17.04.1986
Neðri deild: 84. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4016 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég held að það verði mjög að íhuga það, ef sú er afstaða Alþb. að reyna að tefja fyrir þessu máli, ef það kemst ekki á dagskrá þessa fundar, að reyna að halda fundinum áfram. Ég vil undir engum kringumstæðum eiga undir því að þetta mál nái ekki fram að ganga. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við tökum málið á dagskrá til að tryggja framgang málsins. Menntmn. hefur lagt vinnu í að reyna að ganga þannig frá frv. að efnisatriði þess skýrðust til fullnustu. Síðast áttum við fund ég og sá hv. þm. sem hóf þessa utandagskrárumræðu, hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, með forustumönnum kennarasamtakanna og á þeirri stundu vissi ég ekki betur en hv. þm. væri reiðubúinn til þess að greiða götu málsins hér í þinginu. Það kemur mér mjög á óvart nú ef hann liggur uppi með einhverja vitneskju um að það að málið sé ekki tekið fyrir á þessum fundi kynni að valda því að það næði ekki fram að ganga. Það er þvert ofan í vilja þeirra manna sem um málið hafa fjallað í menntmn. þingsins og ég hef m.a. fullvissað forustumenn kennarasamtakanna um að ég vilji greiða fyrir framgangi málsins eftir því sem mér er unnt. Þess vegna verð ég að beina því til hæstv. forseta að hann reyni að greiða fyrir því að þessar umræður geti farið fram í dag til að fullnægja öllu réttlæti og til þess að fulltrúar Alþb. geti farið rólegir að sofa í kvöld.