16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. verði hér viðstaddur.

Hæstv. félmrh. hafði orð á því hér við umræðuna að honum hefði komið á óvart sú afstaða mín að leggja hér fram brtt. við frv. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir orðum ráðherrans þar sem mér virtist sem hann léti að því liggja að brtt., sem hann flutti hér við 2. umr., hefði verið sáttargjörð í málinu sem ég hefði þá væntanlega verið þátttakandi í. Svo var ekki. Ég má til með að geta þess, vegna þess að hæstv. félmrh. taldi sig verða hissa og þá kannske einnig einhverjir aðrir hv. alþm. í þessari virðulegu deild, að ég greiddi atkvæði á móti þessu frv. til 3. umr.

Ég get enn fremur vitnað til orða minna við 2. umr. þar sem ég ræddi sérstaklega brtt. hæstv. félmrh. Ég minni á það sem ég sagði þá, t.d. það að í henni fælist engin efnisbreyting heldur einungis að hægt væri að nota lengri tíma til að fá vit í IX. kafla.

Ég vitna líka til þess sem ég sagði að í yfirlýsingu sem hans væri ekki mikið hald, einfaldlega vegna þess að það verður að sjálfsögðu sá þingmeirihluti sem verður á næsta kjörtímabili, hver svo sem hann kann að verða, sem kemur til með að fjalla um þetta mál. Sá þingmeirihluti er ekki neitt bundinn af yfirlýsingum núv. hæstv. félmrh.

Ég vildi bara að það kæmi alveg skýrt fram að ég hef ekki verið hér á nokkurn hátt í mótsögn við sjálfan mig. Það er svo heppilegt að í þingtíðindum er skráð það sem ég sagði um yfirlýsingu félmrh. og það sem ég sagði um brtt. félmrh. Þeir sem voru hér við umræðuna hljóta að muna þetta og aðrir geta þá fengið staðfestingu á þessu. Þetta þykir mér vert að komi hér fram.

Ég vil svo að endingu, virðulegi forseti, aðeins benda á það að fyrir þessu máli hefur ekki verið tafið í þessari deild. Hér hafa ekki verið haldnar ræður um það til að tefja þetta mál. Ég minni hins vegar á það sem ég sagði áðan að málið er svo veikt og svo gallað að það hefur af þeirri ástæðu ekki þann byr sem a.m.k. stjfrv. þurfa að hafa.

Ég get enn vitnað til þess sem ég sagði líka við fyrri umræðu þegar ég vitnaði í orð Pálma Jónssonar við umræðuna í Nd. þar sem hann gat þess að þá hefði að hans mati ekkí verið lokið umræðu um þetta mál í þingflokki Sjálfstfl. Þótt hún hafi síðan orðið hefur hún ekki leitt til annarrar niðurstöðu, reyndar engrar niðurstöðu, og ekkert skýrt málið frá því þegar fjallað var um það í Nd.