16.04.1986
Efri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (3607)

366. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Frsm. (Jón Sveinsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Magnússon gat þess við 2. umr. um þetta frv. og nál. að ákvæðin um dráttarvextina orkuðu máske tvímælis vegna þess að fyrningarákvæði giltu ekki alfarið á sama hátt um meðlagsgreiðslur og um aðrar greiðslur. Það er út af fyrir sig rétt athugasemd sem fram kemur hjá hv. þm. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að eftir lögbindingu þessa frv. er full ástæða til að taka þessi atriði til sérstakrar skoðunar og þykir því ekki sérstök ástæða til að fjalla um það efni hér að þessu sinni. Því er ekki gerð tillaga um neina frekari breytingu og lagt til að frv. verði samþykkt óbreytt.