15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

407. mál, utanríkismál

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil taka undir ummæli síðasta hv. ræðumanns um fyrirkomulagið á umræðum hér. Það er heldur illt við það að una að standa í ræðustól um lágnættið eftir að hafa beðið um orðið fyrir hálfum sólarhring og komast þá fyrst að. Ég beini þessu ekki sérstaklega til forseta, sem hefur stjórnað þessum umræðum mjög vel, en fyrirkomulagið mætti mjög bæta hér.

Hér er til umræðu skýrsla utanrrh. um utanríkismál til Alþingis. Það er að líkum að atburðir síðustu nætur og dagsins í dag hafa sett mikil merki á þessa umræðu. Það skyldi engan undra. Ég er þess fullviss að allir alþm. taka af heilum hug undir ályktun þá sem ríkisstj. gerði vegna þessa máls á fundi sínum í morgun, árásar Bandaríkjastjórnar á Líbýu, og hefði þó mátt kveða í þeirri ályktun ríkisstj. fastara að orði svo fordæmanlegt sem það athæfi var.

En ég skal ekki fjölyrða um það. Ég vildi á hinn bóginn, þótt nokkuð sé liðið nætur, víkja að örfáum atriðum í skýrslu utanrrh., en þó ekki mörgum.

Skýrslan er óvanalega ítarleg og vönduð og ber sérstaklega fyrir það að þakka. Hún ber glöggt vitni góðs starfs starfsliðs utanrrn. og utanríkisþjónustunnar.

Ég vildi í upphafi víkja nokkrum orðum að því sem kemur fram sem stefnumótandi atriði hjá utanrrh. í upphafi skýrslunnar. Það eru atriði sem varða þátt utanrrn. og utanríkisþjónustunnar í heild í því að efla og auka utanríkisverslun og útflutning landsmanna. Að því er vikið strax í upphafi skýrslunnar að sendiráðin verði efld til að sinna í auknum mæli viðskiptahagsmunum Íslendinga erlendis. Þessari stefnumótun ber að fagna. Þetta hefur vitanlega alltaf verið gert í nokkrum mæli, en á þetta er að þessu sinni lögð sérstök áhersla og það er vissulega orðið tímabært.

Við höfum of lengi sinnt þessum málum í of litlum mæli. Það má raunar segja að við Íslendingar séum eftirbátar nágrannaþjóða okkar og raunar miklu fleiri þjóða, á tveimur sviðum sérstaklega, í atvinnulífinu, þ.e. í framleiðni íslenskra atvinnuvega og í markaðssetningu og sölumennsku. Þar stöndum við samkeppnisþjóðum okkar langt að baki. Þess vegna er mikil nauðsyn á að hér verði gerð á bragarbót. Þess vegna er það sem hér er fjallað um mjög mikilsvert og ekki síst það að virkja og nýta sendiráðin í mjög auknum mæli í þessum efnum. Þá beinist hugurinn vitanlega að því hvort ekki er orðið tímabært að fjölga sendiráðum og þá sérstaklega sendiráðum sem hafa að meginhlutverki að fjalla um viðskipta- og markaðsmál.

Ný sendiráð hafa ekki verið stofnuð á vegum Íslendinga síðan 1970. Það er þess vegna fyllilega tímabært að stofnaðar séu annaðhvort viðskiptaskrifstofur eða ný sendiráð í helstu viðskiptalöndum okkar þar sem þau eru ekki fyrir hendi. Þá beinist hugurinn fyrst og fremst að löndum Asíu og þá Austurlöndum fjær.

Ég vakti nýlega úr þessum ræðustól athygli á nauðsyn þess að kannað verði hvort ekki er ástæða til að opna sendiráð í Japan. Ég vil aðeins nefna það í þessu sambandi. Til Japans fluttum við út á síðasta ári vörur fyrir tæplega 2 milljarða kr. Japan er orðið eitt af mestu viðskiptalöndum okkar og þar eru mjög góðir markaðir, framtíðarmarkaðir fyrir íslenskar vörur. Þess vegna er full ástæða til að gefa því gaum. Þaðan mætti þjóna viðskiptahagsmunum í nálægum Asíulöndum.

Fyrr í þessum umræðum var minnst á það af hv. þm. Geir Haarde að ástæða væri til að athuga opnun viðskipta- og verslunarskrifstofu í Kína. Undir það vil ég einnig taka. Þessa möguleika þarf vissulega að kanna og það sem allra fyrst.

Það er víðar ástæða til að efla samskipti okkar við önnur ríki og þá ekki endilega eingöngu á viðskiptagrundvelli. Í þeim efnum hefur einnig á þingi nýlega verið vakin athygli á nauðsyn þess að við tækjum upp nánari viðskipti og samskipti við Grænlendinga, okkar næstu nágranna, og skipuðum þar sérstakan ræðismann eða fulltrúa sem m.a. færi með viðskipamál, en einnig önnur málefni. Ég held að það sé orðið mjög tímabært að við látum af því verða, ekki síst vegna þeirra miklu hagsmuna sem þessar tvær þjóðir eiga sameiginlega og oft hefur verið bent á innan og utan þingsala. Það er ekki síst vegna þeirra fiskveiðihagsmuna sem eru í húfi. Þessar tvær þjóðir, Íslendingar og Grænlendingar, ráða yfir miklum hluta hafsvæðanna í Norðaustur-Atlantshafi og þess vegna er tímabært að taka upp miklu nánari samvinnu við Grænlendinga í þeim efnum.

Við eigum þar ýmis óleyst vandamál. Ég minni á óleyst vandamál varðandi rækjuveiðar á Dohrnbanka beggja vegna miðlínu. Við eigum óleyst vandamál að því er varðar loðnuveiðarnar, en þar gera Grænlendingar kröfu til kvóta sem enn hefur ekki verið ákveðinn og stendur nú í stímabraki að ákveða þann kvóta fyrst og fremst vegna krafna Norðmanna í því spili. Við eigum enn þá einnig óútkljáð karfamálin við Grænlendinga, en þeir hafa veitt Efnahagsbandalaginu 55 000 tonna kvóta. Þeir hafa verið að selja Japönum karfaveiðiréttindi, en karfinn er fullnýttur og raunar ofnýttur stofn og skiptir vitanlega okkar fiskveiðar miklu máli. Ég bendi á þessi þrjú atriði, fyrir utan laxveiðarnar, sem eru óleyst í samskiptum okkar við Grænlendinga, en full ástæða er til að leysa sem fyrst og m.a. á þann hátt sem ég nefndi.

Það er raunar fyllilega tímabært að við tökum upp miklu nánari samvinnu, þrátt fyrir skipun þingmannanefndar nýlega og skipun embættismannanefndar sem á að fjalla um samskipti okkar við Grænlendinga, og ekki aðeins við þá heldur einnig við Færeyinga. Það er fyllilega tímabært að þessi þrjú eyríki stofni með sér raunveruleg samtök eða bandalag. Slíkt bandalag getur náttúrlega ekki verið á þann hátt sem við þekkjum þau annars staðar úr Evrópu vegna þess að þessi tvö lönd, Grænland og Færeyjar, eru ekki fyllilega sjálfstæð. En föst samtök gætu þetta orðið þar sem ríkisstjórnir þjóðanna hefðu samráð nokkrum sinnum á ári um þau hagsmunamál sem ég nefndi. Það samband væri í miklu fastara formi en því nefndarformi sem nú gildir og stefndi að þeim markmiðum sem ég gat um, fyrir utan að fjalla frekar um alla stjórn auðlinda á þessum víðlendu hafsvæðum og fjalla þar að auki um markaðsmál, en þar eiga þjóðirnar sameiginlegra hagsmuna að gæta. Raunar seljum við nú allan frystan fisk fyrir Færeyinga í Bandaríkjunum. Á því sviði eru því miklir kostir aukinnar samvinnu svo ég tali ekki um menningarmálin.

Hér þurfum við alveg nýjan farveg. Það er ljóst að hér verður að stokka upp spilin því að það nefndakerfi sem hefur gilt í þessum efnum dugar ekki lengur. Það er okkur í hag og það er þessum tveimur nágrannaþjóðum okkar, eyþjóðunum, í hag að við komum á miklu fastara bandalagi þessara þriggja þjóða.

Í öðru lagi, herra forseti, vildi ég víkja lítið eitt að öðru máli. Við leggjum í dag fram fjármuni til að vinna að verðugum verkefnum fjarri Íslandsströndum. Þar á ég við þróunarsamvinnu, þróunarverkefni Íslendinga í öðrum löndum sem í raun hefur verið allt of lítill gaumur gefinn í þessum umræðum í dag og í kvöld. Alþingi samþykkti þann 28. maí 1985, rétt fyrir tæpu ári, merka þáltill. Alþingi ályktaði þar um það að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjunum verði 0,7% af þjóðarframleiðslu.

Þetta er verðugt markmið og þetta er háleitt markmið en þetta er einnig markmið sem ekki er byrjað að fara eftir og efna. Það er að vísu ekki langur tími liðinn síðan þessi þáltill. var samþykkt en á þessu fjárlagaári verður veitt allt í allt 85 millj. kr. til þróunarstarfa, þróunaraðstoðar, af hálfu Íslands. Það er innan við 0,1% af þjóðarframleiðslu, þannig að langt eigum við í land til þess að standa jafnfætis öðrum þjóðum. Ég vil nefna sérstaklega að til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem er sú stofnun sem fer með þessi mál af hálfu Alþingis, eru aðeins veittar 24 millj. kr. Heildartalan var 85 millj . kr. Hitt féð fer til annarra þróunarverkefna og stærsta upphæðin fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, sem starfar í nánum tengslum við Alþjóðabankann, eða 27 millj. kr. Meira fé rennur til þeirrar alþjóðastofnunar en til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Það er ekki vansalaust hvað við höfum farið okkur hægt í þessum efnum. Menn bera við fátækt þjóðarinnar sem er náttúrulega hinn mesti misskilningur og hin mesta firra. Ísland er með ríkustu löndum veraldar. Þjóðartekjur okkar eru sennilega fimmtu eða sjöttu hæstu allra þjóða í veröldinni. Spurningin er sú hvaða forgangsröð við höfum á verkefnum og því sem við veitum fé til. Það væri okkur til minnkunar ef á þessu yrði ekki breyting þegar í stað á næsta ári og á árunum sem fylgja í kjölfarið. Hér verðum við að taka okkur á og auka verulega framlög okkar á þessu sviði, enda hefur Alþingi um það ályktað og eftir því ætti því að fara.

Í þessu sambandi má minnast á það að sú þróunaraðstoð okkar sem kannske hefur borið einna mestan ávöxt er stofnun Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfar og hefur starfað á Íslandi frá upphafi og gefið mjög góða raun. Það er mikil spurning hvort einn þáttur í okkar þróunarstarfi á næstu árum ætti ekki að vera í því formi að við stofnuðum nýjan skóla, að þessu sinni fiskveiðaskóla fyrir þróunarlöndin á sama hátt og við höfum stofnað jarðhitaskólann. Á því er mikil þörf. Slíkur skóli tíðkast hvergi, mér vitanlega, í veröldinni en í þeim skóla gætu menn frá þróunarlöndunum hlotið fræðslu bæði í fiskveiðum, meðferð veiðarfæra, nýtingu afla o.s.frv. Og það er ekki stærra fyrirtæki en það að við ættum vel að geta boðið upp á slíkan skóla. Það er mín tillaga að slíkt verði gert.

Annað atriði sem við þurfum að gefa miklu meiri gaum að er að tengja verkefni íslenskra fyrirtækja við útflutning til þróunarlandanna í sambandi við þróunaráætlanir okkar þar. Ég minni á fiskveiðaverkefnið á Grænhöfðaeyjum þar sem við lögðum til skip til þess að annast það, íslenskt skip, en á sama tíma létu Grænhöfðaeyjamenn smíða allmörg fiskiskip í öðru Evrópulandi en Íslandi. Það er ekki alveg vandalaust að tengja slíka atvinnustarfsemi við þróunaraðstoð, en það gera allar þjóðir, ekki síst Norðurlandaþjóðirnar, og við eigum að hyggja miklu betur að málum í þeim efnum. Það mun vera svo að þjóðir binda fjárframlög sín til Alþjóðaframfarastofnunarinnar ýmsum skilyrðum og þess er skemmst að minnast að á síðasta ári mun raunar framlag Íslendinga til þeirrar stofnunar hafa farið til þess að fjármagna jarðhitaverkefni í Kenýa sem Ástralíubúar unnu að og það skýtur náttúrlega nokkuð skökku við.

Það er full ástæða til þess að hyggja að því í þessu sambandi hvort ekki ætti að breyta lögunum um Útflutningslánasjóð, sem eru frá 1970, í þá veru að sá sjóður veitti íslenskum fyrirtækjum áhættulán til þess að starfa að verkefnum í þróunarlöndunum fyrir eigin reikning sem yrðu endurgreidd ef verkefnin tækjust en yrði ella veitt sem styrkur. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að hyggja að í þessum efnum.

Meginatriðið er það, og um það eru jákvæð ummæli í skýrslu utanrrh., að hér þarf að taka verulega betur á málum. Við þurfum að auka starf okkar í þessum efnum og efla frá því sem nú er. Það hefur verið stefna okkar. Okkur hefur ekki tekist nægilega vel upp með framkvæmdina þrátt fyrir góðan vilja en ég vil mega ljúka þessum orðum mínum með þeirri von og þeirri ósk að á því verði bragarbót í framtíðinni.