16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

399. mál, almannatryggingar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég sé fram á að Alþingi á úr vöndu að ráða. Annars vegar blasir við að þingmannsheiðri hv. 10. landsk. þm. er svo stórlega misboðið að til hreinna vandræða horfir og hins vegar að gott mál er lagt fram í deildinni sem gæti goldið þess að til að bjarga þingmannsheiðrinum yrði að drepa það. Ég sé ekki fram á annað en þm. verði að hugsa vel sinn gang.

En ég vil undirstrika að þegar sagt er að mál séu látin liggja í nefndum án þess að þau séu skoðuð, út á það að þau séu mál stjórnarandstöðunnar, þá tel ég að ég geti með nokkuð góðri samvisku sýnt fram á að þar sem ég kem nálægt slíkum vinnubrögðum er því ekki að heilsa og tel að það sé fráleitt hjá hv. 10. landsk. þm. að kveða svo fast að orði sem gert var áðan. Auðvitað greinir menn á um mál og mörg mál fá ekki afgreiðslu, en ég biðst undan því að því sé haldið hér fram að það fari ekki eftir efnisinnihaldi heldur eftir því hverjir flytja. Ég tel að það sé alveg ljóst að það fer eftir efnisinnihaldi, en það eru náttúrlega örlög sem menn verða að sitja uppi með að það eru meiri líkur á að ráðherrar komi málum sínum fram en óbreyttir þm. Ég verð að vona að hv. 10. landsk. þm. herði nú sókn sína á framabrautinni og geri sér grein fyrir þessari staðreynd og láti það ekki bregðast, ef Alþb. fer í ríkisstjórn, að hún vermi einn af ráðherrastólunum.