16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3983 í B-deild Alþingistíðinda. (3661)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 79/1974, um fjáröflun til vegagerðar.

Í nál. minni hl. segir: „Nefndin hefur athugað frv. og rætt við fulltrúa fjmrn. og hagsmunasamtaka. Frv. er flutt til staðfestingar brbl. sem gefin voru út 20. sept. 1985. Nefndin hefur ekki orðið sammála um afstöðu til frv. Minni hl. er andvígur því að skattheimta á bifreiðar sé aukin á sama tíma og útgjöld til vegamála eru skorin niður. Frv. gengur einnig þvert á þá stefnu, sem nú er uppi, að færa niður verðlag í landinu og standa gegn öllum hækkunum. Minni hl. leggur því til að frv. verði fellt.“

Undir þetta skrifa Svavar Gestsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Kristófer Már Kristinsson.

Eins og fram hefur komið áður hefur þetta mál verið alllengi á döfinni hér á hv. Alþingi. Ed. hefur verið með það til meðferðar í marga mánuði. En þetta er í meginatriðum staðfesting á brbl. sem ríkisstj. setti í september 1985. Það er því ekki seinna vænna að Alþingi taki afstöðu til málsins því að sú skattlagning á umferðina, sem frv. gerir ráð fyrir, félli úr gildi ef þetta þing næði ekki að staðfesta hana, eins og ríkisstj. gerir hér tillögu um.

Við höfum hins vegar tekið undir þá afstöðu sem minni hl. hafði í Ed. í þessu máli og leggjum til að frv. verði hafnað.

Hér er um að ræða 355 millj. kr. aukaskattlagningu á umferðina frá því sem verið hefði. Þar er annars vegar um að ræða bensíngjald upp á um 230 millj. og hins vegar þungaskatt upp á um 100 millj. kr. Þungaskattshækkunin nemur um 56% á sama tíma og byggingarvísitala hafði hækkað um 24%. Hér er því um að ræða gífurlega raunhækkun á gjöldum af umferðinni í landinu.

Út af fyrir sig kynnu menn að segja sem svo: Það er eðlilegt að umferðin greiði gjöld í einhverjum verulegum mæli til vegagerðar í landinu. En því er ekki að heilsa að um aukningu sé að ræða á framlagi til vegagerðar. Það kemur glöggt fram á þskj. 512 sem er svar samgrh. við fyrirspurn hv. þm. Þórðar Skúlasonar um fjárframlög til vegagerðar. Þar kemur fram að á verðlagi ársins 1986 er staðan þannig að mismunur á vegáætlun og langtímaáætlun verður upp á 710 millj, á þessu ári, var upp á 520 millj. í fyrra og 160 millj. kr. í hitteðfyrra.

Þegar borin eru síðan saman gjöld af umferðinni, skattar á bensín og útgjöld til vegamála, kemur fram að heildarskattar á bensíni á þessu ári eru taldir vera tæpir 3 milljarðar kr. eða 2985 millj. kr. Af þessum gjöldum af bensíni renna til vegamála, framkvæmda á þessu ári, aðeins 68%. Það er lægsta hlutfall tekna af bensíni sem runnið hefur til vegamála á fjögurra ára tímabili og sjálfsagt lengra aftur ef það væri skoðað.

Árið 1982 runnu til vegamála af sköttum af bensíni 82%, 1984 var talan 83%, 1985 var hún 78%, en á þessu ári 68%. Það er því minnkandi hlutur bensíngjalda sem rennur til vegamála í landinu. Þessar tölur eru ákaflega sláandi, á sama tíma og verið er að skera niður, að verið er að hækka skatta á umferðina eins og hér er gerð tillaga um.

Í ljósi þessa og annarra raka, sem fram hafa komið í þessu máli, leggur minni hl. til að frv., eins og það birtist eftir 2. umr. í Ed. og eins og það er hér til meðferðar, verði fellt.