16.04.1986
Neðri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3976 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

419. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. þetta. Nefndin fékk Eyjólf Jónsson, framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, til að koma á fund og gera grein fyrir efni frv., en Eyjólfur Jónsson var einn af þeim mönnum sem fyrir hönd ríkisstj. undirbjuggu þetta frv. Í hans máli kom fram að hér er ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum af hálfu Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólksins heldur fyrst og fremst öðrum aðferðum við að greiða þessar atvinnuleysistryggingabætur sem eiga að tryggja atvinnu fiskverkunarfólks, tryggja eða bæta atvinnuöryggi þess. Að þeim upplýsingum fengnum varð nefndin sammála um að leggja til að frv. þetta yrði afgreitt óbreytt eða eins og segir í nál.:

„Nefndin hefur fjallað um frv. Eyjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuleysistryggingasjóðs, kom á fund nefndarinnar. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Einstakir nefndarmenn undirrita álitið þó með fyrirvara.“

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Kjartan Jóhannsson og Guðmundur H. Garðarsson, en undir nál. skrifa Guðmundur Bjarnason, Guðrún Agnarsdóttir með fyrirvara, Guðrún Helgadóttir með fyrirvara, Ólafur G. Einarsson og Geir H. Haarde.