15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3929 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

407. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er nú töluvert liðið á nóttu og nýr dagur senn að rísa. Ég skal reyna að vera eins stuttorður og ég mögulega get og jafnframt haga máli mínu þannig að það veki ekki upp umræður til þess að lengja þann fund sem hefur staðið síðan um fjögurleytið í gær.

Ég vildi mega byrja á því að taka undir orð hv. 5. landsk. þm. og annarra sem hafa vikið að umræðunni og því að skýrslan sé seint fram komin. Mér var ljóst að ekki var um að ræða gagnrýni á mig heldur hitt að þetta er sá tími sem skýrslan hefur jafnan verið til umræðu. Ég er sammála því og er reiðubúinn að beita mér fyrir því að þessi skýrsla verði fyrr á ferðinni og því að gerð verði breyting á fyrirkomulagi umræðna og treysti ég þar mjög vel forseta og forsetum Sþ. í samráði við formenn þingflokka að koma þar á breyttu fyrirkomulagi. Ég er sannfærður um að við fengjum gagnlegri umræður miðað við þær hugmyndir sem voru settar fram af hv. 5. landsk. þm. og öðrum sem höfðu talað fyrr á fundinum.

Ég vil þessu næst leyfa mér að þakka hv. þm. ummæli þeirra um skýrsluna og einstaka þætti hennar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að ýmis þau mál sem tekið er á eigi eftir að koma til með að skila hagstæðum niðurstöðum og ég vil sérstaklega víkja að því sem lagt er til í sambandi við viðskiptamál og aðstoð af hálfu utanrrn. við útflutningsatvinnugreinarnar.

Fyrir ekki löngu síðan talaði hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson og gerði að umræðuefni nokkur atriði í sambandi við skýrsluna og þau mál önnur sem hafa verið til umræðu. Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja sérstaklega að þeim atriðum sem hann fjallaði um varðandi kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Bæði vísa ég þar til skýrslunnar, þess sem ég sagði í minni ræðu og þess sem hér hefur komið fram af hálfu þm.

Hv. þm. vék að Keflavíkurflugvelli sérstaklega og þeirri starfsemi sem þar fer fram. Hann vildi hrekja fullyrðingar sem áður höfðu verið fram bornar um það hversu mikið hefði verið framkvæmt á árinu 1983 og las upp úr skýrslunni á bls. 46 þar sem kemur fram að framkvæmdir á varnarsvæðinu jukust töluvert mikið á árinu 1983 en hv. þm. vildi ekki viðurkenna krógann og vék því þannig til að hér væri um að ræða ákvarðanatökur af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem tók við í maímánuði 1983. Hér er um að ræða misskilning af hálfu þm. því að allar þessar ákvarðanir eru teknar í tíð fyrri ríkisstjórnar á árunum fyrir 1983, framkvæmdar 1983, þannig að það sem sagt hafði verið áður er rétt í þessum efnum.

Þm. spurði hvort flugstöðin væri á varnarsvæði. Því er svarað játandi. Og síðan hvenær? Þetta er varnarsvæði síðan 1951. Hann spurði enn fremur um Helguvík þar sem hafnarbygging á sér stað. Það er hins vegar ekki á varnarsvæði.

Þm. vék síðan að því sem áður hafði verið og ég gerði grein fyrir í minni ræðu, þ.e. fréttatilkynningu ríkisstj. frá því í morgun. Það liggur í hlutarins eðli, þar sem vísað er til þess að þjóðir heims taki höndum saman, að forustan á að sjálfsögðu að vera í þessu tilfelli Sameinuðu þjóðanna. Það gerðist og á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna að samþykkt var samhljóða tillaga í þessum efnum sem er nokkur undantekning að mér skilst í þeirri stofnun.

Ég held að við getum allir verið sammála um að það er ekki sama hvaðan forusta í þessum efnum kemur. Fyrst og fremst hlýtur það að vera forusta Sameinuðu þjóðanna sem ætti að hafa hlutverki að gegna.

Hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson gerði að umræðuefni í kvöld þessi mál sérstaklega og með hvaða hætti hægt væri að bregðast við, dró þar upp mjðg glögga mynd og undirstrikaði með hvaða hætti væri hægt að standa að þessum málum. En að sjálfsögðu gerist það ekki öðruvísi en að um það geti myndast mjög breið samstaða.

Ég held að rétt sé, m. a. vegna orða hv. 3. þm. Reykv. og fsp. hans varðandi þá atburði sem gerðust s.l. nótt og Atlantshafsbandalagið og Ísland sem aðila að því, að víkja að þeim atburðum nokkrum orðum. Ljóst er að árás Bandaríkjanna á Líbýu er frá þeirra bæjardyrum séð árás gerð á grundvelli sönnunargagna sem Bandaríkin telja sig hafa um stuðning Líbýumanna við ógnaræði hryðjuverka sem geisað hafa um skeið og ekki hvað síst beinst að Bandaríkjamönnum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki haft aðstöðu til þess að dæma um þessi sönnunargögn. Hvers eðlis sem slík sönnunargögn eru legg ég áherslu á samþykkt ríkisstj. frá því í morgun þar sem lýst er skoðun hennar á þessum atburðum sem gerst hafa og lögð er áhersla á að slíkar hernaðaraðgerðir séu ekki til þess fallnar að uppræta hryðjuverk.

Það er að sjálfsögðu von mín eins og allra annarra að þessir atburðir leiði ekki til frekari stigmögnunar átaka við Miðjarðarhafið. Ég mótmæli því eindregið, sem hér hefur verið haldið fram, að átökin séu tengd Atlantshafsbandalaginu. Það er ekki. Hér er um að ræða aðgerðir Bandaríkjanna sem þeir sjálfir gera grein fyrir að styðjist við ákvæði í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfsvarnarrétt þjóða. Ein þjóð Atlantshafsbandalagsins, Bretar, hefur lýst stuðningi við þessar aðgerðir. Mér var ekki kunnugt um þær aðgerðir sem var gripið til. Það vil ég að komi skýrt fram og hafði ég áður verið spurður að því af hv. þm. Steingrími Sigfússyni fyrr í kvöld.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur Sigfússon vék að nokkrum atriðum í sinni ræðu varðandi þróunaraðstoð. Það gerði einnig hv. 2. þm. Reykn. hér rétt áður. Alþingi hefur samþykkt stefnu í þessum málum en eins og ég réttilega benti á í minni framsöguræðu þá eru það að sjálfsögðu efnahagsaðstæður á hverjum tíma sem ráða. Það er Alþingi sjálft sem hefur tekið afstöðu og ákvarðað það sem ætlað er til þessara mála á þessu ári. Ég get sagt það sem mína skoðun að hér erum við miklir eftirbátar okkar næstu nágranna og vissulega er ástæða til þess fyrir okkur að við skoðum þessi mál betur og reynum að átta okkur á því með hvaða hætti sé hægt að bæta úr.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, á varnarsvæðinu og gagnrýndi með hvaða hætti að þeim væri staðið og jafnframt að Alþingi, utanrmn., fengi ekki vitneskju um þá hluti. Einhvers staðar að hefur þó þm. þann mikla fróðleik sem hann býr yfir í sambandi við þessi mannvirki sem þar er unnið að, enda hefur Alþingi fengið og fær upplýsingar m. a. í þeirri skýrslu sem lögð er fyrir þingið um utanríkismál og þá hefur utanrmn. og verið gerð grein fyrir þeim framkvæmdum sem ráðist er í á varnarsvæðinu.

Ég held ég megi fullyrða að það hafi orðið töluverð breyting á þessu í tíð forvera míns einmitt og hann komið fram með allar þær upplýsingar sem fyrir hendi eru, ýmist í skýrslunni til Alþingis eða til utanrmn.

Hv. þm. spurði um sérstaka framkvæmd, varaflugvöll. Um það er það að segja að lýst hefur verið áhuga á varaflugvelli fyrir Atlantshafsbandalagið. Hins vegar hafa engar formlegar viðræður farið fram um það en eins og kunnugt er er skrifleg fsp. í þinginu frá hv. 6. landsk. þm. sem verður svarað og útbýtt á morgun þar sem nánar er getið um þessa hluti og ég vænti þess að hv. þm. sætti sig við þau svör sem ég hef gefið varðandi þetta efni.

Um endurvinnslustöð vegna kjarnorkuúrgangs vil ég vísa til skýrslu á þskj. 812. Þar er einmitt gerð grein fyrir hver staða þess máls er eftir fund sem alþm. tóku þátt í en þar kemur fram sú niðurstaða að kjarnorkuúrgangi skyldi ekki fleygt í sjóinn enn um sinn eða þar til frekari niðurstöður rannsóknar lægju fyrir. Á þeim fundi sem tók þessa afstöðu var m.a. hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson og var einmitt með tillögu í þessum efnum.

Hv. þm. vék að því atriði sem ég hef vakið máls á, innra öryggi. Við áttum nokkur orðaskipti um þessi mál fyrir ekki löngu síðan. Hann vísaði til 15. gr. þingskapa og þar með að þessi mál færu til umræðu í utanrmn. Það er ekki svo að það sé ekki ætlunin að gera slíkt en þar er skýrt tekið fram að um utanríkismál sé að ræða. Hvort svo innra öryggi, sem ekki aðeins heyrir undir utanrrn. heldur fleiri ráðuneyti, sé málefni af því tagi geta menn svo deilt um. En mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þegar farið verður að vinna að þessu máli á vegum ráðuneytisins fylgist utanrmn. þar með. Ég vil ekki að svo langt sé gengið að það sé ekki hægt fyrir einn ráðherra, eins og ég orðaði það, þm. eða einstakling, að mæta þar sem hann er beðinn og flytja sitt mál, koma fram með sínar hugmyndir. Það held ég að menn mundu ekki sætta sig við, enda þótt starfsemi Alþingis og ríkisstj. sé eftir þeim þingsköpum sem gilda hverju sinni. En mér er fullljóst að þingsköp eru lög og eftir þeim ber að fara.

Hv. þm. Stefán Benediktsson kom fram með fsp. varðandi mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins. Þær reglur gilda að þar sé um að ræða útboð á verkum sem sjóðurinn fjármagnar, útboð á meðal aðildarríkja. Það hefur hins vegar gilt sá réttur aðildarríkis að það geti farið fram á undanþágu frá almennu reglunni um vissa byggingarþætti. Reynslan er sú að sé farið fram á undanþágu á útboðum, á tilgreindum þáttum, hefur undanþágan verið veitt. Hugsanleg aðild Íslands að mannvirkjasjóðnum mundi því ekki breyta núverandi ástandi en úttektin sem ráðuneytið lætur gera kemur að sjálfsögðu til með að draga betur fram kosti og lesti. Eftir að það hefur verið gert er ástæða til að taka ákvörðun um hvort að því skuli staðið að Ísland gerist aðili að mannvirkjasjóðnum.

Fyrr í kvöld beindi hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir nokkrum spurningum til mín. Enda þótt hún sé ekki viðstödd þykir mér rétt að víkja að þeim nokkrum orðum. Í fyrsta lagi spurði þm.: Hvernig ætlar utanrrh. að tryggja það að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til eða staðsett í íslenskri lögsögu eins og tekið er fram í ályktuninni? Það er öllum ljóst að stefna íslenskra stjórnvalda er sem fyrr sú að ekki séu staðsett kjarnavopn hér á landi eða í íslenskri landhelgi án samþykkis ríkisstj. Þessi stefna er í fullu samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, svo og skuldbindingar okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Vegna umræðu um komu loftfara og skipa til landsins sem geta borið kjarnavopn skal skýrt tekið fram að gengið er út frá því að slík vopn séu ekki til staðar þar sem fullt traust er borið til þess að yfirlýst stefna okkar í þessu máli sé virt.

Spurt var um ástæður fyrir því að íslensk stjórnvöld töldu sig ekki geta samþykkt tillögu Mexíkó og Svíþjóðar. Ég held að ég vísi þar til ræðu minnar frá 11. febr. og svo til ræðu fyrrv. utanrrh., Geirs Hallgrímssonar, 5. des., þar sem hann vék einmitt að því að skilyrði sem ályktun Alþingis gerir ráð fyrir væru ekki fyrir hendi til þess að hægt væri að greiða atkvæði með þeirri tillögu.

Það hefur verið gerð ítrekuð tilraun til þess að koma fram breytingu á þessari tillögu. Það hefur ekki tekist að ná fram þeim breytingum sem gætu orðið til þess að Ísland greiddi atkvæði með tillögunni. Ég gat þess í minni ræðu í dag að það yrði áfram reynt að vinna að því og þannig fá fram að Ísland gæti greitt atkvæði með tillögunni. Hins vegar vek ég athygli á því að enda þótt þessi tillaga hafi verið samþykkt sjá menn ekki árangur af henni, einfaldlega vegna þess að hún nýtur ekki stuðnings þeirra aðila sem til þarf til þess að hún beri árangur.

Þm. vék að því að umfjöllun um innra öryggi yrði í nánu samstarfi við utanrmn. Því hef ég svarað hér.

Þá var vikið að því að umfjöllun um kjarnorkuvopnalaust svæði eigi að eiga sér stað innan Atlantshafsbandalagsins og rætt um það að hér væri fyrst og fremst um norrænt málefni að ræða. Ég vék að því í minni ræðu að það væri grundvallaratriði í okkar öryggismálum að þau væru rædd innan Atlantshafsbandalagsins. Það væri öryggismál fyrir okkur og þá væri það eins í þessum efnum eins og öðrum.

Þm. spurði um afstöðu íslenskra stjórnvalda til fjárhagsvanda Sameinuðu þjóðanna. Þetta mál var til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna fyrir tæpri viku síðan og þar var niðurstaðan að láta frá sér heyra til þeirra aðila sem ekki standa sig í þessum efnum og að sjálfsögðu gera það sem hægt er til þess að koma fram breytingum í þessum efnum.

Ég trúi því að ég hafi svarað þeim atriðum sem ég var sérstaklega spurður um og ekki komu fram í minni framsöguræðu. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau sjónarmið sem þar komu fram varðandi afvopnunarmálin, varðandi frystingu kjarnorkuvopna eða geimvarnir. Ég held að ég vilji undirstrika í sambandi við friðarárið að gerðar eru ráðstafanir til þess að hægt verði að standa að því eins og við teljum að eigi að gera. Það er rétt að það komi fram af þessu tilefni að Félag Sameinuðu þjóðanna hefur síðan því var falið umrætt verkefni undirbúið öfluga starfsáætlun sem er um það bil að koma til framkvæmda. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa upp þau atriði sem ég hef en að sjálfsögðu verður lögð áhersla á það af hálfu utanrrn. að að þessum málum verði staðið með þeim hætti sem ég veit að Alþingi og ríkisstj. óska.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég endurtek þakkir til hv. þm. fyrir umræðurnar. Ég þakka forseta fyrir hans stjórnun og ég veit að þó að nokkuð sé liðið á nýjan dag hafa þessar umræður orðið til gagns. Ég veit hins vegar að takist okkur að koma þeim hugmyndum sem hér komu fram í það horf sem á var bent væri það sýnu betra og engum, eins og ég sagði, treysti ég betur til þess heldur en forseta Sþ. í samstarfi við formenn þingflokka.