16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

379. mál, lyfjafræðingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er flutt lítið frv. um breytingu á þeim kröfum sem gerðar eru í sambandi við réttindi lyfjafræðinga. Það er gert ráð fyrir að sá tími sem þeir eru skyldaðir til að starfa í apótekum sé styttur, enda var sá tími, sem nú er í lögum og það atriði varðar, miðaður við aðstæður sem voru allt öðruvísi en nú. Hann er miðaður við þann tíma þegar miklu meira af lyfjaframleiðslunni fór fram í apótekunum, en núna er gert ráð fyrir að losa um þetta. Tíminn er styttur úr einu ári í níu mánuði og gert ráð fyrir að af þessum níu mánuðum séu sex þeirra á námstímanum. Um þetta mál eru allir sem hlut eiga að því sammála, Apótekarafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands svo og háskóladeildin. Það er gert ráð fyrir að verði þetta frv. að lögum, sem ég vona að verði, gildi þetta einnig um þá sem útskrifast sem lyfjafræðingar nú í vor.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.