert hafi breyst hér frá því að hér voru örfáar Delta Dagger-vélar, sem drifu nokkra tugi km út á haf eða hvað það nú var, og til þess tíma sem nú er hér stór orrustuflugsveit staðsett á Íslandi með fullkomnustu árásarþotum bandaríska hersins, meira að segja búnar vopnum til að geta farið í árásarleiðangra. Ég segi ekki að þær dragi alla leið til Líbýu, en langleiðina gætu nýju Phantom- orrustuþoturnar farið í árás á önnur lönd. Og að halda því svo fram að hér sé ekki nokkur hlutur sem ógni nokkurri annarri þjóð, ekkert nema varnarviðbúnaður fyrir skerið og nánasta umhverfi, það er ákaflega barnalegt, herra forseti.

En ég vil spyrja hæstv. utanrrh. einnar spurningar um eitt tiltekið mannvirki sem nokkuð hefur verið í nösum manna hér að undanförnu. Það er svonefndur varaflugvöllur. Um hann er ekki fjallað í þessari skýrslu, en ég hef stundum rekið mig á að það er ekki sagt frá hlutum í þessum skýrslum sem síðan skjóta upp kollinum einum tveimur mánuðum eða árum síðar. Vegna þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um þennan varaflugvöll spyr ég hæstv. utanrrh.: Veit hann eitthvað um þennan varaflugvöll? Hafa Bandaríkjamenn áhuga á að byggja annan herflugvöll á Íslandi? Við skulum tala einfalda íslensku sem við skiljum báðir. Er til að mynda verið að tala um Sauðárkróksflugvöll í því sambandi eða dettur einhverjum heilvita manni í hug að við ætlum að fara að byggja sjálfir, Íslendingar, af eigin rammleik fullbúinn varaflugvöll fyrir millilandaflug og reka hann? Hefur einhverjum dottið það í hug? Ég trúi því varla að menn séu svo bjartsýnir á batnandi efnahag íslensku þjóðarinnar að það standi til alveg á næstunni að byggja og reka fullbúinn varaflugvöll fyrir okkur og fyrir okkar áætlunarflug til nálægra landa. Þess vegna vil ég í framhaldi af öllu þessu umtali spyrja hæstv. utanrrh. að þessu og þá kemur svarið vonandi niður í þingtíðindin. Kannske flettum við upp á því eftir nokkur ár til að glöggva okkur á því hvernig atburðarásin var eða ekki var í þessu sambandi.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, úr því að ég nefni varaflugvöll á annað borð, að það vanti lítið á að við Íslendingar eigum út af fyrir okkur nothæfan varaflugvöll þar sem er flugvöllurinn á Akureyri. Ég hef sjálfur látið kanna það mál fyrir mig að hve miklu leyti hann gæti þjónað því hlutverki fyrir okkar flug og mér segja fróðir menn að með tilliti til breyttrar tækni og þróunar í framleiðslu flugvéla líti það tiltölulega vænlega út að fyrir venjulegar tegundir millilandaþota dugi hann okkur og því flugi sem hér er. Aðflugstæki og lendingartæki og tækni í þeim efnum gæti gert þann flugvöll að fullkomlega viðunandi varamillilandaflugvelli fyrir okkur Íslendinga. Hann er það reyndar nú þegar í mörgum tilfellum og það er ekki óvenjulegt að stórar þotur lendi á honum. Þar af leiðandi sé ég ekki nokkra ástæðu til að við förum að leggja í það fé, Íslendingar, að byggja sérstaklega upp varaflugvöll einhvers staðar þar sem ekkert er fyrir og geld mikinn varhug við slíkum hugmyndum.

Ég hefði, herra forseti, gjarnan viljað eiga ofurlítinn orðastað við hæstv. utanrrh. um framkvæmd á svonefndum varnarsamningi sem ég hef hér fyrir framan mig. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þar sé margt í heldur bágu ástandi og það ætti að mega takast um það samstaða að standa þar betur að hlutunum burtséð frá því hvaða afstöðu menn hafa til þess samnings í sjálfu sér. Nú er ég í hópi þeirra, eins og mönnum er vonandi ljóst, sem eru ekki ýkja hrifnir af þeim samningi og vildi gjarnan nema hann úr gildi og losna við þessa óværu af landinu, en ég er þeirrar skoðunar að meðan þetta er hér séu vissar reglur sem við gætum reynt að sameinast um til að bíða ekki nema sem minnstan skaða bæði á sálu okkar og líkama af því að hafa þessa óværu hér.

Ég átel það t.d. mjög hvernig hæstv. utanrrh. fer með þessi mál, hvernig hann gengur fram hjá Alþingi Íslendinga við framkvæmd þessa samnings. Það hefur reyndar alla tíð verið gert frá því að þessi her kom hingað í landið. Þá voru lög brotin til að koma hernum inn og ég er þeirrar skoðunar að lög séu brotin enn þann dag í dag, nánast daglega eða í hvert skipti sem einhver meiri háttar atriði gerast í samskiptum við þennan her á Keflavíkurflugvelli.

Ég lýsti þeirri skoðun minni fyrr í umræðum sem hér urðu um fsp. að þegar meiri háttar ákvarðanir væru teknar um framkvæmdir á þessum stað væri það á allan hátt óeðlilegt að slíkt væri ekki borið undir utanrmn. Alþingis. Mér finnst margt í framkvæmd og meðhöndlun hæstv. utanrrh. á þessum málum satt best að segja harla kynlegt.

Það vakti t.d. athygli mína þegar framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins var hér á ferðinni á dögunum að þannig var staðið að því að skipuleggja heimsókn þessa framkvæmdastjóra að alþm. og meðlimir utanrmn. höfðu engin tækifæri til að berja þann ágæfa mann augum eða ræða við hann. Hins vegar gafst einhverjum klúbbfélögum Varðbergs og áhugamönnum um vestræna samvinnu ítrekað tækifæri til að sitja með honum til borðs og ræða við hann. Og ég spyr utanrrh. í fullri hreinskilni: Finnst honum þetta eðlilegt? Er ekki heldur snautlegt að standa svona að hlutunum, að einhverjum Pétrum og Pálum, sem eru í einhverju áhugamannafélagi úti í bæ, sé sérstaklega boðið að stíga í vænginn við þennan ágæta mann, en Alþingi Íslendinga hefur engum skyldum að gegna þarna, því kemur þetta ekkert við?

Sama má segja um þann vettvang sem hæstv. utanrrh. valdi sér til að kynna hugmyndir sínar um svonefnd innri öryggismál sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér. Það var þessi sami klúbbur úti í bæ, en það var ekki haft fyrir því að ræða við utanrmn. Alþingis hvað þá almennt við þm. um þessi áform áður en þau voru gerð heyrinkunn og gengu til fjölmiðla frá þessum sérstaklega valda vettvangi.

Þrátt fyrir þetta geri ég ráð fyrir því að hæstv. utanrrh. hafi lesið þingsköp Alþingis og viti að þingsköp Alþingis eru lög í landinu. Þar með er 15. gr. þingskapa, þar sem kveðið er á um hlutverk utanrmn., lög á Íslandi. Ég vona a.m.k. að hæstv. utanrrh. sé það vel að sér í þingsköpum að hann geri sér grein fyrir þessu. Þar er sem sagt kveðið á um að allar meiri háttar ákvarðanir af þessu tagi skuli bornar undir utanrmn. Alþingis og hún skuli vera ríkisstj. til ráðuneytis í slíkum tilfellum.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um enn eitt praktískt mál og það varðar áform nágrannaþjóðar okkar Breta um að reisa endurvinnslustöð fyrir kjarnorkuúrgang á strönd Bretlands. Ég hef orðið þess var að ýmsar nágrannaþjóðir Breta hafa af þessu nokkrar áhyggjur. M. a. hafa frændur vorir Norðmenn komið mótmælum á framfæri við þessi áform og er ekki nema eðlilegt vegna þess að það eru tiltölulega alvarlegir hlutir ef kjarnorkuúrgangi eða kælivatni eða skolvatni frá slíkri stöð er hleypt beint út í sjóinn og veldur með tímanum uppsöfnun geislavirkra efna og geislamengun í viðkomandi hafsvæðum. Þetta vandamál er þekkt frá Írlandshafi og þar hafa menn nú af þessum málum verulegar áhyggjur. Ég held að það væri fullsæmandi fiskveiðiþjóð eins og okkur Íslendingum að ganga fram fyrir skjöldu í tilfelli sem þessu og mótmæla hugmyndum um að reisa svona stöð og sleppa úrgangnum beint út í hafið hvort sem það er talið líklegt eður ei að þetta gæti hugsanlega borist að okkar ströndum. Þó er það engan veginn óhugsandi samanborið við þá hafstrauma sem til okkar liggja.

Ég vil, herra forseti, hvetja hæstv. utanrrh. til að halda áfram þeirri hreyfingu sem komst á mál og aðgerðir gegn ríkisstjórn Suður-Afríku og fordæmingu á kynþáttaaðskilnaðarstefnú hennar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöndum með hinum Norðurlandaþjóðunum í því að fordæma það og hafa jafnvel forustu um það á alþjóðavettvangi að beita okkur fyrir aðgerðum gegn þeirri ómannúðlegu stefnu. Á þeim málum var nokkur hreyfing hér á s.l. hausti, en nú virðist mér orðið fremur hljótt um það.

Ég vil segja, herra forseti, í sambandi við eitt mál sem hæstv. utanrrh. gerði mikið úr og talaði heldur digurbarkalega, það var um svonefnt Rainbow-mál sem mun vera einhver flutningadallur bandarískur sem nestar bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli, að ég er tiltölulega ánægður með það mál eins og það hefur nú þróast. Ég vildi óska þess að þetta væri upphafið að því að Bandaríkjamenn sæju sjálfir meir og meir um sín mál á meðan þeir eru hér, svo bölvað sem það nú er. Það hefur verið stefna, a.m.k. í nösunum á ýmsum, til að mynda því blaði sem ég held að hæstv. utanrrh. telji sig nú helst styðja, þ.e. Morgunblaðið, að það ætti að reyna að halda öllum efnahagslegum tengslum við þennan her í lágmarki á meðan hann væri í landinu. Ég sé ekki betur en það sé liður í því að Bandaríkjamenn sjálfir sjái um flutningana til þessa hers á meðan hann er hér og það mun ég styðja. Sama á auðvitað við um það að herinn nesti sig sjálfur. Ég er mjög ánægður með að herinn éti frosið bandarískt kjöt og hef ekki nokkurn áhuga á því að fara að reyna að troða upp á hann íslenskum afurðum í þeim efnum því að það mundi gera okkur á vissan hátt háða þeim markaði.

Hitt er jafnástæðulaust að láta þennan her brjóta landslög um sjúkdómavarnir og annað og einnig jafnástæðulaust að láta þennan her hafa áhrif á flutninga okkar Íslendinga sjálfra til eða frá landinu. Ég er til í það hvenær sem er að aðstoða hæstv. utanrrh. við að setja um það lög að þessi bandaríski flutningadallur sinni engu öðru en flutningum fyrir herinn og væri þá vel að þessu staðið að mínu mati. Ég er sem sagt einlægur stuðningsmaður þeirrar stefnu að við einangrum þennan her á allan tiltækan máta á meðan hann er hér í landinu og höldum öllum efnahagslegum samskiptum við hann í algeru lágmarki og gerum þau helst engin. Ég sé ekki annað en það hafi þróast í rétta átt hvað þessi mál varðar, a.m.k. þetta Rainbow-mál, á síðustu árum.

Herra forseti. Ég mun þá ljúka máli mínu. Mér finnst í lósi þeirra atburða sem nú hafa gerst að það hljóti að vera svolítil vandræði á stjórnarheimilinu, sérstaklega í Sjálfstfl. Ég ímynda mér að það sé heldur pínleg uppákoma fyrir Sjálfstfl. sem nú hefur orðið í alþjóðamálum, sem sagt sú að á þá einföldu heimsmynd, sem þeir eru oft að hugga sig við, að það séu bara góðir menn og vondir menn í heiminum og við séum hluti af góða heiminum og hjá okkur sé allt gott og hinir séu vondir og þess vegna sé valið svona einfalt og málin svona einföld, hafi borið smáskugga ef ekki bara komið sprunga í þessa spegilmynd. Það hefur sem sé komið í ljós að Bandaríkjamenn eru býsna gikkglaðir. Ég hygg að hv. þm. Guðmundur Einarsson, sem er vel að sér í kúrekaslangri, hefði leyft sér að sletta með orðunum „trigger happy“ og sagt sem svo að þeir Bandaríkjamenn og Ronald Reagan væru dálítið „trigger happy“. Nú er hv. þm. fjarri góðu gamni. Hann er einmitt í heimsókn hjá þessum sama manni og kemur þá kannske skoðun sinni á framfæri.

Nei, það er auðvitað svo að bandarísk heimsvaldastefna hefur birst allt í einu í nakinni mynd og ofbeldistilhneigingar, ofbeldishugsunarháttur, sem við höfum sjálfsagt ekkert okkar viljað trúa að ætti bólstað í nálægu ríki, hefur nú birst okkur. Það er ekki nokkur leið að afsaka slíkt. Slík framkoma er hörmuleg í samskiptum þjóða og það er ekki hægt að verja hana. Engin hryðjuverkastarfsemi eða aðrir slíkir atburðir, svo alvarlegir sem þeir geta verið í sjálfu sér, réttlæta slíka atburði. Þess vegna hefði hæstv. forsrh., jafnvænt og honum þykir um orðið „að harma“, gjarnan mátt reyna að finna orð á hinu ástkæra, ylhýra íslenska máli, svo tært og skýrt sem það nú er og svo mörg kjarnyrt lýsingarorð sem það á, sem hefði hentað betur við þetta tækifæri.