16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

364. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég get endurtekið það sem ég sagði hér við fyrri umræðu þessa máls og lagt á það aftur og enn ríkari áherslu að hér er um að ræða afar mikilvægt mál fyrir landbúnaðinn.

Skuldbreytingar hafa átt sér stað með nokkurra ára millibili allt frá árinu 1962 og hafa raunar á þessu tímabili skilað miklum árangri. Það er hins vegar augljóst mál að eftir að verðtrygging hefur verið tekin upp á þau lán, eins og önnur sem landbúnaðurinn hefur aðgang að, hefur þessi skuldbreyting ekki skilað tilætluðum árangri og skapast hafa erfiðleikar í sambandi við skil á þessum lánum. Þess vegna ber að fagna því að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að gera þessi viðskipti landbúnaðarins við Stofnlánadeildina stórum hagkvæmari en verið hefur.

Eins og fram kemur í nál. er hér um það að ræða að færa skuldbindingar veðdeildarinnar yfir til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það er gert með þeim hætti að Stofnlánadeildin eignast þau bréf sem deildin hefur gefið út til bænda og tekur á móti skuldbindingum að sama marki. Ég lagði á það áherslu við fyrri umræðu að þessar tvær stærðir yrðu að vera jafnar, þ.e. að skuldbindingar Stofnlánadeildarinnar eftir þessa breytingu yrðu jafnar þeim bréfum sem deildin eignast. Til að tryggja að svo yrði frá málum gengið hefur nefndin lagt fram brtt. sem tekur af öll tvímæli í þessum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira. Meginrökin koma fram í nál. og þar eru tilgreindar þær stærðir sem hér liggja til grundvallar. Ætti það að vera fullnægjandi til frekari skýringar við það sem ég hef hér sagt. Eins og fram kemur í nál. undirrita allir nefndarmenn nál. að undanskildum einum sem var fjarstaddur við afgreiðslu málsins, þ.e. Kolbrún Jónsdóttir. Að öðru leyti mælir nefndin með samþykkt þessa frv.