16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

368. mál, selveiðar við Ísland

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvað það tekur langan tíma að afgreiða frv. um selveiðar við Ísland og hversu oft þarf að taka það fyrir á þingi. Ég hélt að mönnum væri orðið það ljóst hversu mikill vágestur selurinn er fyrir fiskiðnaðinn á Íslandi, afkomu fiskiðnaðarins og afkomu fiskvinnslufólks jafnhliða. Ég tel mjög mikla nauðsyn á því að tekin sé afstaða til þess sem fyrst að útrýma sel svo mjög sem unnt er. Ég tel að það megi ekki bíða öllu lengur.

Það var minnst á það hér áðan að aðilar vinnumarkaðarins hefðu sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við síðustu kjarasamninga. Það gerði Verkamannasambandið og Samband fiskvinnslunnar og Sambandsfrystihúsanna. Sú yfirlýsing var afdráttarlaus þar sem bent var á að reikna mætti með að launakjör fiskvinnslufólks skertust um 25-30% einungis vegna þess hversu afköst verða miklu minni vegna hringorms sem sannað er að kominn er til í tengslum við selinn.

Það er og ljóst að á þeim svæðum, t.d. í Danmörku og annars staðar, þar sem hringormur er ekki fyrir hendi nema í afar litlum mæli og sjálfsagt í minnstum mæli við Bornholm, þar eru afköst fiskvinnslufólks margföld á við það sem er hér á landi og má rekja það helst til þess hve verkafólk þarf að beina sínum kröftum að því að tína hringorm úr fiskinum.

Það var athyglisvert sem síðasti ræðumaður sagði hér. Hann taldi að þetta frv. væri frekar friðunarfrv. heldur en annað. Ég vil láta reyna á það í nefnd hvort eitthvert sannleiksgildi er í því. Hitt er annað, að ég tel að ákvæði 4. gr. um það að landeiganda einum séu heimilar selveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra í landareign sinni, sé óþarft og í raun ætti að leyfa hverjum einasta manni, sem það vill, að drepa sel.