16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

401. mál, söluskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er rétt og eðlilegt að þetta frv. nái fram að ganga og um það voru ekki skiptar skoðanir í nefndinni. Ég vildi hins vegar við þetta tækifæri láta koma fram og minna á að við Alþýðuflokksmenn höfum margsinnis bent á hversu gallað og gloppótt þetta söluskattskerfi er og kannske ekki síst vegna þess hversu margar ólíkar og fjölbreyttar undanþágur eru í gildi. Raunar var þetta staðfest síðast í gær þegar hæstv. fjmrh. svaraði fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í Sþ. um skattsvik og starfshóp sem unnið hefur að athugun á þeim. Kom fram í svari hans ágiskun um hve mikið mundi undandregið af söluskatti sem ætti ríkinu að skilast. Sjálfsagt hefur það verið mjög varlega áætlað. Ég vildi aðeins við þessa umræðu láta koma fram að enda þótt við fylgjum þessari breytingu nú erum við ekki að leggja neina blessun yfir það kerfi sem er við lýði. Það er götótt, gloppótt og gallað á margan veg og því þarf að breyta.