16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3940 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga og er með því að reyna að freista þess á síðustu stigum við afgreiðslu málsins í þessari virðulegu deild að fá fram lífsnauðsynlega breytingu á frv. Till. skýrir sig sjálf, en hún kveður á um að IX. kafli frv. falli brott og eldri lög um það efni, sem þar er um fjallað, gildi þar til búið væri að endurskoða efni IX. kaflans og komast að niðurstöðu við þá endurskoðun.

Við fyrri umræðu gat ég þess allrækilega hver væri meginágreiningur við þessa lagasetningu og ætla ekki að fara yfir það svið aftur. En í fáum orðum sagt er hann sá að smæstu og veikustu sveitarfélögin eru skilin eftir og hlutur þeirra og aðstaða eru stórlega skert frá því sem áður hefur verið með því að svipta þau því lögbundna samstarfi sem þau hafa átt í gegnum sýslunefndirnar.

Það hefur bæði komið fram í tillöguflutningi hér í deildinni við afgreiðslu málsins og eins í máli manna að menn greinir á um stærð sveitarfélaganna, þ.e. lágmarksstærð þeirra, og mér er ljóst að það sjónarmið að stækka sveitarfélögin jafnvel upp í 400 til 500 íbúa á ákveðinn hljómgrunn meðal alþm. Frá því hefur hins vegar verið horfið í frv. og því fagna ég. En þá stendur út af einmitt það, sem skiptir meginmáli við þennan frumvarpsflutning, að sjá fyrir því að með lögbundnu samstarfi geti litlu sveitarfélögin tekist á við verkefni sem þeim eru oft og tíðum ofvaxin hverju um sig en hafa gott vald á með því að starfa saman með formlegum og lögbundnum hætti. Þetta er grundvallaratriði í málinu og á þessu skerst málið. IX. kaflinn, eins og hann er, og 6. gr. eru ófær um að tryggja litlu sveitarfélögunum þau nauðsynlegu réttindi sem þau hafa haft með samstarfi á sýslugrundvelli og eru nú í rauninni svipt. Þess vegna hef ég flutt till. sem mundi einungis hafa þau áhrif að þessi skipan yrði óbreytt um sinn, jafnframt því sem kveðið væri á um, eins og fram kemur í 3. lið till., að slík endurskoðun færi fram og þá væri hægt með eðlilegum hætti að ráða þessu máli til lykta.

Ég vil svo, virðulegur forseti, að endingu vekja athygli hv. þm. á því að þó að menn greini á um stærð sveitarfélaga hljóta menn hins vegar, þegar fengist hefur niðurstaða hvað snertir þá stærð, að geta sameinast um þessa tillögu vegna þess að hún, ef samþykkt yrði, mundi ráða bót á miklum vanda og raunar afstýra miklum háska gagnvart hinum smærri byggðum og dreifbýlinu í landinu. Það hlýtur að vera næstbesti kosturinn fyrir þá sem vilja leysa þennan vanda með stórum sveitarfélögum eftir að tillögur þar um hafa fallið. Þess vegna ætti að geta verið gott samkomulag um þessa tillögu hér í deildinni ef skynsemin fær að ráða.