05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

23. mál, aukafjárveitingar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessar umræður, sem hér hafa farið fram, eru um margt athygli verðar. Að vísu hafa þær mestmegnis snúist um mismunandi mat á einstökum viðfangsefnum sem fyrrv. hæstv. fjmrh. hefur haft við að glíma í þessu efni, en hitt þykir mér vera meginatriði að í þessum umræðum hefur komið fram mjög skýr afstaða allra þeirra sem hér hafa talað um þau meginviðhorf sem ástæða er til að hafa í huga þegar aukafjárveitingar eru samþykktar. Sannleikurinn er sá að umræðurnar leiða í ljós að það er almennt viðurkennt að framkvæmdavaldið verður að hafa heimild til þess að gefa út eða samþykkja aukafjárveitingar í ákveðnum vissum tilvikum þar sem ófyrirséður vandi kemur upp, þar sem stjórnvöld verða að mæta ófyrirséðum launa- og verðlagsbreytingum svo dæmi séu tekin. Menn eru sammála um að þessar ákvarðanir verða að vera í samræmi við þá almennu stefnumörkun sem fram kemur í fjárlögum sem Alþingi hefur samþykkt. Nú má auðvitað um það spyrja hvort ástæða sé til að setja um þetta skrifaðar almennar reglur. Ég hygg að á margan hátt geti það verið erfitt. Svo fjölbreytileg atriði koma hér til álita að það kann að vera erfiðleikum háð. En meginatriðið er að mér sýnist að um grundvallaratriðin í þessu sé fullkomið samkomulag og einn vilji og eftir því verður auðvitað farið hér eftir sem hingað til.