16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Eins og þegar er fram komið styð ég þetta frv. og þar sem umræða fer nú fram um það þykir mér nauðsynlegt að gera í stuttu máli grein fyrir bæði skoðunum mínum og hugsunum í tengslum við það.

Við stöndum frammi fyrir ákveðnum staðreyndum, sem hafa reyndar þegar verið nefndar, eins og að við framleiðum áfengi og við seljum áfengi. Bjór er framleiddur hér innanlands. Það er framleitt áfengi hér innanlands og sú framleiðsla seld hér innanlands. Það áfengi sem tengist þessu frv. er reyndar framleitt utanlands, en þegar selt hér á landi.

Ég held að umræða um hvort hér sé um magnaukningu að ræða eigi sér frekar litla stoð í þessu tilviki. Ég er alveg tilbúinn að taka þátt í þeirri umræðu þegar rætt verður hér um bjór því að tvímælalaust er hægt að viðurkenna að um magnaukningu verður trúlega að ræða hvað hann snertir. Aftur á móti sýndu tölur, sem birtust í dagblöðum fyrir stuttu, að einu áhrifin, að því er virtist, í sölu hjá Áfengisverslun ríkisins af tilkomu þessarar nýju íslensku áfengistegundar voru þau að dregið hafði úr sölu á innfluttum tegundum, en sala á þessari íslensku tegund aukist að sama skapi. Í heild hafði ekki orðið nein merkjanleg söluaukning.

Það er líka í tengslum við þetta frv. kannske eðlilegt að skoða hug sinn um hvort Íslendingar eru sammála um eða ekki að hafna því algjörlega að framleiða áfengi til sölu, hvort sem er innanlands eða utan. Viljum við að þessu leyti verða kaþólskari en páfinn? Viljum við ganga hér fram fyrir skjöldu og sýna öðrum þjóðum heimsins fordæmi með slíkri ákvörðun? Það væri ákvörðun sem ég teldi að ætti fyrst og fremst að bera undir þjóðina alla, því að hún snertir jafnveigamikið og viðamikið mál og þar um ræðir, en það hefur reyndar reynst erfitt að fá stjórnvöld hér til að gera þjóðina að þátttakendum í sllkum ákvörðunum.

Auðvitað stöndum við frammi fyrir áskorunum alþjóðlegra stofnana um átak í baráttu gegn vímuefnum, hvort sem um er að ræða lögleg vímuefni eða ólögleg. En ég býst við að ef menn skoða hug sinn átti þeir sig á því að viðbrögð manna við þeirri áskorun verði trúlega fyrsta kastið a.m.k. ekki á þann veg að draga úr framleiðslu á áfengum drykkjum heldur munu stjórnvöld, þar sem þau á annað borð sinna þessu, bregðast frekar við með þeim hætti sem við þegar þekkjum, þ.e. almennri fræðslu um skaðsemi neyslunnar.

Ég á t.d. erfitt með að sjá að Írar, nágrannar okkar, hætti að framleiða þær áfengistegundir sem þeir framleiða með jafngóðum árangri og alkunna er. Ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan að við erum hér að samþykkja frv. sem trúlega er upphaf að einhverju sem við enn þá sjáum ekki almennilega fyrir hvað verður, en ég hef fulla trú á að við getum öðlast þá yfirsýn. En af því að ég nefndi Íra má benda á að þeir framleiða m.a. þær tegundir áfengis sem kallast líkjör. Ég þekki ekki neitt íslenskt heiti yfir það. Til framleiðslu þessara tegunda, sem eru mjög vinsælar og mikið keyptar víðs vegar um heim, og ég ætla ekki að fara að auglýsa tegundaheiti héðan úr ræðustól á Alþingi, er notað mjög mikið af mjólk. Eins og hér var minnst á höfum við Íslendingar hingað til stundað aðallega útflutning á því sem snertir fæði og klæði, en við getum ekki neitað því að við höfum eftir sem áður verið að flytja út vanda, okkar vanda. Sá útflutningur sem hér um ræðir er öðruvísi að því leyti að hann skapar væntanlega frekar öðrum vanda en okkur. En við gætum vel séð fram á það að sameina þessa útflutningsgrein útflutningi á vandamálum, t.d. í landbúnaði, því að ég hef það fyrir satt að Írar noti í framleiðslu þessara líkjörstegunda, sem þeir selja, álíka mikið magn mjólkur og við framleiðum á ári hverju. Við sjáum þar að tiltölulega lítill hluti af heimsmarkaði, sem ég trúi að Írar hafi, gerir ansi stórt strik í reikninginn þegar um er að ræða framleiðslu hjá jafnlitlum þjóðum og okkur og þeim.

Í síðasta lagi vildi ég segja að þessi uppákoma, sem við núna upplifum, veldur manni nokkurri furðu og ruglar mann jafnvel í ríminu, þegar við allt í einu stöndum frammi fyrir því að stjórnarandstöðuþingmenn mega hafa sig alla við að koma málum ríkisstj. í gegn þvert ofan í vilja stjórnarþingmanna. Það verður uppi sá flötur á því máli sem maður áttar sig ekki almennilega á og hefði ekki að öllu jöfnu átt von, en það er staðreynd, eins og hv. 5. landsk. þm. benti á, að þessi atvik gerast æ tíðari. Það jaðrar við að ástæða sé til að stinga upp á því að sú ríkisstj. sem nú situr skipti hreinlega um þingmenn til þess að hún hafi alltaf fullan stuðning fyrir sínum málum.