17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Jón Baldvin Hannibalsson:

Við jafnaðarmenn höfum sagt stríð á hendur því spillta verðbólguspilavíti sem stefna tveggja seinustu ríkisstjórna hefur getið af sér. Í okkar augum stendur stríðið ekki um að „verja velferðarríkið“. Nú þarf að endurreisa það á grunni trausts atvinnulífs.

Burðarásarnir í okkar stefnu eru þrír:

1) Ný hlutaskipti fyrir sjávarútveg og útflutningsframleiðslu.

2) Jöfnun eigna- og tekjuskiptingar.

3) Samræmdar aðgerðir gegn forréttindum og spillingu nýríkrar yfirstéttar.

Fyrsta mál á dagskrá er að skrá gengi íslensku krónunnar rétt og fylgja því síðan eftir með virkri jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. Þetta þýðir að færa fjármuni frá innflutningsverslun og milliliðum til sjávarútvegs og iðnaðar, að gera framleiðslugreinarnar samkeppnisfærar um laun starfsfólks, að stöðva viðskiptahalla og þar með erlenda skuldasöfnun.

Já, en nú segir einhver: Gengisfelling hækkar erlendar skuldir í íslenskum krónum. Er það ekki útilokað fyrir þjóð sem sokkin er í skuldir? Svar: Við eigum því miður ekki annarra kosta völ. Hinn kosturinn er hrun sjávarútvegsins, samdráttur þjóðarframleiðslu, meiri skuldasöfnun, atvinnuleysi.

Hvernig eigum við þá að mæta gengishækkun skuldanna? Okkar svar er: Með því að verja gengishagnaðinum til að greiða niður erlendar skuldir, einkum í sjávarútvegi, með því að hækka skatta á forréttindahópa fjármagnsins og verja þeim fjármunum einnig til niðurgreiðslu erlendra skulda.

En þá segir einhver: Hvernig á að bregðast við hækkun innflutningsverðs í kjölfar gengisfellingar? Er það ekki sama og kjaraskerðing? Svar: Beitum harkalegri verðstöðvun í sex mánuði og stöðvum þar með bruðl og offjárfestingu í versluninni. Annað: Lækkum söluskatt og þar með vöruverð. Og þriðja: Lækkum ríkisútgjöldin sem þýðir lægri skatta á almenning og skilur meira eftir í launaumslögunum. Þetta þýðir í heild: öflugri framleiðslustarfsemi, meiri verðmætasköpun, minni yfirbygging, minna bruðl.

Annar meginþátturinn í stefnu Alþýðuflokksins er samræmdar aðgerðir til að jafna eigna- og tekjuskiptingu og stuðla að þjóðarsamheldni um nýja framfarasókn. Þetta getum við gert gegnum þrjú helstu tekjujöfnunarkerfi ríkisins; skattakerfið, húsnæðislánakerfið, lífeyrisréttindakerfið.

Við ríkjandi aðstæður verður að játa að það á að verja kjör almennings með því að ríkið hætti að eyða um efni fram. Það á að halda ríkisútgjöldum innan við 25% mark þjóðarframleiðslu sem þýðir niðurskurð á fjárlögum um ca. 2 milljarða.

Hvar á að skera niður? Okkar svar er þetta: Að hluta til af þeim 2 milljörðum sem nú renna til milliliðakerfis í landbúnaðinum, að hluta til af þeim rúmlega 2 milljörðum sem verja á til offjárfestingar í orkugeiranum, að hluta til af þeim 1600 milljónum sem bruðlað er með í opinberum byggingaframkvæmdum og að hluta til með sparnaði í rekstri.

Það er mjög hættulegt rugl hjá þeim Alþýðubandalagsmönnum að þetta eigi eitthvað skylt við árás á „velferðarríki fólksins“. Þetta er fyrst og fremst nauðsynlegt að gera í þágu launþega sem halda þessu kerfi uppi með sköttum sínum.

Við jafnaðarmenn boðum róttækar umbætur á ranglátu skattakerfi, húsnæðislánakerfi og lífeyrisréttindakerfi.

Fyrst um skattakerfið: Afnemum undanþágur frá söluskatti í stórum stíl, fyrir utan þó matvæli, ríkisþjónustu, útflutning og aðföng útflutningsgreina. Innheimtum söluskatt á innflutning strax í tolli. Þetta mundi uppræta verulega söluskattsundandrátt sem nemur milljörðum, skila ríkissjóði auknum tekjum og gera kleift að lækka söluskattsprósentuna og þar með vöruverð í landinu. Annað: Tekjuskattur á laun allt að 50 þús. á mánuði verði skilyrðislaust afnuminn frá og með næsta ári. Þetta væri stærsta kjarabót launþega sem til er í dæminu og hún væri í ósvikinni mynt og án verðbólgu.

Tekjutapi ríkissjóðs verði mætt með:

1) Niðurskurði ríkisútgjalda, eins og áður er lýst.

2) Stighækkandi eignarskatti á stóreignir.

3) Afnámi skattfrelsis vaxtatekna af stóreignum í formi verðbréfa og hlutafjáreignar.

Alþýðuflokkurinn mun á næstunni flytja frumvörp til laga um bæði þessi mál.

Vegna endurtekinna rangfærslna Þorsteins Pálssonar formanns Sjálfstfl. um eignarskattstillögur okkar jafnaðarmanna skal eftirfarandi tekið fram:

1. Þær fela í sér hækkun á skattfrelsismörkum almennings til eignarskatts, bæði einstaklinga og hjóna, sem minnkar eignarskattsgreiðslur venjulegs fólks um tæplega 100 millj. kr.

2. Eignarskattsaukinn leggst skv. stighækkandi skala þyngst á skuldlausar stóreignir yfir 7 millj. kr., t.d. á þau 618 stóreignafyrirtæki sem eiga 81% af heildareign allra fyrirtækja.

3. Í heild mundi þessi skattur skila ríkissjóði hálfum milljarði í tekjuauka.

Fullyrðingar Þorsteins Pálssonar um skattþyngingu á almenning af þessum tillögum eru alger öfugmæli.

Nú reynir á stór orð framsóknarmanna og samþykktir. Munu þeir styðja þessar tillögur okkar eins og þeir hafa lýst yfir að þeir muni gera?

Herra forseti. Máske var það eftirtektarverðasta í ræðu forsrh. sú algera þögn sem þar ríkti um húsnæðismálin. Getur það verið að ráðherrar okkar viti ekki um eða skeyti ekkert um nauðungaruppboðin og neyðarástandið, seigdrepandi baráttu fjölskyldnanna, brostin fjölskyldutengsl, vonleysið og loks hina bitru uppgjöf? Ég trúi því varla. En neyðarástand kallar á neyðaraðgerðir og það strax.

Við viljum í fyrsta lagi verja auknum skatttekjum af stóreignum og vaxtagróða til að endurreisa fjárhag byggingarsjóðanna. Þannig bætum við fyrir misgjörðir stjórnvalda við húsbyggjendur og ungu kynslóðina.

Við viljum að launaskattur renni óskertur til byggingarsjóðanna, sem og hluti af bindifé innlánsstofnana hjá Seðlabanka og rekstrarafgangur bankans næstu fimm árin.

Við viljum bæta húsbyggjendum misgengi launa og lánskjara með frestun á greiðslum verðtryggingar og vaxta sem eru umfram almennar launahækkanir.

Við viljum tryggja húsnæðislánakerfinu tekjustofna sem duga til að standa undir hækkun lána í 60% byggingarkostnaðar.

Þessar ráðstafanir duga til að forða fyrirsjáanlegum samdrætti í íbúðabyggingum og atvinnuleysi í byggingariðnaði.

Meginmáli skiptir að gera nú sameiginlegt átak á vegum ríkis, sveitarfélaga, verkamannabústaðakerfis og byggingarsamvinnufélaga eins og Búseta um byggingu hóflegra íbúða í fjölbýli á viðráðanlegum kjörum fyrir ungt fólk, m.a. samkvæmt kaupleiguskilmálum.

Tillögur okkar í lífeyrisréttindamálum hinna öldruðu byggja á afnámi hundrað séreignasjóða með því að koma á einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn sem allir greiði til eftir efnum og ástæðum og allir njóti sambærilegra réttinda að lokinni starfsævi.

Þessar tillögur okkar um nýtt skattakerfi, endurreisn húsnæðislánakerfis og einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn þýða ekki vörn fyrir velferðarríkið, heldur endurreisn þess.

Þess munu fá dæmi að stjórnarandstöðuflokkur leggi fram tillögur um hvort tveggja, niðurskurð ríkisútgjalda og nýja tekjuöflun í ríkissjóð. Fátt sýnir betur sérstöðu Alþýðuflokksins í íslenskum stjórnmálum.

Herra forseti. Þriðji meginþátturinn í stefnu okkar felst í því að uppræta hefðbundin forréttindi og ríkisverndaða einokunaraðstöðu forréttindahópa og leysa framtak einstaklinga úr læðingi kerfisins. Ég nefni tíu dæmi um slík stefnumál:

Að létta af herðum skattgreiðenda og bænda fjárpynd milliliðakerfisins í landbúnaðinum.

Að afnema ríkisverndaða einokun olíufélaganna og neyða þau og tryggingafélögin til aukinnar samkeppni. Að afnema einokun Aðalverktaka á varnarliðsframkvæmdum og verja hagnaði af þeim framkvæmdum beint í ríkissjóð.

Að setja skorður við útþenslu bankakerfis og Seðlabanka og skila hagnaði hans í ríkissjóð.

Að leggja niður úreltar ríkisstofnanir þar sem hagkvæmnisrök mæla með að starfsemin sé skattgreiðendum of þung á fóðrum, óþörf eða betur komin í höndum annarra.

Að auka eftirlit með innflutningsverðmyndun og herða viðurlög á þeim sem gera sig bera að því að svindla á löndum sínum. T.d. með því að svipta þá fyrirvaralaust verslunarleyfi. Að gefa útflutningsverslun frjálsa.

Að afnema æviráðningu embættismanna og fríðindi bankastjóra og ríkisforstjóra.

Að auka sjálfstjórn héraðanna um eigin málefni. Að breyta skipulagi og starfsháttum verkalýðshreyfingarinnar í átt til aukinnar þátttöku félaganna og virkara lýðræðis.

Herra forseti. Það er sögulegt hlutverk okkar jafnaðarmanna að koma í veg fyrir að þjóðfélagið leysist upp í ósættanlegar andstæður vegna félagslegs misréttis. Það gerum við með fyrirbyggjandi aðgerðum, róttækum þjóðfélagsumbótum, eins og ég nú hef lýst, sem stefna að auknum jöfnuði í eigna- og tekjuskiptingu og jöfnum tækifærum ólíkra en frjálsra einstaklinga.

Í lokaorðum mínum síðar í þessum umræðum mun ég reyna að lýsa því hvernig breyta þarf styrkleikahlutföllum stjórnmálaflokka hér á Alþingi til þess að hrinda þessari nauðsynlegu umbótaáætlun í framkvæmd.

- Ég þakka áheyrnina.