16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Að gefnu tilefni vegna orða hv. 2. þm. Austurl. vill forseti vissulega taka undir það og hann hefur gert sér fulla grein fyrir því að stjórnarandstaðan hefur hreint ekki tafið fyrir framgangi mála. Það er ekkert upp á hana að klaga nema síður væri. Það er vissulega ástæða til að þakka hvað samvinnan hefur verið góð nú sem endranær við stjórnarandstöðuna um að koma málum áfram þegar svo skammt lifir þings og forseti hefur vakið athygli á þessu á öðrum vettvangi.

Forseti hefur reynt að höfða til tillitssemi hv. þm. um að reyna að greiða fyrir málum hér vegna þess hve skammt er eftir af þingtíma, en stundum liggur hv. þm. mikið á hjarta. Ég veit þó að þeir reyna hver og einn að stilla sínum orðum og tíma í hóf þegar þannig stendur á. Þannig stendur á með þetta mál nú að það er nauðsynlegt að koma því til Nd. á þeim fundi sem nú stendur yfir til þess að Nd. geti afgreitt það. Eftir því sem ég skil best mun málið vera að komast í eindaga í vissum atriðum ef það kemst ekki til afgreiðslu í dag, hver sem sú afgreiðsla verður.