15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3915 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

407. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt liðið á þessa umræðu og tveir þm. Alþb., hv. 5. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Norðurl. e., hafa þegar gert grein fyrir okkar sjónarmiðum varðandi þá skýrslu sem er til umræðu, svo og árás Bandaríkjamanna á Líbýu, en öll þessi umræða hefur mjög verið í merki þeirra atburða. Ég ætla þess vegna ekki að bæta þar við mjög mörgum orðum og hafði einkum hugsað mér að dveljast við tvö atriði, þ.e. í fyrsta lagi spurninguna um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og í annan stað framkvæmdir í bandarísku herstöðinni á Íslandi og hvernig þær hafa þróast á undanförnum árum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi þau mál nokkuð en í skýrslunni koma fram upplýsingar um þann kostnað sem til er stofnað í herstöðinni í Keflavík. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson var svo smekklegur fyrr í dag að taka upp gamla tuggu frá hæstv. fyrrv. utanrrh., Geir Hallgrímssyni, um það að framkvæmdir hér á landi í herstöðinni væru í rauninni svipaðar og verið hefðu og að þær hefðu náð ákveðnu hámarki í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að svara þessum áróðurslummum nokkrum orðum og að það verði kannske best gert með því að vitna í skýrslu hæstv. utanrrh. á bls. 46 þar sem tekin eru af öll tvímæli í þessu efni. Þar kemur það fram að á þessu ári er gert ráð fyrir að framkvæma verk á vegum Íslenskra aðalverktaka fyrir 57 millj. dollara og á vegum Keflavíkurverktaka upp á 9 millj. dollara, eða samtals 66 millj. dollara. Hér er um að ræða upphæð sem er í kringum 2,5 milljarðar ísl. kr., upphæð sem er meira en tvisvar sinnum hærri en var að jafnaði á árunum næst þar á undan. Það er því alveg ljóst að í tíð núv. ríkisstj. er um að ræða margföldun á framlögum til framkvæmda í herstöðinni. Hermangið margfaldast frá því sem verið hefur á sama tíma og framkvæmdir á vegum landsmanna sjálfra í félagslegum verkefnum af margvíslegum toga eru skornar niður með býsna harkalegum hætti.

Ég held að það sé gott að hæstv. núv. utanrrh. skuli hafa stigið sín fyrstu skref með því að taka aftur áróðursfullyrðingar forvera síns í þessu efni með þeim skriflega hætti sem gert er á bls. 46 í skýrslu utanrrh.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi þetta atriði í sinni ræðu í dag. Ég hefði ekki farið að vekja sérstaka athygli á þessu nema vegna þess að hann sá ástæðu til þess að leggja lykkju á leið sína til að núa Alþb. því um nasir að í þeirri tíð sem Alþb. var aðili að ríkisstjórn hafi verið um sérstaka aukningu framkvæmda á vellinum að ræða. Það varð veruleg aukning framkvæmda á vellinum á árinu 1983 en ákvörðun um þær framkvæmdir var m.a. tekin eftir kosningarnar 1983 þegar þáv. ríkisstj. hafði sagt af sér en væntanlega þá í trausti þess að þáv. hæstv. utanrrh. hefði stuðning hernámsflokkanna, sem svo voru kallaðir hér áður og mega gjarnan heita það enn, á Alþingi við hugmyndir sínar og áætlanir. Þetta vildi ég nefna, herra forseti, til þess að leiðrétta fullyrðingar sem uppi hafa verið í þessu efni.

Þá vil ég leyfa mér þessu næst að taka til meðferðar hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum en það mál er einnig rætt lauslega í skýrslu utanrrh. á bls. 12 og 13. Þar er farið um þessa hugmynd orðum með svipuðum hætti og utanrrn. telur að þóknanlegt sé í Bandaríkjunum. Ekki er gerð nein tilraun til að leggja neitt sjálfstætt mat á hlutina af hálfu íslenska utanrrn. frekar en fyrri daginn, það er ekkert nýtt. Það hefur ekki komið til með þeim embættismönnum sem þar eru nú eða þeim ráðherra sem þar situr nú. Þannig hefur það lengi verið. Ég komst reyndar einu sinni svo að orði um hæstv. fyrrv. utanrrh., Geir Hallgrímsson, að hann væri kaþólskari en páfinn, Bandaríkjamegin við Reagan, og ég held ég leyfi mér að hafa svipuð ummæli um utanrrn. í dag.

Ég tel að margt af því sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk. þm. í kvöld um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum hafi verið athyglisvert þar sem hann gerði grein fyrir umræðum um þau mál í nefnd sem við áttum báðir sæti í til að undirbúa ráðstefnu þingmanna á Norðurlöndum s.l. haust. Það var hins vegar mjög sláandi í hans ræðu að hann gerði allt sem hann gat til þess að finna veikleika á þessum hugmyndum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, finna þeim eitthvað til foráttu, benda á vandamálin. Hann dró ekki fram hina hliðina á málinu sem er það jákvæða framlag sem yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum gæti verið til umræðunnar í heiminum um þessar mundir og þróunar afvopnunarmála.

Ég held að við verðum að gera okkur ljóst að það er úrslitaatriði að Íslendingar taki þátt í öllum umræðum um hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum þegar frá upphafi og að við verðum aldrei viðskila í þeirri umræðu við hin Norðurlöndin. Með því að Íslendingar yrðu viðskila við hin Norðurlöndin í þeim efnum væri verið að skapa hættu á klofningi milli Íslands og annarra Norðurlanda, skapa hættu á auknum þrýstingi á Ísland að taka við kjarnorkuvopnum í framtíðinni. Hvað sem öllu öðru líður og hvað sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórnarinnar og Alþýðuflokksins segja um þessi mál viðurkenna þeir þó allir að Íslendingar eigi að vera með í þessari umræðu. Þeir eiga að fylgjast með henni skref af skrefi. Mér fannst það mjög athyglisvert á þingmannaráðstefnu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum í haust að einmitt talsmenn Sjálfstfl., bæði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Ólafur G. Einarsson, lögðu á þetta sérstaka áherslu, að þarna mætti Ísland ekki verða viðskila, við yrðum að reyna að verða samferða hinum Norðurlöndunum svo sem frekast er unnt.

Ég hef engan íslenskan stjórnmálamann heyrt hafna þessu. Ég heyrði að vísu ræðu hv. 5. þm. Reykv. Jóns Baldvins Hannibalssonar á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í haust. Hún er ein af þessum ræðum sem maður stundum heyrir og eru vondar og maður hefði helst viljað að hefðu aldrei verið haldnar og er í raun og veru tilbúinn til að gleyma henni. En það örlar þó á því að maður minnist þess hvernig þm. setti málin upp og ég hygg að enginn þm. á þeirri ráðstefnu fyrir utan talsmenn Glistrup-flokksins í Danmörku hafi komist jafnlangt í að níða niður hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Hins vegar veit ég það að Alþfl. hér á Íslandi hefur tekið þátt í umræðum um þessi mál með öðrum sósíaldemókrataflokkum á Norðurlöndum og ég er sannfærður um að innan Alþfl. eru margir sem telja að hér sé um að ræða brýnt pólitískt verkefni.

Menn segja: Málið er flókið. Hvernig á að afmarka landsvæðið? Hvað með höfin? Hér er um að ræða siglingaleiðir stórveldanna. Allt eru þetta réttmætar og eðlilegar spurningar. En við skulum ganga út frá því í fyrsta lagi sem við vitum, eða hvað? Við höfum ekki kjarnorkuvopn á Norðurlöndum skv. yfirlýsingum sem gefnar hafa verið. Í öðru lagi, við viljum ekki hafa kjarnorkuvopn á Norðurlöndum. Í þriðja lagi, við viljum ekki taka við kjarnorkuvopnum á Norðurlöndum. Við getum gengið þannig út frá mikilvægum grundvallaratriðum í þessum efnum.

Þess vegna er það skynsamlegt, sem formaður sósíaldemókrataflokksins í Danmörku hefur lagt til, að sett verði á laggirnar 25 manna þingmannanefnd frá öllum Norðurlöndunum sem fari yfir þessi mál, setji fram hugmyndir um útfærslu kjarnorkuvopnalauss svæðis á Norðurlöndum í eins konar samningsuppkasti sem síðan gengi til umræðna, skoðanaskipta og athugasemda á þjóðþingum Norðurlandanna meðal norrænu þjóðanna. Þannig færu menn yfir málin lið fyrir lið. Þegar slíkur samningstexti væri tilbúinn mætti hugsa sér að þessar fimm þjóðir, sem eru þekktar á alþjóðlegum vettvangi að samstöðu og mörgu skynsamlegu í málatilbúnaði, leggi þetta samningsuppkast fram og segi: Hér erum við. Við viljum hafa þetta svona. Komið þið nú. Standið að þessu með okkur.

Þessi uppsetning í „einhliða“ og „ekki einhliða“, sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni hér fyrr í kvöld, er ekki rétt uppsetning. Þegar við erum að ræða um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum skoðum við það auðvitað í stóru, almennu, alþjóðlegu samhengi. Annað kemur ekki til greina.

En hugsum við um það eitt augnablik hvaða áhrif það gæti haft ef Norðurlöndin öll hefðu sagt þetta: Við viljum ekki hafa kjarnorkuvopn og munum ekki taka við þeim. Á sama tíma og fyrir liggur að það hafa verið gefnar yfirlýsingar um kjarnorkuvopnalaus svæði í Mið-Ameríku, Suður-Ameríku, Kyrrahafi og Suðurskauti og það er verið að ræða um þessi mál annars staðar. Ímyndum okkur að slík svæði séu orðin til, þrjú eða fjögur, og fulltrúar þeirra gangi fyrir stórveldin og segi: Hér erum við. Við höfum ákveðið að við viljum hafa þessa hluti svona. Við erum nýtt afl í alþjóðastjórnmálum. Þið eigið ekki ein að ráða öllum hlutum og sitja yfir hvers manns hlut í þessum heimi.

Það er þessi nýja hugsun í alþjóðastjórnmálum sem hörðustu talsmenn NATO-flokkanna á Íslandi hafa ekki fengist til að glíma við. Mér finnst það miður. En þó, umræðan hefur verið í gangi að undanförnu með þátttöku m.a. þm. úr öllum íslenskum stjórnmálaflokkum. Þeirri umræðu verður haldið áfram og ég held að við séum þarna að þróa kost í utanríkis- og öryggismálum sem við getum sameinað fleiri um en unnt hefur verið til þessa í utanríkis- og öryggismálum Íslendinga.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, hversu sannfærðir sem menn eru um ágæti Atlantshafsbandalagsins og alls sem því fylgir, að það hefur verið bullandi ágreiningur um aðildina að NATO og herstöðina og útfærslu utanríkisstefnunnar hér allan tímann frá árinu 1946. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að sameinast um kost í utanríkismálum sem nær til fleiri og stærri hluta þjóðarinnar, miklu stærri en okkur hefur áður tekist.

Samþykktin, sem var gerð á Alþingi Íslendinga s.l. vor, var skref í rétta átt. Ég tel að hér sé um að ræða þýðingarmikið og alvarlegt mál og þess vegna megi menn ekki yppta öxlum yfir þessu og líta á þessar hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum fyrst og fremst sem niðurstöðu af tilfinningum vegna þess að við höfum óbeit á þeim hryllilegu vopnum sem hér er um að ræða.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, herra forseti, að bréf Ankers Jörgensens, sem hefur borist hæstv. forseta Alþingis, þar sem óskað er eftir aðild þingflokka að þessari 25 manna norrænu nefnd, sé merkilegur atburður. Það er reyndar í rökréttu framhaldi af ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Spurningin er hér um það: Viljum við að Norðurlöndin hafi frumkvæði burtséð frá öllum orðhengilshætti, eins og einhver maður orðaði það hér í dag?

Í umræðum um utanríkismál og í skýrslu utanrrh. stendur aðaláherslumálið í utanríkisstefnu okkar-það stendur líka í stjórnarsáttmálanum, það er fölgræn bók sem var gefin út vorið 1983 og heitir „Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar“ og flestir eru búnir að gleyma- (Gripið fram í: Sumir muna þó eftir henni.) Já, ég man eitt og annað úr henni. Í þeirri bók stendur að leggja eigi sérstaka áherslu á norrænt samstarf, það er númer eitt í utanríkismálum. En síðan segir hér í skýrslu utanrrh. að það megi alls ekki tala um þessa hugmynd um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum nema innan Atlantshafsbandalagsins.

Ég tel að þetta sé algjörlega fráleit uppsetning, eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir reyndar benti á hér í dag. Auðvitað eigum við að nálgast þessi mál út frá norrænum hagsmunum, þátttöku í norrænu samstarfi. Reynslan er sú að þar sem menn hafa gengið heils hugar til norræns samstarfs hefur það skilað árangri. Það sýna dæmin í félags- og menningarmálum og á fleiri sviðum.

Ég tók eftir því að hv. þm. Kjartan Jóhannsson talaði um að við Alþýðubandalagsmenn ættum að fyrirverða okkur fyrir okkar stefnu í utanríkismálum og var þar að vitna til spurningarinnar um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Við Alþýðubandalagsmenn höfum rætt um þau mál opnum huga, skoðum þau mál eins og önnur á hverri stundu og teljum það eðlileg vinnubrögð.

Hins vegar er það fróðlegt að horfa á okkar afstöðu í þessum efnum einmitt í dag. Er Ísland í dag betur komið sem aðili að Atlantshafsbandalaginu og þar með hluti af átökunum sem eiga sér stað um Líbýu vegna þess að í varnarsamningnum er kveðið á um það að árás á eitt ríki sé árás á þau öll? Lítur hæstv. utanrrh. svo á að Ísland sé nú á þessari stundu í stríði við ríkið Líbýu? Hefur Ísland í rauninni þegar skuldbundið sig með alþjóðlegum samningum til að vera í stríði við ríkið Líbýu og þar með standa við hliðina á Ameríkananum gjörsamlega í þessari deilu þrátt fyrir harmskvaðninguna og ályktun ríkisstjórnarinnar í dag?

Það er óhjákvæmilegt að hæstv. utanrrh. gefi hér skýrar yfirlýsingar í þessu efni vegna þess að hér er um að ræða einstæðan viðburð á undanförnum árum og ég geri ekki ráð fyrir því að utanrrn. eða ríkisstj. hafi fabrikkerað einhver svör við spurningum af þessu tagi. En spurningin er gild. Veruleiki dagsins í dag kallar á svar við þessari spurningu og það verður að gera þá kröfu til utanrrh. að hann með afdráttarlausum hætti skýri sína afstöðu í þessu efni.

Ég vil einnig spyrja hæstv. utanrrh.: Ætlar hann að beita sér fyrir því innan Atlantshafsbandalagsins að árásinni verði mótmælt? Ætlar hann að beita sér fyrir því að Atlantshafsbandalagið mótmæli þessari árás? Ég hef tekið eftir því að einstaka ráðamenn í Vestur-Evrópu hafa lýst því yfir að þessi árás sé ekki á vegum Atlantshafsbandalagsins. En ég spyr: Ætla þessir menn að fylgja þessum yfirlýsingum eftir með því að Atlantshafsbandalagið vísi þessari árás algjörlega frá sér og segi: Þetta er amerískt málefni, þetta er ekki málefni Atlantshafsbandalagsins? Eða ætla menn að sitja og þrymja og þegja undir þessum ósköpum sem eru að ganga yfir? Eða ætla menn að muna hvaða örlög eru hér í húfi fyrir þjóðir heimsins? Ætla menn að muna eftir þeim skyldum sem við höfum bæði við okkur sjálf og okkar þjóð og nágrannaþjóðir okkar? Þessum spurningum, sem ég hef hér borið fram, verður að svara. Utanrrh. verður að gera grein fyrir sinni afstöðu og við að halda áfram umræðum hér í nótt um þetta mál ef þörf krefur.

En ætli að það hafi verið skynsamlegt af hv. 3. þm. Reykn. einmitt í dag að spyrja okkur að því hvort við vildum fyrirverða okkur fyrir stefnu okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu? Ég hygg að aðrir þurfi í dag að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart Atlantshafsbandalaginu og láta það koma skýrt fram hvernig þeir vilja taka þar á málum. Hvað segir Alþfl. um þessi mál? (JBH: Þeir eru að því vinstri sósíalistar í Danmörku og SF. ) Hvað segir Alþfl. um þessi mál varðandi NATO og stöðu þess gagnvart árásinni á Líbýu, af því að hv. 5. landsk. þm. er næsti ræðumaður á eftir mér?

Í árásinni á Líbýu kemur heimsvaldastefnan fram kviknakin, alþjóðalögreglan sem ætlar að hafa vit fyrir okkur öllum hinum hvar sem er í heiminum, hann sjálfur, Ronald Reagan, sem vakti þjóðir þessa heimshluta í morgun með því að ljúga því að þeim, með leyfi forseta, að það hefðu verið gerðar árásir á búðir hryðjuverkamanna einvörðungu og sú árás hefði tekist. En í sama fréttatíma birti sjónvarpið frétt um það í myndum hvaða hryðjuverkamenn það voru sem hann var að tala um, forseti Bandaríkjanna, fólkið inni á spítölunum í Trípólí.

Það er rétt sem hv. þm. Páll Pétursson sagði, hér var um að ræða fólskulega árás og slíkum mönnum er ekki treystandi fyrir örlögum heimsins. Það er eðlilegt að hæstv. forsrh. landsins komi í hug og að hann nefni hér úr þessum ræðustól orðið „brjálæði“ þegar slíkir atburðir gerast.

Úr því að ég nefndi hæstv. forsrh. má ég til með að víkja að einu atriði í hans ræðu, einkar „framsóknarlegu“ atriði. Það atriði var um að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði í raun og veru ekkert talað um hryðjuverkastarfsemi í sinni ræðu. Með því var verið að gefa í skyn að þó að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gagnrýndi árásina á Líbýu væri hann ekki að fara mörgum orðum um hryðjuverkastarfsemi. Þetta var þessi „millilínapólitík“ sem Framsfl. stundum rekur. Hann er sennilega farinn, hæstv. forsrh., sem á þarna stól enn þá.

Ég vil í allri vinsemd minna á mjög hörð og eindregin ummæli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar varðandi hryðjuverkastarfsemi. Hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Það eru óhæfuverk sem þjóðir heims verða að bindast samtökum um að snúast gegn með öllum ráðum.“ Í ræðu sinni gagnrýndi hann auðvitað hryðjuverk mjög harðlega. Hverjum dettur það í hug að einhver á Alþingi Íslendinga geri annað en að gagnrýna hryðjuverk mjög harðlega?

Ég vil spyrja eins og hv. 5. þm. Reykv.: Hvernig ætlar ríkisstj. að fylgja eftir ályktun sinni varðandi hryðjuverkastarfsemina? Hér segir: „Hvetur ríkisstj. þjóðir heims til samræmdra aðgerða gegn hryðjuverkum með nýju átaki.“ Ætlar ríkisstj. að láta sitja við orðin tóm eða ætlar hún að flytja tillögu á alþjóðavettvangi um átak í þessu efni?

Ég er sannfærður um að hér á Alþingi Íslendinga er ekki bara meiri hluti heldur samhljóða stuðningur við slíkt átak. Það er þess vegna óþarfi og það er ómerkilegt af sjálfum forsrh. landsins að vera með dylgjur um annað í umræðum um utanríkismál. En eins og ég sagði áðan, herra forseti, þetta var einkar „framsóknarleg“ athugasemd og ég er satt að segja farinn að þekkja þær býsna vel.

Ég ætlaði, herra forseti, að drepa hér á fleiri atriði en sumt af því hefur þegar komið glöggt fram í ræðum félaga minna hér fyrr í dag. Ég fer því ekki að tefja tímann með löngum ræðuhöldum úr þessu. Ég hef borið fram nokkrar spurningar til hæstv. utanrrh. og vænti þess að hann svari þeim og síðan eigum við hér góðar og gagnlegar umræður. Nóg er nóttin til að fara yfir þessi mál.

Það er aðeins eitt atriði varðandi fréttatilkynningu ríkisstj. sem ég ætla að rifja upp að lokum. Það er í sambandi við 2. málslið fyrri málsgr. þeirrar ályktunar. Þar segir, með leyfi forseta: „Um leið fordæmir ríkisstjórnin þráláta hryðjuverkastarfsemi, m.a. með stuðningi Líbýustjórnar, sem leitt hefur til þessarar árásar.“

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér fyrr í kvöld þetta sérstaka atriði. Ég vil ítreka spurningu hans til hæstv. utanrrh. um það hvort þessi setning þýði að ríkisstj. telji hryðjuverkastarfsemina og árásina á Líbýu vera í eðlilegu og rökréttu samhengi.

Ég vil þá spyrja hæstv. utanrrh.: Hvað þá með aðrar ríkisstjórnir sem sannanlega eru að veita hryðjuverkastarfsemi stuðning? Er meiningin að bombardera fleiri borgir? Er meiningin að halda áfram á þessari braut? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. utanrrh. svari þessari spurningu sem hér var borin fram fyrr í kvöld.

Svo að allra síðustu þetta: Ég sé í skýrslunni mér til ánægju að skipuð hefur verið nefnd til að taka á skipulagsmálum á vallarsvæðinu. Það er ekki seinna vænna. Það er ánægjulegt að utanrrn. skuli treysta sér til að fara í nefnd um skipulagsmál á svokölluðum varnarsvæðum því að sú var tíðin hér áður að utanrrn. vildi ekki fara í svoleiðis nefndir. Þegar félmrn. gerði tilraun til að skipa slíka nefnd á árinu 1982-83 vildi utanrrn. ekki fara í svoleiðis nefnd. En nú er komin svoleiðis nefnd. Batnandi manni er best að lifa. Ég tel að það sé út af fyrir sig gott að menn séu farnir að skoða þessi mál því að þau eru öll í graut, þessi vitleysa.

En nú er búið að stefna utanrrh. vegna þess að Miðneshreppur telur að það eigi að greiða gatnagerðargjöld, ef ég man rétt, eða önnur opinber gjöld af flugstöðinni þar sem að hún sé ekki á svonefndum varnarsvæðum. Miðneshreppur vill draga utanrrh. fyrir dóm í þessu máli. Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh.:

1. Er flugstöðin á varnarsvæði?

2. Hvenær varð það svæði að varnarsvæði? Hvar er sú yfirlýsing í Stjórnartíðindum að þetta svæði sé varnarsvæði?

3. Er Helguvíkurhöfnin varnarsvæði? Hvenær varð það svæði varnarsvæði? Er ætlunin að Helguvíkurhöfnin verði undir íslenskum hafnalögum eins og hæstv. núv. forsrh. lýsti yfir fyrir fáeinum árum? Eða er meiningin að lýsa Helguvíkurhöfnina varnarsvæði þegar hún verður fullbúin og framkvæmd?

Æskilegt væri að fá um þetta upplýsingar og eins hvernig hæstv. utanrrh. hyggst bregðast við þeim kröfum sem honum hafa birst frá Miðneshreppi um greiðslu almennra gjalda af flugstöðinni í Keflavík.