17.04.1986
Neðri deild: 84. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4013 í B-deild Alþingistíðinda. (3690)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Brtt. hljóðar upp á það að 2. og 3. málsl. 2. málsgr. falli brott í 41. gr., gildistökuákvæði. Þar er vísað til 27. og 29. gr. þ.e. þeirra ákvæða sem fjalla um að bankastjórar skuli eigi skipaðir til lengri tíma en sex ára í senn og í 29. gr. að bankastjórum og aðstoðarbankastjórum sé óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans og taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum o.s.frv.

Ég vil, herra forseti, um leið og ég geri grein fyrir atkvæði mínu, vekja athygli á því að þegar Alþingi samþykkti nýlega lög um viðskiptabanka voru ákvæði sem áttu að firra hagsmunaárekstri bankastjóra og forbuðu þeim setu í stjórnum annarra stofnana samþykkt og látin gilda frá og með gildistöku að því er varðaði bankastjóra viðskiptabankanna. Ef Alþingi ætlar að gera undanþágu frá þessum sérstöku grundvallarreglum, sem bankamálanefnd vildi leiða í lög og lagði eindregið til, er Alþingi að lýsa því yfir að það vilji gera reginmun á sumum bankastjórum og öðrum. Reyndar sagði ég í framsögu minni að samþykkt á þessari breytingu, það að þessi ákvæði skyldu gilda um þá bankastjóra sem nú sitja, væri prófsteinn á hvort löggjafarsamkoman ætlar að beygja sig fyrir seðlabankavaldinu eða ekki. Með því að hafa hér undanþáguákvæði er Alþingi að lýsa því yfir að það ætli að beygja sig fyrir valdi Seðlabankans og verða sjálfu sér til skammar. Ég segi þess vegna að því er varðar þessa brtt. já.