16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (3580)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. 3. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég kem hér af tvennu tilefni. Annars vegar fór ég fram á það í fyrri ræðu minni við þessa umræðu að haldinn yrði fundur í félmn. þessarar deildar til að fjalla um þá brtt. sem fram kom við þessa umræðu um sveitarstjórnarlagafrumvarpið frá hv. 11. landsk. þm. Nefndin hefur skoðað þessa brtt. Nefndin tók ekki afstöðu til hennar og kynnti sér aðeins efni hennar og afleiðingar fyrir frv. í heild. En menn urðu sammála um að taka ekki formlega afstöðu til hennar að svo komnu máli heldur yrði hver að gera það fyrir sig við atkvæðagreiðslu.

En það var annað atriði líka sem varð þess valdandi að ég sá ástæðu til að koma hér upp. Það voru orð hæstv. ráðherra í minn garð í þessari umræðu. Ég hirði ekki um að svara ávirðingum hans um að ég hafi ekkert vit á sveitarstjórnarmálum. Ég tel mig sjálfan hafa sæmilegt vit á þeim enda verið að vasast í þeim, kannske ekki eins lengi og hann, en menn geta líka stundum vasast of lengi í hlutunum og hætt að hafa yfirsýn.

En ég vil gera athugasemd við þá hraustlegu fullyrðingu ráðherrans að í annarri hverri grein þessa frv. væri að finna yfirfærslur á valdi og verkefnum frá ríkisvaldi til sveitarfélaga og til fólksins. Þessi orð mælti ráðherrann í tilefni af því að ég hafði bent á ákveðna Evrópusamþykkt sem undirrituð hafði verið fyrir Íslands hönd og ég taldi að þetta frv. og andi þess væri í andstöðu við þennan samning sem við Íslendingar erum búnir að undirrita á Evrópugrundvelli.

Ég vil nú leyfa mér vegna þessarar fullyrðingar ráðherrans að fara lauslega í gegnum greinar frv. og reyna að tína þær til sem sanna þessa fullyrðingu ráðherrans, því að þó að ég beiddist þess úr stól mínum áðan þegar hann var að tala að hann færði sönnur á mál sitt fékk ég ekki annað svar en þetta, að þar væri um að ræða aðra hverja grein þessa frv.

Frv. er, eins og deildarmenn vita, í allmörgum greinum. Mér telst til að samkvæmt þessari fullyrðingu ráðherrans ætti að vera hér um að ræða einar 60 greinar þar sem um er að ræða klárlega yfirfærslu af valdi frá ríkisvaldinu til fólksins í landinu, til fólksins í sveitarfélögunum, eins og hann orðaði það.

Ég fæ ekki betur séð við það að horfa á fyrstu síðu þessa frv. en að það sé leitun að grein í fyrstu fimm greinum þess sem færi sönnur á mál ráðherrans. Í fyrsta lagi er ákvæði þar sem ríkisvaldið ákveður að skipta landinu í staðbundin sveitarfélög, síðan að félmrn. fari með málefni sveitarfélaganna, þá að ráðuneytið geti breytt mörkum sveitarfélaga án lagaheimildar en sveitarfélög geti ekki breytt þessum mörkum nema með lagaheimild. Ekki get ég skilið þetta sem klára yfirfærslu á valdi frá ríki til fólksins í landinu eða til sveitarfélaganna.

Ekki má breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu ráðuneytis. Það er ríkisvaldið sem ákveður hver lágmarksíbúatala sveitarfélags eigi að vera og það er ráðuneytið sem metur það hvaða undantekningar má gera frá því ef sérstakar aðstæður hindra að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags.

Í 6. gr. er ákveðið hvaða verkefni sveitarfélögin eigi að hafa. Eins og hún er orðuð verður að viðurkenna að þar verður vart við þann anda að sveitarfélögum sé gert að fjalla um sín verkefni af þekkingu á aðstæðum ásamt frumkvæði heimamanna og að það muni leiða til betri þjónustu fyrir þá en miðstýring af hálfu ríkisvaldsins. Þetta eru setningar sem gefa manni ákveðna von um að hér sé á ferðinni tilraun til að draga úr miðstýringarvaldi.

Síðan komum við að kaflanum um sveitarstjórnir. Þar eru verkefni sveitarfélagsins skilgreind nánar og hvaða vald sveitarfélögin hafa um nýtingu tekjustofna og framkvæmd verkefna. En tilfellið er að þar er ekki um stórfelldar breytingar að ræða frá því sem menn búa við í dag. Meira að segja finnst mönnum nauðsynlegt að setja í lög jafneinföld atriði og það að sveitarstjórn geti ályktað um hvert það málefni sem hún telur að varði sveitarfélögin. En auðvitað er það yfirlýsing af hálfu ríkisvaldsins sem afmarkar og reynir a.m.k. að gefa sveitarstjórnarmönnum til kynna hvaða vald þeir hafi fengið í hendur ef þörf var á.

Við erum komin að 11. gr. í frv. og enn þá hafa þó ekki nema 2 greinar af 11 sannað þessa fullyrðingu ráðherrans. Það verður að segjast að 10. og 11. gr. frv. gefa sveitarstjórnum aldeilis ekki mikið sjálfdæmi um að ákveða um sín mál. M.a. er ákveðið hér hver fjöldi sveitarstjórnarmanna eigi að vera og sveitarstjórnum ekki gefið sjálfdæmi um það hvaða fjölda þeir telja eðlilegan eða sjálfsagðan miðað við aðstæður hverju sinni.

Um kaflann um kosningar til sveitarstjórna hef ég fjallað nokkuð ítarlega í mínu máli. Ég hef orðið var við að þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi tekið nokkuð oft til máls hefur hann ekki komið inn á þá gagnrýni mína sem ég hef haft uppi um þennan kafla. Sú gagnrýni mín beinist einkum og sér í lagi að þeirri kosningaaðferð sem kölluð er óbundin kosning og ég tel vera með öllu ólíðanlega í dag í nútímalýðræði. Það er ekki nema stigsmunur á þess konar kosningu og þeim kosningum sem við þekkjum af lestri og lýsingum frá þeirri tíð þegar kosið var með bendingum eða handauppréttingum.

Ég tel að þessi kafli sé mjög gallaður og sé einn rækilegasti vitnisburðurinn um að hér á ekki að flytja vald frá fulltrúum til fólks heldur þvert á móti á að viðhalda hinum sömu samskiptum, því sama kerfi, og við höfum búið við hingað til.

Að vísu er hópurinn stækkaður sem rétt hefur til að kjósa og bjóða sig fram. Það kemur fram í 19. gr. og það má kannske reikna þá grein sem fjöður í hatt ráðherrans, þ.e. að hún styðji þá fullyrðingu hans að önnur hver grein flytji vald frá miðstjórnarvaldi til fólks.

Ég get ekki séð að nauðsynlegar lagagreinar um hvernig atkvæðakassa skuli nota og annað slíkt færi mikið vald frá ríki til fólks. Þar með er ég kominn aftur að 40. gr. og enn þá hef ég ekki fundið nema þrjár greinar í þessu frv. sem að einhverju leyti fela það í sér að réttur fólks til valdsins sé viðurkenndur.

IV. kafli frv., 40- 45. gr., fjallar um skyldur og réttindi sveifarstjórnarmanna og einu réttindin sem fólki eru veitt í þeim kafla eru einfaldlega þau að viðurkenndur er réttur fólks til að vera viðstatt þá fundi sem sveitarstjórn ekki ákveður að séu lokaðir. Að öðru leyti fjalla greinar þessara tveggja kafla, þ.e. IV. og V. kafla, eingöngu um skyldur og réttindi sveitarstjórnarmanna gagnvart sjálfum sér og því valdi sem þeim er falið með kjörinu, en ekki á nokkurn hátt um réttindi og skyldur þeirra gagnvart því fólki sem þeir hafa fengið umboð fyrir. Ég ræddi það við fyrri umræðu að ég tel að það vanti sárlega í þetta frv. kafla um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna hvað viðvíkur upplýsingum og upplýsingastreymi frá þeim til fólksins sem þeir hafa umboð fyrir. Þar á ég við að sveitarfélögum af þeirri stærð sem algengust er í dreifbýli á Íslandi verður aldrei stjórnað með góðu móti öðruvísi en að fólkið, sem í sveitarfélaginu býr, sé að meira eða minna leyti þátttakendur í þeim ákvörðunum sem verulega skipta máli. Þetta kemur líka fram í því að góðir sveitarstjórnarmenn viðurkenna þessa staðreynd og án þess að lögin skyldi þá til þess bera þeir meiri háttar ákvarðanir undir fólkið í sínu byggðarlagi, en það hefði ekki sakað að skylda menn til að gera slíkt því að það má reikna með því, sérstaklega þegar sveitarfélög stækka, að upp komi ákveðin tregða manna til að gegna slíkum sjálfsögðum skyldum og því nauðsynlegt að slíkt komi fram í lagabálki þessum.

Síðan kemur kafli um nefndir, ráð og stjórnir. Ekki er þar um mikla valdatilfærslu að ræða. Þá kemur kaflinn um framkvæmdastjórn og starfslið sveitarfélaga. Ekki er þar um mikla valdatilfærslu að ræða. Síðan kemur kaflinn um fjármál sveitarfélaga. Þar hefði kannske t.d. verið ástæða til að skylda sveitarstjórnarmenn til að kynna niðurstöður, bæði reikninga og áætlana, fyrir sveitungum sínum, en ekki er þar heldur um neina áhrifatilfærslu, jafnvel í svo einfaldri mynd sem þeirri sem ég nefndi, að ræða. Þar með eru gengnar 96 greinar af þessu frv. og fer þá að þrengjast um að uppfylla það loforð sem ráðherrann gaf í máli sínu áðan um að önnur hver grein í þessu frv. væri framkvæmd valdatilfærslu.

IX. kaflinn hefur hlotið þá útreið, sem menn þekkja og þarf ekki um það að fjalla, að menn standa þar nánast í sömu sporum og áður að því undanskildu að sýslunefndirnar, sem voru þó lýðræðislega kjörin öfl, lýðræðislega kjörið stjórnvald, á að leggja niður. Ef maður mælir þetta á mælikvarða lýðræðislegrar þátttöku fólks í stjórnvaldi er hér um valdatilfærslu að ræða sem dregur úr þátttöku fólks.

Síðan kemur kaflinn um lögbundið samstarf sveitarfélaganna, um héraðsnefndirnar og byggðasamlögin. Þessir kaflar gera alls ekki ráð fyrir neinni þátttöku fólks í þeim ákvörðunum sem þar er um fjallað.

Þar með erum við komnir aftur að 121. gr. frv. Ég fæ ekki séð að í þessu frv. sé að finna meira en þrjár greinar sem á einhvern hátt viðurkenna rétt fólks til valds og hafna þar með algerlega þeirri fullyrðingu ráðherrans að önnur hver grein í þessu frv. fjalli um valdatilfærslu frá miðstjórnarvaldi til fólks. Ég skora á hann, ef hann vill standa við þessi orð sín, að sanna mál sitt héðan úr ræðustól.