17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4021 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

Almennar stjórnmálaumræður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það er eitt af einkennum nútímaþjóðfélags, fjölmiðlaþjóðfélagsins, að málin gera stuttan stans í hugum okkar. Hratt tekur eitt við af öðru og það fyrnist undrafljótt yfir athyglisverðustu mál og við erum fljót að gleyma. Þrennt er það, sem gerst hefur og borið hefur á góma í þingsölum og í fjölmiðlum að undanförnu, sem mig langar til að rifja aðeins upp og kannske setja í svolítið nýtt samhengi.

Hið fyrsta: Ráðstefna var haldin um fátækt á Íslandi. Þar var sagt og hefur víða verið endurtekið að 20 þús. íslenskar fjölskyldur, 20 þús. af 70 þús., byggju við lífskjör undir fátæktarmörkum. Okkur brá. Gat það rétt verið að í velferðarþjóðfélaginu árið 1986 væri svona komið, 20 þús. fjölskyldur undir fátækramörkum?

Annað: Frétt var lesin í sjónvarpi. Í athugun Þjóðhagsstofnunar var litið sérstaklega til fjölskyldna sem hafa meira en helming tekna sinna af sjálfstæðum atvinnurekstri. „Í ljós kom“, sagði orðrétt í fréttinni, „að 37% þeirra eru undir tilgreindum fátæktarmörkum.“ Við erum að tala um þá sem eru með eigin atvinnurekstur. Í hópi launþega reyndist fimmta hver fjölskylda undir þessum mörkum, en hins vegar rúmlega þriðja hver hjá þeim sem eru með sjálfstæðan atvinnurekstur.

Hið þriðja ætla ég að nefna. Þið sjáið samhengið sjálf. Í fyrradag svaraði fjmrh. og formaður Sjálfstfl. fsp. Jóhönnu Sigurðardóttur um umfang skattsvika. Þar kom fram að álitið er að ríkissjóður hafi tapað 2500-3000 millj. kr. vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts bara í fyrra. Er ekki samhengið skýrt? Fátækt í velferðinni og sjálfstæðir atvinnurekendur fjölmennir meðal hinna fátækustu, gífurleg skattsvik, svartur atvinnurekstur, menn skjóta sér undan að greiða milljarða til sameiginlegra þarfa.

Jú, vissulega er fátækt í velferðarþjóðfélaginu þótt draga megi í efa að svo margir megi kallast fátækir að þar sé um 20 þús. fjölskyldur að ræða. Marklausar tekjutölur á skattframtölum skattsvikaranna stækka þennan hóp verulega, en fátækt er vissulega til. Hvar er hún? Þar koma þrír hópar einkum upp í hugann.

Í fyrsta lagi einstæðar mæður með börn. Í öðru lagi aldraðir og öryrkjar sem hafa lífeyri almannatrygginga einan sér til framfæris. Í þriðja lagi ungt fjölskyldufólk sem er að berjast við að eignast þak yfir höfuðið og vinnur myrkranna á milli, en sér aldrei fram á að endar útgjalda og tekna nái að mætast. Þvert á móti breikkar það bil stöðugt eins og það raunar gerir almennt í þjóðfélaginu, bilið milli hinna ríku og fátæku, rökrétt afleiðing þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar fylgir. Það er staðreynd að stjórnarstefnan hefur fjölgað fátækum og gert þá enn þá fátækari.

Svo eru það sjálfstæðu atvinnurekendurnir og fátæktin. Í hópi sjálfstæðra atvinnurekenda eru bændur taldir. Óðaverðbólga og vitlaus stjórnarstefna hafa leikið íslenska bændur grátt. Þeir eru ekki of sælir af sínum hlut, en það er enginn fátækrabragur á milliliðakerfinu í landbúnaðinum - eða hvað sýnist ykkur? Þar skortir hvergi fé þótt kerfið skammti bændum hin kröppustu kjör.

Þegar fjmrh. og formaður Sjálfstfl. svaraði henni Jóhönnu Sigurðardóttur um skattsvikin hér á Alþingi í fyrradag var það í beinu framhaldi tveggja tillagna sem Alþingi samþykkti frá Alþfl. um athugun á umfangi skattsvika og aðgerðir gegn skattsvikum. Í framhaldi af samþykkt tillagna okkar var skipaður starfshópur til að kanna skattsvikin og verður skýrsla hans væntanlega birt á morgun. Þar er viðurkennt að dulin eða „svört“ atvinnustarfsemi sé allnokkur hér á landi með tilheyrandi skattsvikum. Við höfum sagt og segjum það enn, Alþýðuflokksmenn, að skattsvikin eru eitt hrikalegasta ranglæti sem viðgengst í þjóðfélaginu. Þau verður að uppræta því að með því er líka stigið skref til að uppræta fátæktina í landinu. Þjóðfélagið væri áreiðanlega talsvert öðruvísi ef hver og einn greiddi réttan skerf til sameiginlegra þarfa.

Lítum á annað, húsnæðismálin. Hversu margar fjölskyldur eru ekki að sligast eða kikna undan fjárhagsbyrðum vegna íbúðakaupa? Hve margir byggjendur og íbúðakaupendur síðustu ára hafa ekki staðið andspænis þeirri staðreynd um áramót að þeir áttu minna í íbúðinni sinni en áramótin á undan og voru þó ekki neinir vanskilamenn? Þeirri eignaupptöku verður að linna og það verður að gera fólki kleift að eignast húsnæði með mannsæmandi kjörum án þess að fara niður fyrir fátækramörkin, án þess að færa þær dýru fórnir sem margar fjölskyldur hafa þurft að færa til að fullnægja þeirri frumþörf að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Um síðustu helgi efndum við Alþýðuflokksmenn til fundar víðs vegar um land til að kynna nýjung, til að kynna nýja tillögu í húsnæðismálum sem við höfum lagt fram á Alþingi. Hún er um byltingu í húsnæðismálum, hún er um kaupleiguíbúðir, hún er um það hvernig hægt er að eignast íbúð með manneskjulegri hætti en unnt hefur verið til þessa.

Samkvæmt tillögum okkar, og þær eru margreiknaðar og fyllilega raunhæfar, er með kaupleigufyrirkomulaginu t.d. hægt að eignast 100 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi á 25 árum með því að greiða aðeins innan við 7 þús. kr. á mánuði miðað við lánakjör Byggingarsjóðs verkamanna og 9500 kr. á mánuði miðað við lánakjör Byggingarsjóðs ríkisins. Þessi till. okkar hefur vakið verðskuldaða athygli og ég skora á ykkur, góðir hlustendur, að kynna ykkur þetta mál. Þetta er eitt merkasta nýmæli í húsnæðismálum sem fram hefur komið í ein 50 ár eða allt frá því að Alþfl. innleiddi verkamannabústaðakerfið á Íslandi.

En við vorum að tala um fátæktina í velferðarþjóðfélaginu, velferðarþjóðfélaginu sem boðberar nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstfl. vilja feigt. Ég minntist á hina öldruðu. Aðbúnaður aldraðra í þessu þjóðfélagi er okkur til skammar. Hann er svartur blettur á þjóðfélaginu. Vitið þið að í Reykjavík einni eru á annað þúsund aldraðir á biðlista hjá Félagsmálastofnun sem bíða eftir húsnæði og umönnun? Þar af eru 400 á svokölluðum forgangslista. Hugsið ykkur hvaða forgangur það er, þrátt fyrir góðan vilja þeirra sem að þessu starfa, að vera nr. 399 á 400 manna forgangslista og það bætist við ein ný umsókn til jafnaðar á hverjum einasta degi.

Þessu verður að linna. En því linnir ekki meðan í landinu situr ríkisstj. sem hefur jafnlítinn skilning á félagslegu réttlæti og sú sem nú situr. Þessu verður ekki breytt meðan postular nýfrjálshyggjunnar ráða ferð og stefnu ríkisstj. Ef við eigum að sameinast um að breyta þessu og afmá þennan smánarblett verðum við líka að sameinast um að skipta um stjórn í þessu landi og hefja ný sjónarmið til öndvegis, sjónarmið þar sem réttur þeirra sem minna mega sín er virtur, þar sem mannúð og manngæska eiga sér ríkari sess en þau sjónarmið nýju frjálshyggjunnar sem nú drottna.

Og við skiptum um stjórn í þessu landi áður en langt um líður, en fyrst skulum við einbeita okkur að því að efla áhrif Alþfl. í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum um land allt, sem nú eru á næsta leiti, efla og styrkja áhrif þeirrar félagslegu mannúðarstefnu sem jafnaðarstefnan í eðli sínu er.

Þökk sé þeim er á mál mitt hlýddu. - Góðar stundir.