16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um fjáröflun til vegagerðar. Nál. er á þskj: 820.

Eins og þar kemur fram varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl., en hann skipa auk mín þeir hv. þm. Páll Pétursson, Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson, leggur til að frv. verði samþykkt eins og það er komið frá hv. Ed. Minni hl. leggur til að frv. verði fellt.

Þetta frv. var flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru um þetta efni þann 20. sept. 1985. Þau fólu í sér hækkun gjalda af bensíni og hækkun þungaskatts af bifreiðum og skyldu hinar auknu tekjur ganga til framkvæmda í vegamálum á árinu 1986.

Þetta mál hefur fengið ítarlega umfjöllun, sérstaklega í hv. Ed. Þar voru gerðar á því breytingar sem fyrst og fremst lutu að því að gera uppbyggingu laganna heilsteyptari og skýrari, voru sem sagt tæknilegs eðlis að mestum hluta. Efnisbreytingar hafa þó verið gerðar. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þær. Það var gert í framsögu fyrir málinu í þessari hv. deild. Auk þess vísa ég til ítarlegs nál. á þskj. 688 sem er nál. meiri hl. fjh.og viðskn. Ed.

Ég ítreka svo að meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar leggur til að frv. verði samþykkt.