05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

23. mál, aukafjárveitingar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 23 kom fram ósk um skýrslu frá fjmrh. um veittar aukafjárveitingar á tímabilinu 16. júlí til 15. okt. 1985. Óskin er borin fram af hv. 10. landsk. þm. ásamt fleiri þm. Alþb. Í beiðninni segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til 30. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþm. eftir því að fjmrh. flytji Alþingi skýrslu um aukafjárveitingar frá 15. júlí s.l. sem ekki eiga rætur að rekja til breytinga á forsendum fjárlaga. Í skýrslunni verði framlögin sundurliðuð og tekið fram hverjum framlögin voru veitt og til hvaða verkefna.

Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi Sþ. fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt meðal þm."

Á þskj. 93 er birt skýrsla sem dreift var á Alþingi fyrir skömmu. Í skýrslunni er ítarleg sundurliðun á aukafjárveitingum á umræddu tímabili og þær jafnframt flokkaðar eftir ráðuneytum og eftir eðli máls. Óþarfi er að fara mörgum orðum þar um til frekari skýringa. Af þessari ástæðu mun ég aðeins draga fram meginlínur í þessari munnlegu greinargerð fyrir skýrslunni.

Veittar aukafjárveitingar á umræddu tímabili námu alls 214 millj. kr. Að því er varðar flokkun aukafjárveitinga má til sanns vegar færa að greining eftir ráðuneytum segir ekki alla sögu. Ástæðan er m.a. sú að útgjöld vegna kjarasamninga eru af tæknilegum ástæðum til að mynda öll talin til aukinna útgjalda fjmrn.

Flokkun aukafjárveitinga með hliðsjón af orsök gefur mun fyllri skýringu á afgreiðslu þeirra. Allstóran hluta veittra aukafjárveitinga má rekja til lagafyrirmæla eða um 60 millj. kr. Þar af eru t.d. 50 millj. kr. framlag til áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs vegna fæðispeninga sjómanna, sbr. lög nr. 12/1985. Aukafjárveitingar vegna ákvæða samninga, sem ríkið er bundið af, nema 18 millj. kr. Þar af má t.d. nefna tæpar 9 millj. kr. vegna bóta fyrir niðurskurð á riðuveiku fé og 5 millj. kr. vegna framkvæmda við mötuneyti að Reykholti.

Veittar aukafjárveitingar til skuldagreiðslna námu 31 millj. kr. sem má rekja að mestu til þyrlukaupa Landhelgisgæslunnar og kaupa á kirkjuhúsi við Suðurgötu. Hér er um að ræða flokk aukafjárveitinga sem mikilvægt væri að geta dregið úr á markvissan hátt. Þá námu aukafjárveitingar vegna ófyrirséðra útgjalda 51 millj. kr. Hér er um fjölmarga liði að ræða og má þar nefna 10 millj. kr. vegna rekstrarerfiðleika Bifreiðaeftirlitsins en aðrar aukafjárveitingar af þessu tagi námu alls 54 millj. kr.

Eins og ég hef þegar sagt sé ég ekki ástæðu til að fylgja þessari skýrslu úr hlaði með langri munnlegri greinargerð. Hins vegar vil ég taka fram að ég tel þarft verk að athugað verði hvernig haga beri samvinnu framkvæmdavalds og löggjafarvalds í þessum efnum. Það er mitt álit að ógerlegt sé að svipta framkvæmdavaldið allri heimild til fjármálastjórnar og afskipta innan fjárlagaársins. Þar koma til margs konar ófyrirséðar aðstæður. Í því tilliti eru almennar verðlags- og launabreytingar veigamestar. Hitt skiptir vitaskuld meginmáli að með þetta vald sé farið þannig að það raski ekki þeirri stefnumörkun sem fjárveitingavaldið, Alþingi sjálft, hefur ákveðið.

Ég hygg að í tíð flestra fjármálaráðherra hafi komið upp álitaefni að þessu leyti sem taka hefur þurft ákvarðanir um. Í sumum tilvikum er óhjákvæmilegt að taka ákvarðanir með skjótum hætti en í annan tíma gefst ráðrúm til íhugunar og frekara samráðs. Til athugunar er til að mynda hvernig og í hversu ríkum mæli á að hafa samráð við fjvn. Alþingis vegna mála af þessu tagi. Því fylgja auðvitað bæði réttindi og ábyrgð. Birting upplýsinga um aukafjárveitingar er sjálfsögð og eðlileg því að í fjárlagafrv., sem lagt var fram í byrjun þings og unnið var af fyrrv. fjmrh., er gerð grein fyrir aukafjárveitingum frá 1. jan. 1985 til 30. sept. Í þessari skýrslu er því í öllum aðalatriðum um að ræða upplýsingar sem áður voru fram komnar.