15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

407. mál, utanríkismál

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þessi umræða um skýrslu hæstv. utanrrh. hefur ögn nærtækari snertipunkt við gráan veruleika alþjóðamála nú en endranær vegna þeirra tíðinda sem spurðust í morgun frá Miðjarðarhafi. Hæstv. utanrrh. kynnti í ræðu sinni afstöðu ríkisstj. Ríkisstj. harmaði atburðina og lét uppi efasemdir um að þeir skiluðu tilætluðum árangri í viðureign við hryðjuverkamenn og hvatti síðan til samstöðu þjóða gegn hryðjuverkamönnum. Ég geri ekki athugasemd, herra forseti, við þessa afstöðu svo langt sem hún nær. Það að harma ástand mála í alþjóðamálum er kannske dálítið slitin plata, en þó er endalaust hægt að telja upp ærin tilefni til þess að harma. Það segir hins vegar kannske ekki mikið. Hitt væri kannske örlítið forvitnilegra að fá einhverjar skýringar á seinni hlutanum. Hvað meina menn þegar þeir hvetja til samstöðu, lýðræðisríkjanna sérstaklega, gegn hryðjuverkamönnum?

Þegar ég tek undir þá skoðun að þessar aðgerðir Bandaríkjastjórnar séu harmsefni og ólíklegt að þær skili árangri er það ekki vegna þess, herra forseti, að ég telji ástæðu til að draga úr því að þjóðir heims verða í reynd að svara þeirri spurningu, til hvaða aðgerða á að grípa til að kveða alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi niður og það verður að svara þeirri spurningu með hvaða ráðum, hvernig? Ég mundi fyrir mitt leyti segja að þjóðir heims hafi kannske þrenns konar tæki í sínum höndum til þess að bregðast við.

Í fyrsta lagi er um að ræða pólitískar aðgerðir. Þau ríki sem eru uppvís að því að hýsa hryðjuverkamenn, vopna þá, gefa þeim griðastaði eða aðstoða þá á einhvern annan máta þyrftu að standa frammi fyrir því að þjóðir heims sýndu í verki andstöðu sína með því t.d. að slíta stjórnmálasambandi við slík ríki, með því t.d. að loka sendiráðum. Svo að ég nefni dæmi af Líbýu væri það ógerningur fyrir útsendara Gaddafis að stunda morð sín með hægu móti ef hann ekki nyti sendiráðaþjónustu, leyniþjónustuupplýsinga og griðastaða.

Í annan stað er unnt að grípa til efnahagslegra aðgerða. Það vill svo til að lýðræðisríkin á Vesturlöndum búa yfir tækjum, varningi og gæðum sem mörgum þessara þjóða er lífsnauðsyn að fá. Með því að bregðast hart við og beita efnahagslegum þvingunum slíkar þjóðir er hægt að koma svo við kaunin á þeim að margar ríkisstjórnir mundu hugsa sig um tvisvar áður en þær héldu áfram að styðja leynt eða ljóst við hryðjuverkastarfsemi, t.d. með því að loka flugvöllum fyrir flugfélögum þessara þjóða, t.d. með því að loka höfnum eða setja viðskiptabann að því er varðar þýðingarmiklar vörur. Dugi þetta ekki til má vel vera að niðurstaðan verði sú að þjóðir heims verði í reynd að svara þeirri spurningu hvernig þær ætla að standa saman um að kveða niður hryðjuverk sem, ef þau fá að haldast uppi óátalið og aðgerðarlaust, enda með því að brjóta niður þau tæki í alþjóðlegum samskiptum sem eru nauðsynleg til þess að við getum gert okkur vonir um friðsamleg samskipti þjóða eða lausn ágreiningsmála eftir venjulegum leiðum.

Það er nú einu sinni svo að þó að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé helgur eru þau tilvik til að hann sé ekki skilyrðislaus. Ef ríki gera sig sek um að standa ekki við alþjóðlegar skuldbindingar og alþjóðalög eða gera sig sek um að brjóta þau á grimmilegan máta með því t.d. að hýsa sveitir hryðjuverkamanna getur vel verið óumflýjanlegt að þau kalli yfir sig, ríkisstjórnir sem slíkt aðstoða eða stunda, að það verði óhjákvæmilegt að beita þær hernaðaraðgerðum. En þá á það helst að gerast sem örþrifaráð eftir að búið er að beita fyrst þeim leiðum sem ég nefndi fyrst, pólitískum aðgerðum eða jafnvel efnahagslegum þvingunum.

Hin alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi hefur færst svo mjög í vöxt á undanförnum árum að hún er orðin snar þáttur alþjóðlegra vandamála og varðar ekki aðeins fyrst og fremst öryggi ríkja heldur öryggi óbreyttra borgara sem verða saklaus fórnarlömb hryðjuverka. En hvað eru hryðjuverk? Ein skilgreiningin er sú að hér sé um að ræða kerfisbundin morð eða limlestingar af ásettu og yfirlögðu ráði á saklausu fólki, valdbeiting, oft studd mætti ríkisvalds, til þess að vekja skelfingu, kúga almenningsálit eða fjölmiðla en fyrst og síðast að lokum ríkisstjórnir og það í pólitískum tilgangi. Dæmin um þessi hryðjuverk eru orðin mýmörg. Menn eru hvergi óhultir um líf sitt. Farþegar í flugvélum, á flugstöðvum, á samkomustöðvum. Hvarvetna geta menn átt von á fyrirvaralausum sprengjuárásum og hópmorðum. Fyrst og fremst er munurinn á hryðjuverkastarfsemi og við skulum segja skæruliðastarfsemi sá að fórnarlömbin eru saklausir borgarar.

Það var sagt í gamla daga á tíð breska heimsveldisins að þung væri byrði hins hvíta manns. Ég held að það sé ekki á færi neins eins ríkis að vera lögreglumaður heimsins. Menn spyrja um samstöðu ríkja gegn hryðjuverkum alveg eins og menn spyrja um samtök ríkja í öryggismálum frammi fyrir sameiginlegri ógn. Myndir teknar í gervihnöttum, fjarskiptahleranir og leyniþjónustuupplýsingar gefa til kynna að þau ríki séu mörg sem þjálfa hryðjuverkamenn til starfa, vopna þá, kosta starfsemi þeirra, veita þeim griðland og veita þeim jafnvel þjónustu í sendiráðum viðkomandi ríkja. Slíkar upplýsingar eru til um aðstoð við skipulagðar sveitir hryðjuverkamanna innan Sovétríkjanna, í einstökum ríkjum Austur-Evrópu, á Kúbu, í Norður-Kóreu, í Líbýu, í Íran, í Sýrlandi, í Írak, í Suður-Yemen og fleiri ríkjum sem ég ekki hirði um að telja upp. Það mætti kannske bæta við listann bófafélagi því sem nú hefur búið um sig í Hondúras til árása á Nicaragua. Það eru leifarnar af því bófafélagi sem var við völd í því ríki áður í stjórn Somoza.

Þetta eru dæmi um hryðjuverkastarfsemi sem fyrst og fremst hefur látið til sín taka á Vesturlöndum. En stöldrum aðeins við. Er þessi skilgreining á hryðjuverkastarfsemi nóg? Ef við lítum á ástand alþjóðamála kemur á daginn við stutta umhugsun að svo er ekki. Megnið af þeirri hryðjuverkastarfsemi sem bitnar á saklausum borgurum er nefnilega alveg grímulaust stunduð fyrst og fremst af ríkisstjórnum. Það er ríkisvaldið sjálft sem beitir slíkum ofbeldisaðgerðum ýmist gegn sínum eigin þegnum eða saklausum borgurum annarra landa. Mestu ofbeldisverk okkar aldar voru skipulögð af ríkisstjórnum gegn eigin þegnum. Dæmi: Útrýmingarherferð Hitlers gegn Gyðingum og reyndar fjölmörgum öðrum einstaklingum af ólíku þjóðerni. Annað dæmi: Grimmileg borgarastyrjöld sovéska ríkisvaldsins gegn borgurum Sovétríkjanna sem kostaði tugi milljóna manna lífið og er ekki hægt að líkja í mörgum tilvikum við annað en skipulegt þjóðarmorð. Nærtækt dæmi: Morð á milljónum manna í Kampútseu sem stundað var af ríkisvaldi, þ.e. bófafélagi sem tekið hafði völdin í viðkomandi ríki. Þannig mætti telja upp fjöldamörg dæmi um herferðir ríkisstjórna eða öllu heldur bófafélaga sem kalla sig ríkisstjórnir á hendur eigin borgurum. Ég nefni dæmi um Íran, ég nefni dæmi um Eþíópíu og ég gæti nefnt ótal dæmi frá hinum nýfrjálsu ríkjum Afríku þar sem stunduð hafa verið fjöldamorð og útrýmingarherferðir gegn einstökum kynþáttum af ríkisstjórnum sem að vísu höfðu hvergi verið kjörnar til þess að fara með vald heldur höfðu tekið sér vald með valdi og raunverulega eru lítið annað en skipulögð bófafélög.

Það væri æskilegt, og þá hefði stór draumur ræst, ef við hefðum getað borið það traust til hinna Sameinuðu þjóða að þar væri aðili þar sem væru fulltrúar ríkisstjórna sem færu með ósvikið umboð þjóða sinna til að taka að sér lögregluhlutverk í heiminum gagnvart slíkri hryðjuverkastarfsemi. Eitt af því óhugnanlegasta við staðreyndir alþjóðamála er að stór hluti ríkisstjórna í heiminum, og fulltrúar ríkja á samkomum hinna Sameinuðu þjóða, eru lítið annað en hryðjuverkamenn, sem þar eru ekki í umboði neinna löglegra ríkisstjórna heldur fyrst og fremst útsendarar pólitískra bófafélaga sem hafa stundað fjöldamorð í hverju ríkinu á fætur öðru, ýmist á eigin þegnum eða á þegnum grannríkjanna. Hver er sá aðili í heiminum sem getur axlað það hlutverk að halda uppi löggæslu í nafni óbreyttra borgara, einstaklinganna sem eru fórnarlömb slíks stjórnarfars, slíkra ríkisstjórna? Það er með öðrum orðum hægara um að tala en í að komast.

Ef við lítum til þjóða heims og spyrjum um afstöðu til einstakra hryðjuverka er hægt að nefna nokkur dæmi um ríki, sem hafa mótað sér stefnu, sem hafa aldrei hvikað fyrir hótunum hryðjuverkamanna, hversu grimmilegar sem þær hafa verið og nefni ég Ísrael þar sem dæmi. Það er líka hægt að nefna dæmi um ríkisstjórnir, eins og ég hef þegar gert, sem styðja hryðjuverkastarfsemi með ráðum og dáð. En allur þorri ríkisstjórna er að sjálfsögðu hlutlaus, a.m.k. meðan hryðjuverkaöflin láta ekki til skarar skríða gegn viðkomandi ríki og þá í von um að með því að heiðra skálkinn svo að hann skaði þig ekki verðir þú látinn í friði. Slík afstaða gengur ekki. Að lokum er óumflýjanlegt að reyna að svara þessari spurningu: Hvernig geta ríki heims, sem vilja virða grundvallarreglur alþjóðalaga og hafa í heiðri samskipti siðaðra manna í samskiptum ríkisstjórna, beitt samtökum sínum til að kveða þetta niður? Þá kann ég ekki önnur svör en þau sem ég nefndi áðan: Í fyrsta lagi að beita pólitískum aðgerðum, í annan stað efnahagsþvingunum og ef þetta ekki dugar þá með samtökum að láta til skarar skríða til að uppræta þessa starfsemi, öðrum til viðvörunar.

Það eru hins vegar ekki mjög bjartar horfur á því að slík samstaða náist, m.a. vegna þess að gróðahagsmunir einkaaðila og ríkisstjórna eru oft miklir. Ríkisstjórnir skirrast við að beita efnahagsþvingunum af þeim ástæðum að þær óttast um viðskiptalega hagsmuni. Í annan stað er hlutleysisafstaðan oft byggð á voninni um að verða látinn í friði og að sumu leyti lýsir þetta siðferðilegri kreppu. Eitt meginmarkmið hryðjuverkamanna er að sjálfsögðu að nýta sér fjölmiðla í vestrænum opnum þjóðfélögum til að ná þar aðstöðu til að kúga almenningsálitið til hlýðni. Það er eitt þýðingarmikið atriði sem ætti að koma til álita. Það á að vera ein fyrsta skylda blaðamanna að afhjúpa glæpastarfsemi í sínum eigin þjóðfélögum. Ég nefni t.d. framgöngu bandarískra fjölmiðla við að afhjúpa mafíustarfsemi þar í landi. Ef fjölmiðlar í opnum lýðræðisþjóðfélögum beittu svipuðum aðferðum og gerðu sömu kröfur til sjálfra sín þegar um er að ræða alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, eins og sagan sýnir að þeir hafa gert með því að fletta ofan af starfsemi innlendra glæpamanna, gæti það verið mjög þýðingarmikil aðgerð ein út af fyrir sig.

Herra forseti. Ég sagði áðan: Það er útslitin plata að harma ástand mála og hrekkur skammt, en ef menn vilja ræða þessi mál í alvöru er þýðingarmeira að leitast við að svara þeirri spurningu: Hvað geta lýðræðisþjóðirnar sérstaklega, og ég segi lýðræðisþjóðirnar vegna þess að þær eru augljóslega helstu fórnarlömb alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi, hvað geta þær að lokum gert, ekki hver og ein heldur þá sameiginlega, til að verja líf og limi saklausra fórnarlamba slíkrar starfsemi? Niðurstaðan er hin sama og að því er varðar grundvallarforsendur fyrir öryggispólitík þessara landa. Það er aðeins með því að setja sér sameiginlegar reglur og hafa kjark til að fylgja þeim fram sem einhver von er um árangur.

Herra forseti. Þessi skýrsla utanrrh. gæfi að sjálfsögðu tilefni til að ræða fjölmargt annað en atburði dagsins. Ástæða væri til að fjalla allítarlega um tillögur og hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, um afvopnunarmál almennt, um samskipti okkar við granna okkar, Grænlendinga og Færeyinga, um það sem þarna er sagt um öryggis- og varnarmál, að árétta grundvallaratriðin sem skýra hvers vegna aðild okkar að varnarsamtökum lýðræðisríkja er brýnni nú en kannske nokkru sinni fyrr. Það væri ástæða til að efna til eldhúsdags um varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins, m.a. í ljósi hugmyndanna um kjarnorkuvopnalaust svæði, og um ýmsar breytingar sem hafa orðið á starfsemi utanríkisþjónustunnar að undanförnu, eins og um varnarmálaskrifstofu, þátttöku í hermálanefnd og því næst um veru varnarliðsins hér, sambúðina við það, verktakastarfsemina o.s.frv. Augljóslega gefst enginn tími til þess arna.

Ég ætla að láta mér það nægja að drepa á tvennt áður en ég lýk máli mínu. Fyrst örfá orð um kjarnorkuvopnalaust svæði og að lokum nokkrar athugasemdir um afstöðu þeirra fulltrúa Alþb. sem hafa talað í þessum umræðum til utanríkismála og það að gefnu tilefni.

Afstaða okkar íslenskra jafnaðarmanna til hugmyndarinnar um kjarnorkuvopnalaust svæði er held ég sæmilega kunn og þarf ekki að árétta hana í löngu máli. Í raun og veru má furðu gegna að þessi umræða hefur yfirleitt sjaldnast farið fram í eðlilegu samhengi við grundvallaratriði um öryggisstefnu ekki aðeins þessa ríkis heldur Norðurlanda og Vestur-Evrópu í heild.

Það vita allir menn að Norðurlöndin eru kjarnorkuvopnalaus. Það vita það líka allir að enginn stjórnmálamaður og engin stjórnmálahreyfing á Norðurlöndum hafa neinn vilja til að breyta því. Við viljum viðhalda því ástandi meðan við fáum nokkru um það ráðið, þ.e. á friðartímum. Hins vegar vita allir sem vilja vita að ef til þeirra skelfilegu atburða drægi að til kjarnorkustyrjaldar kæmi verðum hvorki við né aðrir spurðir um það. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að spurningin um kjarnorkuvopnalaust svæði hér eða þar er ekki fyrst og fremst staðbundið vandamál, spurning um hvar þessum vopnum er komið fyrir, heldur er það fyrst og fremst spurning um hvernig smáþjóðir í okkar heimshluta, sem ekki búa yfir kjarnorkuvopnum flestar hverjar, geta mótað sér sameiginlegt öryggiskerfi eða haft með sér sameiginlegt varnarsamstarf sem við getum gert okkur vonir um að skili þeim árangri að koma í veg fyrir styrjöld og þar með að kjarnorkuvopnum verði nokkurn tíma beitt. Engin leið er að ræða þessa öryggispólitík eða leggja mat á hana, hvern árangur hún hefur borið frá stríðslokum, nema menn gefi sér einhverjar sameiginlegar forsendur um hvaðan öryggi okkar er ógnað. Ef menn telja að öryggi lýðræðisríkjanna stafi engin ógn neins staðar frá þarf ekki frekar um málið að ræða.

Ég hef, eins og t.d. á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn um hin kjarnorkuvopnalausu svæði, vitnað sérstaklega til sovéskra heimilda um hver áform þeirra eru að því er varðar Vestur-Evrópu. Þau áform eru óbreytt frá stríðslokum. Þau eru einfaldlega að gera Vestur-Evrópu að sovésku áhrifasvæði með svipuðum hætti og Austur-Evrópa er nú þegar. Friðarskilmálarnir eru þekktir, þ.e. að sætta sig við hið sama pólitíska ástand og þar ríkir. Sovétríkin eru hervætt nýlenduveldi á útþensluskeiði, eins og allir mega skynja sem þekkja eitthvað til eðlis Sovétríkjanna og sögu þeirra á tímabilinu frá byltingu til okkar daga. Spurningunni um hvernig við eigum að mæta þessu hernaðarstórveldi í okkar heimshluta hefur þegar verið svarað. Samstaðan um það svar hefur sjaldan verið meiri í okkar heimshluta þrátt fyrir allt en einmitt nú.

Þrátt fyrir forna frægð er svo komið að ríkin í Vestur Evrópu eru ýmist smá- eða miðlungsríki. Ekkert þeirra hefur hernaðarlegt bolmagn til að sjá öryggishagsmunum sínum borgið eitt út af fyrir sig. Lexía sögunnar og staðreyndir samtímans hafa kennt þeim að þetta öryggi verði aðeins tryggt með sameiginlegu varnarsamstarfi. Þetta breytir engu um að öllum er þessum ríkjum það sameiginleg ósk að bægja frá kjarnorkuvopnaógnuninni sem ekki er staðbundið vandamál heldur varðar heimsbyggðina alla. Niðurstaðan er sú að það getum við því aðeins gert að við gerum það sameiginlega, með sameiginlegum og gagnkvæmum samningum um að fjarlægja kjarnorkueldflaugar beggja megin víglínu, stöðvun á framleiðslu og tilraunum með kjarnorkuvopn og afvopnun og samdrætti herja beggja aðila og það líka að því er varðar venjuleg vopn.

Ef einhverjir menn trúa því að einstök smáríki í þessum heimshluta geti skorið sig úr og náð sérstökum friðarskilmálum með einhliða aðgerðum er það mikill misskilningur. Um þetta snýst þetta mál. Það sem þarf að taka afstöðu til er einfaldlega þetta: Trúa menn að það auki friðarhorfur í heiminum eða í okkar heimshluta, dragi úr spennu, auki öryggi Norðurlanda, ef einstök ríki, sem nú eru aðilar að NATO, eins og Noregur, Danmörk eða Ísland, taki sig út úr varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins og geri sérsamninga um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði? Ef menn halda að slík aðgerð þjóni einhverjum tilgangi eða tryggi betur öryggi Norðurlandaþjóðanna er það að mínu mati hreint og klárt öfugmæli.

Það eru líka hreinar öfgar að segja að valið sé eingöngu annars vegar milli stríðs eða þess friðar sem fáanlegur er á friðarskilmálum Sovétmanna. Málið er ekki þannig vaxið. Málið snýst um það að lýðræðisríkin með sameiginlegu varnarkerfi vilja tryggja öryggi þeirrar þjóðfélagsskipunar sem við kjósum okkur og byggir á lýðræði og frelsi einstaklinga og við viljum gera það án þess að lúta þeim afarkostum að við verðum annaðhvort að láta þetta af hendi og þá lúta friðarskilmálum Sovétmanna eða ella bíða allsherjar tortíming. Svo einfalt er málið ekki.

Það væri mjög æskilegt í þessu viðfangi að skýra nánar ýmis þýðingarmikil atriði þessarar umræðu, en ég ætta ekki að gera að. Ég vil aðeins benda hv. alþm. á að kynna sér rækilega skýrslu þá sem sérstök nefnd á vegum norska utanríkisráðuneytisins skilaði til norska Stórþingsins 25. okt. 1985. Skýrslan heitir „Vandamálið um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.“ Hún er geysilega ítarleg. Hún er kennd við Kjeld Colding sem er sendiherra Norðmanna í Finnlandi. Þetta er sú ítarlegasta ritið sem ég hef séð í norrænu samhengi um hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust svæði. Ég læt mér nægja að nefna að í þessari skýrslu er bent á um það bil 20-30 þýðingarmikil málsatriði, sem varða praktíska útfærslu þessarar hugmyndar, sem sýna mönnum fram á, hversu yfirborðskennd og einfeldningsleg umræðan er, fyrr en hún fer að beinast að grundvallarspurningum. Eins og t.d. um það einfalda mál að einhliða yfirlýsing breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut að því er varðar öryggi Norðurlanda öðru en því að auka vafalaust spennu á þessu svæði Norðurlandanna og draga úr árangri þess öryggiskerfis sem þessar þjóðir hafa þó búið við allt frá stríðslokum. Sérstaklega væri ástæða til þess fyrir Íslendinga að huga að því hvaða áhrif slík einhliða aðgerð hefði á hafsvæðið á Norður-Atlantshafi á milli Íslands og Noregs verði kjarnorkuvopn flutt í auknum mæli af landi á haf út. Það eitt út af fyrir sig ætti að vera okkur nægilegt umhugsunarefni til að taka með fyrirvara patentlausnum af þessu tagi.

Herra forseti. Íslensk utanríkismálaumræða og öryggismálaumræða hefur fyrir löngu staðnað í gömlum skotgröfum og klisjum eins og t.d. slagorðið „Ísland úr NATO - herinn burt“ bendir til. Kannske getum við gert okkur einhverjar vonir um að það fari að breytast. Sérstaklega er ástæða til að gera sér vonir um að talsmenn Alþb., sem allan tímann frá stríðslokum hafa farið með þessa rullu, kunni að vera fáanlegir til að endurskoða grundvallaratriðin í þeirri afstöðu.

Eins og allir vita er sú tíð liðin að talsmenn Alþb. verji Sovétkerfið í sinni pólitísku umræðu. Margir þeirra vilja láta sem svo að þeir hafi, þótt seint sé, komist að nýjum niðurstöðum um eðli þess þjóðfélags og geri sér grein fyrir að lýðræðisríkjunum kunni að stafa nokkur hætta af hinu hervædda alræðisríki í austri og áformum þess í okkar heimshluta. Ef svo er er ástæða til að spyrjast fyrir um hvort ekki sé orðið tímabært að talsmenn Alþb. dragi rökréttar niðurstöður af þeirri greiningu á eðli hins sovéska nýlenduveldis. Ég segi: Það er kannske tímabærara en ella nú með vísan til atburða sem eru að gerast í kringum okkur. Fyrir skömmu var frá því skýrt í fréttum og vakti nokkra athygli að á flokksþingi ítalska kommúnistaflokksins var enn einu sinni áréttað að ítalski kommúnistaflokkurinn hefði endurskoðað algerlega afstöðu sína til NATO, sem hann hefur reyndar gert fyrir allmörgum árum, og væri nú þeirrar skoðunar að þjóðarhagsmunir Ítala séu slíkir að Ítalíu beri að vera áfram aðili að Atlantshafsbandalaginu og það sé eðlilegt út frá sjónarmiði ítalskra kommúnista að Vestur-Evrópuríkin, lýðræðisríkin, tryggi öryggi sitt með varnarsamstarfi við Bandaríkin. Því er haldið fram af hálfu ítalskra kommúnista að með þessu móti hafi þeir, Ítalir, meiri áhrif í þá átt að móta tillögugerð og stefnu Atlantshafsbandalagsins í heild að því er varðar t.d. tilraunir til að draga úr kjarnorkuvopnum í okkar heimshluta eða í afvopnunarmálum almennt en ef þeir væru utan bandalagsins. Þeir leggja á það sérstaka áherslu að þeir telji að þeir hafi meiri áhrif með þessum hætti en t.d. hlutlausu ríkin fjögur í Evrópu, þ.e. Svíþjóð, Austurríki, Sviss, Júgóslavía, sem byggja öryggisstefnu sína á vopnuðu hlutleysi.

Sú var tíð að Alþýðubandalagsmenn vildu leita til Ítalíu um fyrirmyndir um Evrókommúnisma. Ef þeir meina eitthvað með þeirri gagnrýni, sem þeir hafa sett fram á Sovétríkin og Sovétkerfið, mætti ætla að þetta væri út af fyrir sig rökrétt niðurstaða af þeirri greiningu á eðli stjórnmála vegna þess að utanríkismál eru líka stjórnmál.

Þá er líka sérstök ástæða, herra forseti, til að vekja athygli þeirra Alþýðubandalagsmanna á því að í nýjasta hefti Nordisk Kontakt er frá því skýrt að fulltrúi vinstri sósíalista í Danmörku, Klaus Birkholm, hefur sett fram mjög svipaðar skoðanir og ítalskir kommúnistar, þ.e lagt það til að flokkur hans gerbreyti sinni utanríkispólitísku afstöðu, taki m.ö.o. afdráttarlausa afstöðu með því að Danmörk eigi heima í varnarsamtökum lýðræðisríkjanna, tekur undir það sjónarmið að þar með sé líklegt að Danmörk hafi meiri áhrif til góðs og í friðarátt að því er varðar starf að afvopnunarmálum en ef hún stæði utan, fullyrðir að stefna danskra kommúnista hingað til og vinstri sósíalista um óvopnað hlutleysi sé rugl og reyndar strútspólitík, eins og segir í þessari grein, en leggur um leið áherslu á að aðildin að NATO, aðildin að Atlantshafsbandalaginu er þess eðlis, þar sem saman eru komin lýðræðisríki þar sem ríkisstjórnir þiggja umboð sitt frá fólki, að ekki þýði að líkja Atlantshafsbandalaginu saman við leppstjórnir Varsjárbandalagsins vegna þess að þetta eru sjálfstæðar ríkisstjórnir. Auðvitað endurspegla þær umræðu og áhrif almenningsálits á þær, svo sem augljóst er af þróun í okkar heimshluta á undanförnum árum, þannig að þeir gera sér vonir um að með starfi innan Atlantshafsbandalagsins og með því að virkja almenningsálitið innan þess með upplýstri umræðu um afvopnunarmál hafi Evrópuríkin fulla burði til að lýsa sjálfstæðri afstöðu sinni t.d. gagnvart ríkisstjórn Bandaríkjanna á hverjum tíma, enda ótal dæmi um að það hafa þau gert. Varnarsamstarf lýðræðisríkjanna byggist m.ö.o. á sameiginlegum niðurstöðum. Þar er ekki um leppríki eins stórveldis eins og í Varsjárbandalaginu að ræða. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi sjónarmið, sem þarna eru sett fram, eru af hinu góða, enda er það fljótsagt að fulltrúar t.d. danskra sósíaldemókrata lýstu sérstakri ánægju sinni með þessi sinnaskipti talsmanns danskra vinstri sósíalista í öryggismálum.

Að lokum, herra forseti. Ef slíkar breytingar yrðu hér á málflutningi og stefnumótun Alþb. að því er varðar utanríkis- og öryggismál teldi ég að þeir Alþýðubandalagsmenn hefðu gert sitt til að ryðja úr vegi ágreiningsefnum sem að vísu hvíla á úreltum forsendum en hafa staðið í vegi fyrir æskilegu samstarfi afla eins og jafnaðarmanna og Alþýðubandalagsmanna að öðrum og þýðingarmiklum innanlandsmálum.