16.04.1986
Efri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

248. mál, póstlög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Hér er ekki um stórmál að ræða heldur fráhvarf frá forneskju til nútímans. Ég minni á að sú þjónusta, sem hér er rætt um, er fyrir hendi hvarvetna á Norðurlöndum og í Vestur-Þýskalandi, en hún er ekki til staðar í Austur-Þýskalandi þar sem fulltrúar forneskjunnar ráða.

Ég bendi á að margir hnýta í bankakerfið vegna mikillar yfirbyggingar, vegna bruðls sem þar er, vegna mikilla byggingarframkvæmda í eigin þágu og hvaðeina, en þrátt fyrir að þetta verði samþykkt verður ekki um neitt slíkt að ræða. Þetta er spurningin um eðlilega og almenna þjónustu við viðskiptavini. Ef þetta yrði banki með þessu er þetta alveg eins banki í dag. Við skulum minnast þess að bankaviðskipti hafa verið að þróast og þroskast á undanförnum árum til hagsbóta fyrir viðskiptavinina. Ég tel ástæðu til þess að við höldum þeirri þróun áfram fyrir einstaklingana í þjóðfélaginu, fyrir launamenn og aðra. Einkum mun þetta koma til góða fyrir launamenn. Ég tala nú ekki um úti á landi. Þar sem ekki eru bankaútibú er hægt að notfæra sér þetta því að víðast hvar eru pósthús. Þess vegna er þetta byggðamál líka, þetta litla mál.

Ég verð að játa að ég átti ekki von á því að þetta yrði tekið til umræðu núna og vissi reyndar ekki annað en að við mundum ræða saman um þetta, nefndarmenn, áður en þetta yrði tekið til 3. umr. En svona er málum komið nú.

Í framhaldi af því sem ég hef áður sagt vil ég benda á að það mætti kannske herða að einhverju öðru en svona löguðu, almennri þjónustu við launamenn, eins og viðskiptum verðbréfasala og öðru slíku sem er á fullu. Það þykir mönnum allt í lagi. Kannske er það allt í lagi ef það er innan eðlilegra og heiðarlegra marka sem maður efast stundum um.

Þegar rætt er um að undirbúa hefði mátt málið betur hygg ég að það hafi verið undirbúið mjög rækilega í ráðuneytinu eins og það var sett fram í upphaflegum tillögum ráðuneytisins. Ég tek undir það, sem hinn ágæti formaður samgn. kom að áðan, að frv. allt hlaut afskaplega litla skoðun í nefndinni.

Ég legg áherslu á að viðhorf forneskjunnar ráði ekki í þessu máli heldur viðhorf þeirra sem vilja gera viðskipti öll þægilegri og lipurri fyrir fólkið í landinu og horfa fram en ekki aftur.