16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um selveiðar við Ísland. Ég get verið mjög stuttorður enda fór fram um þetta mál í deildinni á síðasta þingi löng og gagnleg umræða og ætti það að geta orðið til að stytta hana nú, enda er frv. þetta lítið breytt og þm. hafa haft gott tækifæri til að kynna sér það nánar milli þinga. Þær breytingar, sem gerðar eru á frv., eru fyrst og fremst eftirfarandi:

Það er kveðið á um samvinnu við landbrn. við framkvæmd laganna og er það að mínu mati nauðsynlegt mál og sjálfsagt því að þessi mál koma vissulega inn á verksvið þess ráðuneytis og eðlilegt að það fylgist með framkvæmd málanna, m.a. til þess að tryggja hagsmuni þeirra landeigenda sem hér eiga hlut að máli.

Það er gert ráð fyrir því að haft verði samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélagið og Fiskifélagið varðandi ákvarðanir er lúta að friðun eða fækkun sela, en var áður um stjórn og skipulag selveiða.

Ég vænti þess að þetta frv. fái eðlilega meðferð í nefnd og unnt verði að afgreiða það á þessu þingi. Það er mjög brýnt að koma þessu máli frá og koma á stjórnun selveiðanna. Því miður hefur að undanförnu á margan hátt verið snúið út úr máli þessu og það rangfært af ýmsum aðilum sem ég ætta ekki að rekja hér og er það miður. Öllum ætti að vera ljóst að það er nauðsynlegt að grípa til ákveðinna stjórnunaraðgerða og koma á skipulagi þessara mála. Það má endalaust um það deila með hvaða hætti það skipulag skuli vera. Hér er um mikið vandamál að ræða að því er varðar hringorminn, sem verður að taka á, en eðlilega þarf að taka fullt tillit til annarra sjónarmiða og ég fæ ekki betur séð en það sé gert í þessu frv. því að það kemur skýrt fram í því að réttindi landeigenda eru tryggð með þessu frv. og engin ástæða til að ætla að þar verði einhver óeðlilegur atgangur eins og fram hefur komið í þeirri umræðu sem að mínu mati hefur verið verulega villandi.

Ég vil að lokum leggja til að frv. þessu verði vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.