16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

399. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í þessu frv., sem hér er flutt, er að finna drög að tvennum breytingum á núgildandi lögum um almannatryggingar. Annað varðar mæðralaun. Breytingin felst í því að aldursmark barna vegna töku mæðralauna hækkar úr 16 árum í 17 ár frá 1. júní n.k. og í 18 ár frá 1. jan. n.k.

Fyrir allmörgum árum, þegar aldursmarki vegna töku barnalífeyris skv. almannatryggingalögum var breytt og hann hækkaður úr 16 árum í 17 ár, var ég meðal þeirra þm. sem hafði mikinn hug á og reyndi að vinna að því að aldursmarki vegna mæðralauna væri breytt samtímis. Það tókst ekki þá að sinni. Síðan hefur aldursmark vegna barnalífeyris hækkað upp í 18 ár. Sama ástæða er nú og áður til að láta mæðralaunaréttinn fylgja þeim aldri sem barnalífeyririnn er miðaður við. Því er þetta frv. flutt.

Nú er það svo að mæðralaun hafa verið hækkuð mjög mikið í tíð þessarar ríkisstj. Sérstaklega hefur það gilt um mæðralaun með einu barni og tveimur og raunar um öll mæðralaunin. Hér er um að ræða mjög mikilvægar greiðslur til einstæðra foreldra, eitt af því sem hefur veruleg áhrif á afkomu foreldrisins og barna þess. Það atriði að láta mæðralaunaréttinn ná til 18 ára aldurs barnsins felur m.a. í sér aukið jafnrétti milli þeirra barna sem eiga einstætt foreldri og hinna sem eru samvistum með báðum foreldrum sínum.

Ég hygg að óþarft sé að fara mörgum orðum um þetta réttlætismál. Það kostar nokkurt fé að sjálfsögðu. Það er gert ráð fyrir að á þessu ári muni þessi breyting kosta almannatryggingar 9 millj., en á móti kemur sú réttarbót að hér hækka tekjur margra þeirra sem búa við mjög lágar tekjur nú. Þetta á því að vera liður í því, sem þegar hefur verið um samið í kjarasamningum, að létta lífsbaráttuna fyrir mörgum sem þar áttu hlut að máli. Það liggur fyrir frv. í þessari hv. deild frá hv. 10. landsk. þm. um sama efni og þetta að öðru leyti en því að gildistaka þess frv. var ætluð nú þegar og þá færi aldur barnanna, sem mæðralaunaréttur miðast við, upp í 18 ár, en í þessu frv. er þeirri hugmynd skipt í áfanga. Það þýðir að sjálfsögðu að í grundvallaratriðum erum við sammála um þetta efnisatriði. En við verðum auðvitað að horfast í augu við að hér er um mikið kostnaðarmál að ræða og það getur þurft að koma til þess síðar á árinu að hækka bætur almannatrygginga, m.a. mæðralauna. Þess vegna er það að þessari réttarbót er skipt í tvo áfanga.

Hitt efnisatriðið í frv., sem hér er verið að ræða um, er mjög mikil réttarbót líka, en það heimilar, ef að lögum verður, að hjúkrun í heimahúsum verði greidd af sjúkratryggingum. Þetta mundi fyrst og fremst koma sér vel fyrir aldrað fólk sem býr í heimahúsum, létta á þörf fyrir stofnanavist, gera fólki kleift að búa meðal sinna nánustu lengur, en fá allt að einu faglega hjálp eins og gert er ráð fyrir með því að auka heimahjúkrunina í landinu.

Ég geri mér líka vonir um að með þessari breytingu fáist til starfa við hjúkrun fleiri hjúkrunarfræðingar en þeir sem fengist hafa til þess að ráða sig í föst störf við stofnanir. Þessu atriði verður að sjálfsögðu að hrinda í framkvæmd hverju sinni í heimabyggðum, enda skiptir það mjög miklu máli og hefur oft komið fram á Alþingi að stuðla beri að því að unnt sé að veita slíka þjónustu í heimabyggðum manna. Þess vegna er gert ráð fyrir að til þess að þessu verði komið á geri Tryggingastofnun ríkisins samninga fyrir hönd sjúkrasamlaganna heima fyrir og síðan verði framkvæmdin skv. þeim samningum og reglum sem tryggingaráð setur. Þar á meðal rís sú spurning hvort til komi þátttaka samlagsmanns í greiðslu fyrir hjúkrunina, en ég hygg að þarna verði að vera jafnrétti milli þeirra sem fá hjúkrun frá heilsugæslustöðvum og þeirra sem fá heimahjúkrun samkvæmt þessu kerfi.

Ég hygg, herra forseti, að það sé ekki ástæða til að útlista það mál nánar. Þetta er alveg nýtt í okkar tryggingakerfi og auðvitað segir það sig sjálft að um sum atriði mun reynslan leiða sitthvað í ljós, en ég hygg að nauðsynlegt sé að koma þessu á hið allra fyrsta þannig að unnt verði að létta á þeirri miklu þörf sem fólk með langvinna sjúkdóma, og þá sérstaklega í þeim hópi aldraðir, hefur fyrir þjónustu af þessu tagi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði eins og það kom frá hv. Ed. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.