16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

368. mál, selveiðar við Ísland

Egill Jónsson:

Virðulegur forseti. Það er mér alveg að bagalausu þó að ég geri hlé á ræðu minni, sem verður reyndar ekkert mjög löng þótt hún verði eitthvað lengri en þrjár mínútur.

Ég endurtek það, sem fram kom í upphafi máls míns við umræðurnar um málið hér í deildinni, að ég treysti því að sjútvn. þessarar deildar fari vandlega yfir þetta mál og vinni það með eðlilegum hætti. Og þá er ég satt að segja illa svikinn ef ekki næst í málið sæmilega líðanleg samkomulagsniðurstaða. Ég ber það traust til nefndarmanna í sjútvn., og byggi þar á samstarfi mínu við þá í öðrum nefndum, að meðan annað er ekki reynt treysti ég þeim alveg til að ná fram líðanlegu nál. sem samkomulag getur orðið um. Því að það er að sjálfsögðu grundvallaratriði, ef ná á árangri í þessum efnum, að um það náist samkomulag. Og með því að þetta er skoðun mín ætla ég ekki að tala hér efnislega mikið um málið að þessu sinni.

Mér þykir hins vegar vert að minna á það hvernig þessu máli hefur vegnað hér í gegnum Alþingi og jafnframt því ætla ég líka að minna á það að ekki verður séð að mikill áhugi hafi verið fyrir að koma málinu áfram né heldur að enn sé mikill áhugi fyrir hendi til þess að málið nái fram að ganga. Nú hef ég ekki farið nákvæmlega yfir hvernig til hefur tekist á s.l. tveim árum en mig minnir að málið hafi verið lagt fram árið 1984 og þá aldrei verið afgreitt frá nefnd. Árið 1985 var málið lagt fram að því er ég hygg fyrir jólaleyfi þm. og fljótlega eftir að þing kom saman skilaði sjútvn. Ed. nál. sem síðan beið afgreiðslu í deildinni um tveggja eða þriggja mánaða skeið þar til á síðasta þingdegi að það skilaði sér hingað upp í þessa virðulegu deild. Þá flutti hæstv. sjútvrh. framsögu fyrir málinu. Ég held að gefið hafi verið fimm mínútna hlé á störfum deildarinnar til þess að fjalla um það í nefnd, fjalla um það í sjútvn. Ed. Alþingis, og að því búnu kom málið til umræðu hér í þinginu eins og menn væntanlega muna. Þessi vinnubrögð voru náttúrlega með þeim hætti að það var engin lifandi leið að líða þau. Það var engin lifandi leið að líða það að málið væri keyrt hér áfram í deildinni í rauninni eftir að þingi lauk eða átti að ljúka á sama tíma sem það hafði beðið tvo til þrjá mánuði eftir atkvæðagreiðslu í Nd.

Umr. frestað.