16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3942 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál núna og skal ekki gera það. Aðallega ætlaði ég að vekja athygli á því hvernig þetta frv. fer í gegnum þingið, ef það fer þá í gegn eftir síðustu tíðindi því að hlutirnir gerast býsna hratt nú. Nú hefur einn stjórnarliða, sem hefur reyndar ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um þetta frv. af eðlilegum ástæðum, lagt fram ég vil segja úrslitatilraun sína til að hindra að málið nái fram að ganga. Ekki lái ég honum það miðað við í hvers konar skötulíki m.a. IX. kafli frv. er vissulega. En ég hygg samt sem áður að í þessu tilfelli verðum við að láta þá stjórnarliða um það að kljást um þessar breytingar á síðustu og verstu tímum í sambandi við þessi sveitarstjórnarlög og því hygg ég að ég blandi mér ekki í þessi innbyrðis átök þeirra sem reyndar komu miklu skýrar og betur fram og af miklu meiri hörku í Nd. en hér í Ed. Ég er ekki tilbúinn til þess þó maður vildi gjarnan fá nokkurt ráðrúm til að skoða þessar till. því maður er varla búinn að lesa þær yfir þegar þær eru komnar hér til umræðu þó að það sé auðvitað býsna skýrt hvað við er átt.

Það má búast við því þrátt fyrir þetta að málið muni drattast í gegnum þingið á fjórum fótum eða varla það og þessar síðustu brtt. sýna best að meira að segja sú tilraun hæstv. félmrh. að lengja örlítið lífdaga sýslunefnda til að koma til móts við þá sjálfstæðismenn hefur ekki dugað þeim, a.m.k. ekki öllum, og þeir vilja fá eitthvað meira fyrir snúð sinn en þeir hafa hingað til fengið.

Ég held að það sé rétt að vekja athygli á því að ef mál skipast svo sem þau gerðu við 2. umr. treysta ellefu þm. í þessari hv. deild sér til að styðja þetta frv. og þó með hangandi hendi þannig að forseti náði varla fram atkvæðagreiðslum hér. Það voru tíu með sumum greinum og alllengi stóð það í því. En við skulum hafa þá ellefu engu að síður sem munu með semingi greiða þessu atkvæði. Í Nd. voru það átján við lokaafgreiðslu málsins sem greiddu frv. atkvæði. Það þýðir, þó frv. eigi eftir að fara aftur niður í Nd., að ef við hefðum afgreitt þetta núna með þessum hætti og ef stjórnarliðið fellir brtt. þær sem bornar eru fram af hv. 11 landsk. þm. hefðu 29 þm. gengið frá þessum stóra lagabálki, stóra lagabálki óneitanlega þó að með mörgum breytingum sé til bóta eins og ég hef tekið fram áður. Þetta er makalaus afgreiðsla á stórmáli ef hlutirnir réttast þá ekki eitthvað af í Nd. þegar þeir koma þangað aftur. Mér segir svo hugur um að hæstv. félmrh. hafi eiginlega tryggt að þegar þetta mál fer aftur niður í ljónagryfjuna í neðra sé miklu meiri ástæða til að halda að frv. hreinlega dagi þar uppi.

Hins vegar veit ég að ýmsir bíða afgreiðslu vegna komandi kosninga á þessu máli. Þetta snýr að mörgu þar. M.a., svo að maður minni á eitt atriði, breytist fjöldi meðmælenda á framboðslistum nokkuð með þessum nýju lögum, verði frv. að lögum, eftir stærð sveitarfélaganna.

En um eitt tiltekið atriði vildi ég spyrja hæstv. félmrh. og það varðar utankjörfundarkosningu og hversu háttað verði framgangi hennar í vor. Það er vitað mál að vísu að með styttingu þess frests sem nú verður staðreynd varðandi framboðslista, þ.e. frest til að skila framboðslistum þrem vikum og þrem dögum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna og fjögurra daga eins og áður var, verður vitanlega styttri tími til utankjörfundarkosninga, en ég legg áherslu á að hann þyrfti að vera sem allra lengstur innan þessara marka.

Í 64. gr. laga um kosningar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir skv. 2. málsgr. 42. gr. og eigi seinna en tveim vikum fyrir kjördag. Eftir þann tíma og til kjördags eiga kjósendur rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar“ o.s.frv.

Hér er að vísu heimild til að fara allt niður í tvær vikur fyrir kjördag. Ég tel að það væri mikill munur, sérstaklega með tilliti til þeirrar óvissu sem þessi mál hafa verið lengi í, mjög æskilegt a.m.k., að hæstv. ráðh. beitti sér fyrir því að þessi tími yrði lengdur svo sem kostur er. Þetta er alveg sér í lagi mikil nauðsyn vegna fólks erlendis sem oft þarf verulega fyrir þessu að hafa, þarf tíma og tök til að neyta þess réttar sem við öll viljum að allt fólk njóti sem jafnast og best hvar sem það kann að vera ef nokkur tök eru á því fyrir það að neyta þessa sjálfsagða réttar.

Ég hef heyrt utan að mér að það eigi að fara yfir í þetta þrengsta ákvæði, þ.e. tvær vikur aðeins fyrir kjördaginn. Mér þykir það býsna skammur tími þó ég geri mér grein fyrir því að það þarf að hafa hröð handtök eftir að framboðslistar eru komnir fram til að koma tilheyrandi gögnum á þá ýmsu staði sem þau þurfa að berast varðandi upplýsingar um t.d. listabókstafi og annað því um líkt til að fólk geti á skýran og eðlilegan hátt neytt síns atkvæðis. Ég vil samt ekki trúa því að það eigi í raun og veru að vera svona skammur tími sem þetta fólk hefur til að neyta þessa réttar. Mér þætti eðlilegra að það væri ekki minna en 17-18 dagar. Það finnst mér eiginlega lágmark í sambandi við þetta þó að samgöngur séu góðar, með tilliti til þess þó að oft þarf þetta að fara krókaleiðir til þess að komast aftur til Íslands þegar búið er að greiða atkvæði.

Ég spyr því hæstv. ráðh. hver ætlunin sé varðandi utankjörstaðakjörið og hvernig að því muni staðið einmitt í ljósi þess styttri tíma sem líður frá framboðum endanlega og til kjördags og þeirra ákvæða sem hann hefur í lögum til kosninga til Alþingis sem ég vitnaði til áðan. Ég treysti a.m.k. á það, og læt það verða mín síðustu orð hér núna, að sá tími verði sem rýmstur og bestur, m.a. sér í lagi vegna námsfólks erlendis og annarra Íslendinga úti sem ber skylda til að gera sem auðveldast að nýta sér þessi grundvallarmannréttindi.