17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

Almennar stjórnmálaumræður

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Innan fárra daga fara fram þinglausnir og að hefðbundnum hætti fara nú fram almennar stjórnmálaumræður héðan frá Alþingi þar sem þið, áheyrendur góðir, fáið að heyra sjónarmið stjórnar og stjórnarandstöðu. Slíkar umræður geta vissulega verið gagnlegar ef þær eru byggðar á málefnalegum grunni.

Því hefur oft verið haldið fram af ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, og þá ekki síst þeim sem ranglega telja sig vera einu fulltrúa hér á Alþingi sem gæta hagsmuna kvenna og barna, að sú ríkisstjórn sem nú situr sé óvinveitt launþegum, að hún hugsi ekki um hag aldraðra, að ekki sé nú talað um konur og börn. Vitanlega eru svona fullyrðingar rangar og eru einungis settar fram til að villa um fyrir almenningi. Ég ætla að freista þess að drepa á nokkur atriði máli mínu til sönnunar.

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum voru sérstakar ráðstafanir gerðar til að bæta kjör hinna lægst launuðu. Ýmsar bætur almannatrygginga voru hækkaðar umfram almennar launahækkanir, svo sem uppbætur á lífeyri, tekjutrygging og heimilisuppbætur. Mæðralaun, sem voru svo smánarleg að furðu sætir, voru hækkuð um 100% með 1 barni og 30% með 2 eða 3 börnum.

Þrátt fyrir þessar hækkanir voru þær ekki til að miklast yfir. Þegar þáverandi heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson lét af embætti voru mæðralaun með einu barni litlar 247 kr. á mánuði. Þegar núverandi ríkisstj. tók við hækkaði hún þessar greiðslur í 493 kr. eða um 100% . Nú eru mæðralaun með einu barni 2222 kr. á mánuði eða 900% hækkun á þeim tæplega þremur árum sem þessi ríkisstj. hefur setið. Mæðralaun með tveimur og þremur börnum hafa hækkað um 400% á sama tímabili.

Áður en þingi lýkur verður tillaga heilbrrh. Ragnhildar Helgadóttur væntanlega að lögum þar sem mæðralaun verða greidd með börnum einstæðra foreldra til 17 ára aldurs í stað 16 ára nú frá 1. júní n.k. og til 18 ára aldurs frá n.k. áramótum. Þessar ráðstafanir verða væntanlega bót fyrir einstæða foreldra sem eiga unglinga á þessum aldri og gera þeim fremur auðveldara að stunda framhaldsnám.

Í sama frv. er gert ráð fyrir að sjúkratryggingar taki þátt í heimahjúkrun, en svo er ekki í núgildandi lögum. Slík þjónusta, sem heimilum er ofviða í mörgum tilvikum að veita, mun bæta úr brýnni þörf ekki síst hvað varðar aldraða.

Þá hefur ráðherra einnig kynnt athyglisverðar hugmyndir um að koma á dagvistun aldraðra í heimahúsum.

Fjárframlög til Framkvæmdasjóðs aldraðra eru næstum tvöfalt hærri en á síðasta ári vegna breytinga sem gerðar voru á lögunum.

Leiðrétting á lögum almannatrygginga varðandi fæðingarorlof hefur verið gerð vegna fleirburafæðingar. Jafnframt hefur ráðherra nú skipað nefnd undir forustu Ingibjargar Rafnar, formanns félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar, til að endurskoða núgildandi ákvæði í lögum almannatrygginga um fæðingarorlof og fæðingarstyrk með endurbætur á fyrirkomulaginu fyrir augum.

Jafnréttismálin hafa oft borið á góma hér í þingsölum og ekki síst það launamisrétti sem er ríkjandi gagnvart konum almennt, sérstaklega þegar það er haft í huga að konur eru fjölmennastar í láglaunahópunum. Það vantar ekki lög til að leiðrétta slíkt misrétti. Konur verða að standa saman í þeirri baráttu á vinnumarkaðinum og láta sjálfar til sín taka við gerð kjarasamninga. Það gerir það enginn annar.

Einn þáttur varðandi kjaramálin er sá að fá metin heimilisstörf til starfsreynslu á vinnumarkaðinum við hliðstæð störf í almennum kjarasamningum. Þetta er réttlætismál sem þarf að koma inn í kjarasamninga almennt. Sú mikla umræða, sem orðið hefur um launalegt misrétti gagnvart konum, hefur vakið athygli, haft áhrif og er nú viðurkennd. Ég trúi því að hún eigi eftir að skila sér enn betur í náinni framtíð.

Að undanförnu hefur verið talsverð umræða um þörfina á betra samstarfi heimila og skóla og tengist hún m.a. þeim skýrslum sem unnar voru af vinnuhópi sem Ragnhildur Helgadóttir þáverandi menntmrh. skipaði í upphafi þessa kjörtímabils og hafði það hlutverk að kanna tengsl heimila og skóla, samfelldan skóladag og nestismál skólabarna. Með skipan vinnuhópsins var mörkuð stefna ríkisstj. í þessu brýna hagsmunamáli ungs fólks í landinu, máli sem varðar börn, unglinga og foreldra með börn á framfæri, mál sem tengist einnig forvarnarstarfi á sviði slysavarna og heilsugæslu.

Skýrslurnar hafa fengið jákvæðar undirtektir foreldra og skólamanna. Óhætt er að fullyrða að það er stefna stjórnvalda að vinna markvisst að úrbótum í þessum málum í samvinnu við bæjar- og sveitarfélög og óhætt er að treysta á góða samvinnu við foreldra og forráðamenn skóla sem nú þegar hafa margir reynt að aðlaga sig breyttum högum heimilanna. Ungt fólk á í sífelldu basli með að samræma dýrmætan vinnutíma sinn slitróttum skóladegi barna sinna. Því er samfelld viðvera nemenda í skólum eitt brýnasta hagsmunamálið og að þeim verði tryggð holl næring í skólanum.

Það má segja að börnin hafi gleymst að þessu leyti. Vinnustaðamáltíðir hafa tekið við af heimamáltíðum um miðjan daginn hjá flestum fjölskyldum. Hvers eiga börnin að gjalda? Eitt skref í rétta átt var að greiða niður skólamjólk eins og nú hefur verið gert, en áfram þarf að vinna að lausn þessa þáttar skólastarfsins.

Í nýafstöðnum kjarasamningum og þeim efnahagsráðstöfunum ríkisstj., sem fylgdu í kjölfarið, voru í fyrsta skipti um langan tíma lagðar efnahagslegar forsendur til grundvallar kjarasamningum og horfið frá leið hárra prósentuhækkana og gengisfellinga en í stað þess byggt upp á stöðugu gengi og hóflegum launahækkunum ásamt ýmsum ráðstöfunum til þess að tryggja sem best lífskjör fólksins í landinu. Horfið var frá leið verðbólgunnar sem stefnt hefur hag heimilanna og friðsæld fjölskyldnanna í hættu.

Óhætt er að segja að kjarasamningarnir séu tímamótasamningar. Þeir eru alger andstæða kjarasamninganna sem gerðir voru haustið 1984. Þá reyndi ríkisstj. að fara leið skattalækkana og bauð fram aðgerðir í þá veru líkt og nú. Um þá leið tókst því miður ekki samstaða með þeim afleiðingum sem alþjóð þekkir. Þessir samningar líkjast mun meir kjarasamningunum frá því í febrúar 1984. Í þeim samningum náðust fram mikilvæg atriði sem ekki má gleyma. Þá var tekinn upp sérstakur tekjutengdur barnabótaauki, óendurkræfur barnalífeyrir var hækkaður og sömuleiðis mæðra- og feðralaun. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum voru tekjutrygging, frítekjumark og heimilisuppbót hækkuð.

Í gær voru samþykkt á Alþingi ný sveitarstjórnarlög. Þau fela m.a. í sér að staðfest er sú stjórnarskrárbreyting sem gerð var 1983 og fá 18 ára einstaklingar nú í fyrsta skipti að kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Þessu ber vissulega að fagna og sjálfstæðismenn eru ekki í nokkrum vafa um að hinir nýju ungu kjósendur munu ráðstafa atkvæði sínu að vel athuguðu máli.

Á undanförnum árum hefur tilhneigingin verið sú að miða réttindi borgaranna við 18 ára aldur. Þeir sem orðnir eru 18 ára hafa leyfi til að gifta sig. Þeir eru fjárráða og að öllu leyti fullgildir þjóðfélagsþegnar. Þeir bera þær skyldur sem þjóðfélagið leggur þeim á herðar. Þess vegna eiga þeir að hafa þau réttindi sem borgarar í lýðræðisríkjum hafa. Það er því von mín, og ég beini orðum mínum til þeirra 25 þúsund ungmenna sem nú kjósa í fyrsta skipti, að þau kynni sér vel þann mun sem er á stefnumálum stjórnmálaflokka til sveitarstjórna og hugi vel að því hvernig þeir ráðstafa atkvæði sínu.

Sjálfstfl. hefur ávallt sótt styrk til ungra kjósenda, lagt megináherslu á að gera ungu fólki kleift að eignast eigið húsnæði og heimili og viljað standa vörð um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins.

Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.