05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

23. mál, aukafjárveitingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki halda eins langa ræðu og hæstv. iðnrh.

Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hæstv. iðnrh. og fyrrv. hæstv. fjmrh. og fyrst af öllu það að ég held að hann misskilji alvarlega vald fjmrh. Hann sagði að vitaskuld mótuðust fjárveitingar, og ekki síst aukafjárveitingar, af þeim einstaklingi sem embættinu gegndi. Þetta er einmitt mergurinn málsins. Til þess að það gerist ekki er Alþingi og fjvn. falið að taka ákvarðanir um fjárveitingar, allar fjárveitingar. Það mætti verða ærið skrýtið á endanum hvernig farið væri með opinbert fé ef það væri háð duttlungum þess fjmrh. sem embætti gegnir hverju sinni. Það er til þess að koma í veg fyrir slíkar geðþóttaákvarðanir sem Alþingi ber að fjalla um fjárveitingar.

Í 15. gr. þingskapa, sem eru lög nr. 52 frá 1985, stendur svo, með leyfi forseta:

„Fjárveitinganefnd fjallar um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga o.s.frv.“

Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir hv. þm. að fjáraukalög eru venjulega lögð fram löngu eftir að greiðslur hafa átt sér stað. Úr því held ég að þyrfti að bæta. Ég held að sú ætti kannske að vera niðurstaðan sem við kæmust að hér í dag eftir þessa umræðu að úr því yrði bætt og frumvarp til fjáraukalaga yrði lagt fram miklu fyrr en verið hefur.

Það voru ótal atriði sem hæstv. iðnrh. gerði að umræðuefni og er kannske ekki tími til að ræða það ítarlega hér. Hann benti á að honum bæri þökk fyrir og hans starfsfólki að hafa lagt fram þá skýrslu sem hér hefur verið til umræðu. Við erum háttvíst fólk hér á hinu háa Alþingi og þökkum að sjálfsögðu fyrir það sem við fáum ef við um það biðjum. En ég vil benda hæstv. iðnrh. á að 30. gr. þingskapalaga gerir ráð fyrir að níu þm. geti óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Honum ber þá að leggja þá skýrslu fram og forseta að taka hana á dagskrá sé um það beðið. (Iðnrh.: Skýrslan var komin fram þegar þessi beiðni kom fram.) Hér er um opinbert málefni að ræða. Það er nefnilega verið að fjalla hér um opinbert fé, fé skattborgaranna í landinu, en ekki, eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði, flokkssjóð Sjálfstfl. Á tímabili talaði hæstv. ráðherra eins og þar væri verið að fara með fé Sjálfstfl.

Ég get alveg lofað hæstv. iðnrh. að komi það til að ég eigi sjálf eftir að verða fjmrh. og jafnframt þm. Alþb. mun ég ekki ráðast að íslensku kirkjunni. Því má hann alveg treysta. Ég mun nefnilega fara nokkuð að vilja þjóðarinnar í þeim efnum. Ég hygg að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vilji hafa þjóðkirkju og þess vegna beri að standa vörð um hana. En það er einmitt í þessa veru sem hæstv. ráðherra talaði, að vald fjmrh. hlyti að mótast af áhugamálum hans sjálfs. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Ég ætla að vona að við eignumst ekki fjmrh. sem hefur lagt mikið í að sauma í stramma eða stundað módelsmíði eða safnað leikaramyndum. Það væri tæplega talið rétt af öðrum hv. alþm. að leggja mikið fé í félagsskap sem hefði þau áhugamál.

Ég er alveg sannfærð um að það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að hann hefur ekki með þessum aukafjárveitingum verið að auðgast sjálfur, enda held ég að þess gerist engin þörf. Það hefur heldur enginn hér svo mikið sem ýjað að því og skal það vera alveg ljóst.

Hitt er svo annað mál að við hljótum að eiga rétt á því að gera athugasemdir við svo háa tölu sem 213 millj. á þremur mánuðum í fjárveitingar sem enginn hefur tekið ákvörðun um þegar hér er ekki hægt að fá fé til nauðsynlegustu mála. Ég býst við að munað hefði um þessar 213 millj. í krabbameinslækningar, aðstöðu fyrir þroskahefta, fatlaða af öllu tagi eða hver þau önnur þjóðþrifamál sem við höfum því miður orðið að skera alvarlega niður. Það er það sem hv. þm. eru að gera athugasemd við. Ég þekki þá illa flokksbróður minn, hv. 5. þm. Reykn., ef honum hefði fundist í fjvn., þar sem hann hefur nú setið í um 20 ár, vera forgangsverkefni að JC-hreyfingin fengi að fara í kosningaferðalag til að fá heimsforseta, með allri virðingu fyrir því annars göfuga verkefni. Þannig má auðvitað lengi telja. Það getur vel verið að hæstv. iðnrh. telji þetta mikið og brýnt forgangsmál, en ég verð að lýsa því yfir að ég er ekki sömu skoðunar og hefði gjarnan séð því fé varið í önnur og þarfari verkefni.

Kvennahús? Nei, ég tel það ekki meðal forgangsverkefna. Mér finnst það afar ánægjulegt ef konur landsins geta eignast menningarmiðstöð, en ég verð að segja hreinskilnislega að ég hefði ekki treyst mér til að gera það að neinu forgangsverkefni meðan mál eru á þann veg í þjóðfélaginu að fjöldi manna, þúsundir manna eru að missa ofan af sér þakið, heimili sín, vegna fjárskorts. Mér finnst sú mynd falleg að sjá hæstv. iðnrh. leika hlut prinsins í Þyrnirósu og hefði gjarnan viljað sjá hinn fræga koss leikinn í kvennahúsinu, en forgangsverkefni held ég að ég geti ekki talið það.

Herra forseti. Ég þakka enn fyrir þessa umræðu. Ég tel að það sé af hinu góða að Alþingi hafi afskipti af öllum aukafjárveitingum og ég vil að lokum leggja á það áherslu að ég held að það væri verkefni hæstv. forseta að ræða það við þá sem það mál varðar hvort ekki sé ráð að frv. til aukafjárlaga verði lagt fram miklu fyrr en verið hefur og aðhald stórlega aukið að fjármálaráðherrum þjóðarinnar varðandi aukafjárveitingar.