05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

23. mál, aukafjárveitingar

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorð, enda liðið á dag.

Hæstv. fyrrv. fjmrh. flutti nokkuð sérkennilega ræðu hér áðan. Hann kann svo sannarlega að verja sig. Hann sagði reyndar margt gott, ekki síst í garð kvenna, og margt af því kunni ég ágætlega að meta. Ég kunni að vísu lítt að meta athugasemd hans um grimmd kvenna hverrar í annarrar garð. Það er gamla klisjan „konur eru konum verstar“ sem hv. þm. er ekki sæmandi að fara með að mínum dómi.

Það er umhugsunarvert að engar þessara aukafjárveitinga, sem birtast hér á þskj., hafa vakið meira umtal né athugasemdir en fjárveiting hæstv. ráðherra til húseignarinnar Vesturgötu 3. Það er hins vegar minna talað um það yfirleitt þegar konur safna fyrir þessu og hinu, eins og þær gjarnan gera, og verja til hinna ýmsu líknarmála, lækningatækja o.s.frv. Það er ekki haft hátt um þær gerðir.

En ræðan var allsérkennileg eins og hæstv. ráðherra er von og vísa. Honum er lagið að snúa öllu í hendi sér. Hann er eins og kötturinn sem kemur alltaf standandi niður, eins og einn þm. heyrðist hvísla hér áðan. Hann snýr þessu máli þannig að það sé ekki við hann að sakast. Ónei, það er hv. Alþingi sem ber sökina. Það hefur verið svo vitlaust að treysta hæstv. ráðherra til að fara með þessi mál.

Ég ætla ekki að fjalla um einstakar aukafjárveitingar. Ég hef áður lýst skoðunum mínum opinberlega á þessu háttalagi og þær skoðanir hafa ekkert með það að gera að hér er um mörg hin þörfustu málefni að ræða sem hæstv. ráðherra hefur veitt fé til. Ég segi ekki að mér finnist ég niðurlægð sem fjárveitinganefndarmaður, en það er ekki laust við að örli á gremju og eftirsjá þegar hugsað er til umræðna í fjvn., mikilla umræðna, um hinar smæstu upphæðir í þeirri góðu trú að tekið sé mark á allri vinnunni.

Látum nú svo vera. Segjum að allar aukafjárveitingar hafi verið nauðsynlegar og réttlætanlegar. Eftir stendur að í upphafi ferilsins lýsti hæstv. fyrrv. fjmrh. því yfir að fjárlög yrðu raunhæf í sinni tíð og tími aukafjárveitinga væri liðinn. Þessu marglýsti hæstv. ráðherra yfir og hann lýsti því yfir að ef um slíkt yrði að ræða yrði haft náið samráð við fulltrúa fjvn.

Ég veit ekki betur en svo hafi verið í upphafi, þ.e. að formaður og varaformaður hafi verið til ráðuneytis, og ég spyr hæstv. fyrrv. fjmrh. hvort sá háttur hafi verið hafður á þetta árið að aukafjárveitingar þessar, sem hér eru til umræðu, hafi verið í samráði við formann og varaformann fjvn., og ef svo var ekki hvers vegna sá háttur hafi þá verið lagður niður. Ég get ekki fallist á að sumarfrí afsaki það að hæstv. ráðherra taki sér alræðisvald, einkanlega ekki með tilliti til þess sem hann hafði margsinnis áður sagt.

Ég vona að hann svari þessari spurningu. Og ég tek eindregið undir það með hv. 3. þm. Reykn. og hæstv. iðnrh. að um þetta þurfi skýrari reglur.