16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tek undir mál hv. 3. þm. Reykv. sem mælti hér fyrir minnihlutaáliti. Eins og hann hefur rakið er ljóst að síminnkandi hlutfall af sköttum á bensín rennur til vegamála og kemur fram sem framlag, en hinn hlutinn fer að meginefni inn í ríkissjóð. Sem hlutfall af þjóðarframleiðslu er um gífurlega lækkun að ræða frá því sem var fyrir 3-4 árum á framlagi til vegamála sem skv. fjárlögum 1986 er áætlað að verði aðeins 1,64I af þjóðarframleiðslu en náði 2% á árunum 1983 og 1984, svo litið sé aðeins til baka.

Það er mjög tilfinnanlegt hvernig framlag til framkvæmda í vegamálum hefur dregist saman á undanförnum árum. Kemur þetta alveg sérstaklega niður á landsbyggðinni sem býr við misjafnlega slæma vegi. Þeir fara að vísu batnandi sums staðar á aðalleiðum, en mjög víða er ástandið þannig að mönnum blöskrar sem koma af þessu svæði hér þar sem búið er að leggja bundið slitlag á alla vegi að heita má. Er gjarnan tíðkað að kalla þetta sveitavegi þegar menn koma út á mölina.

Nú er það svo að bensínverð fer nú lækkandi vegna breytinga á heimsmarkaðsverði á olíuvörum. Vissulega eru menn ánægðir með það þegar þróunin er í þá áttina þó að sú þróun hafi fleiri en eina hlið. Ég hef ekki trú á því og ég held að þeir séu ekki margir sem reikna með því að þetta lága verð á olíuvörum, sem nú ríkir, haldist til lengri tíma. Það er ekkert æskilegt í rauninni að fara að laga samgöngumynstur t.d. í landinu að slíkum sveiflum ef skammæjar reynast.

Ég vil því nefna það við þessa umræðu að ég tel að það þurfi að athuga það mjög vel á þessu ári í ljósi þeirrar þróunar sem verður á bensínverði hvar menn ætla að staldra við. Ég tel að það eigi að koma fullkomlega til greina, jafnframt því sem skilað er til vegamálanna eðlilegum hluta af skattheimtu á umferðina og miklu meira en nú er gert, að það verði athugað í fullri alvöru að staldra við eitthvert þak á bensínverði, ef það ætlar að lækka mjög stórlega frá því sem nú er, og taka þá tekjurnar af slíku til vegaframkvæmda eingöngu og óskipt og fyrst og fremst til að bæta úr ástandinu þar sem það er verst og hraklegast í landinu.

Þegar gerðir voru kjarasamningar í lok febrúarmánaðar var í forsendum þeirra gert ráð fyrir að bensínverð lækkaði um sem nemur u.þ.b. 10% a.m.k., en líka mælst til þess við stjórnvöld að sjá til þess að frekari lækkun komi fram í breytingum á verðlagi. Skil ég afar vel slíkar óskir út af fyrir sig. Það stefnir hins vegar í það að bensínverð fari enn frekar lækkandi miðað við það heimsmarkaðsverð sem nú er í gildi, niður í 28 kr. frá næstu mánaðamótum hefur verið boðað, í framhaldi af því jafnvel niður í 24 kr. á miðju ári miðað við þau innkaup sem nú er hægt að gera á olíuvörum.

Ég tel að menn þurfi að bera sig saman um þessi efni af raunsæi og átta sig á því hvort ekki sé skynsamlegt að staldra við við eitthvert skynsamlegt lágmark og taka mismuninn af því og innkaupsverði til vegaframkvæmda því að nauðsynin er brýn og það eru fáar framkvæmdir í landinu sem eru jafnarðbærar og endurbætur á samgöngukerfinu. Þar eru vegamálin ofarlega þó að fleira komi til, flugið og sjósamgöngur að hafnarframkvæmdum meðtöldum, en ég er hér að tala um vegamálin því að þau tengjast bensínverðinu eðlilega eða umferð bensínknúinna bíla.

Ég vildi nefna þetta við þessa umræðu. Það er aldrei vinsælt að tala fyrir því að ganga ekki eins langt í lækkunarátt og kostur er. En ég held að málið sé þannig vaxið að það sé í rauninni ekki skynsamlegt að fara að taka inn einhvern öldudal, kannske mjög tímabundinn, í bensínverði og fara að laga umferðarmynstur og umferðarvenjur manna eftir slíku sem síðan getur breyst fyrr en varir.